Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. febrúar 2007 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 25. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur

Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 1. febrúar 2007 klukkan 17.00 síðdegis.  Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Jón Kristjánsson (formaður), Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Þorsteinn Pálsson. Bjarni Benediktsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jónína Bjartmarz og Össur Skarphéðinsson voru forfölluð. Þá voru einnig mætt úr sérfræðinga­nefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður) og Gunnar Helgi Kristinsson. Kristján Andri Stefánsson var forfallaður. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.

 Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt án athuga­semda. 

 

2. Erindi sem hafa borist

 Lagt var fram framsent bréf Þórunnar Guðmundsdóttur hrl., sem var oddviti yfirkjörstjórnar í Reykjavík norður í síðustu forsetakosningum, til dómsmálaráðherra þar sem hún vakti athygli á tilteknum atriðum varðandi ákvæði 5. gr. stjórnarskrárinnar um fjölda meðmælenda og landfræðilega skiptingu þeirra, eins og hún er útfærð í lögum nr. 36/1945.

 

3. Breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar

 Lögð voru fram endurskoðuð drög að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingu á 79. gr. ásamt greinargerð. Þá voru kynnt drög að frumvarpi til breytinga á þingskapalögum auk frumvarps til laga um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu skv. 79. gr. stjórnarskrárinnar sem myndu fylgja með til kynningar.

 Formaður greindi frá fundi sem hann hefði átt með skrifstofustjóra Alþingis þar sem rædd voru þau atriði í frumvarpinu sem sneru að störfum Alþingis og fælu í sér fráhvarf frá almennum reglum um meðferð þingmála.

 Samþykkt var að formaður myndi senda frumvarpið ásamt ofangreindum fylgiskjölum til forsætisráðherra sem niðurstöðu nefndarinnar.

 

4. Starfið framundan – kynning á niðurstöðum nefndar

 Lögð voru fram drög að áfangaskýrslu. Fram komu athugasemdir við að fjallað skyldi um umhverfisvernd og auðlindamál í sama vetfangi. Var ritara falið að uppfæra skjalið í ljósi þessarar athugasemda og annarra athugasemda sem nefndarmenn kynnu að senda fram að næsta fundi.

 Þá var nokkuð rætt um hvort ástæða væri til þess fyrir nefndina að kynna niðurstöður sínar með sérstökum hætti en engin ákvörðun tekin í því efni.

 

5. Önnur mál

 Næsti fundur var ákveðinn þriðjudaginn 6. feb. kl. 17.30-19 í Þjóðmenningarhúsinu. Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 18.00.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum