Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. febrúar 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Ísland gerist aðili að fjölþjóðlegu verkefni um aukið öryggi sjúklinga

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra undirritaði í dag samkomulag um þátttöku Íslands í fjölþjóðlegu verkefni sem nefnist Hreinlæti og örugg heilbrigðisþjónusta haldast í hendur (Clean Care is Safer Care). Verkefninu er stýrt af heimssamtökunum World Alliance for Patient Safety, sem eru samtök á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Nú þegar hafa heilbrigðisráðherrar um 50 landa undirritað samkomulag um aðild að verkefninu. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra undirritaði samkomulagið í tengslum við heimsókn Sir Liam Donaldsson, landlæknis Bretlands hingað til lands, en hann er einnig framkvæmdastjóri World Alliance for Patient Safety.

Verkefnið felur í sér að þátttakendur takast á hendur ákveðnar skuldbindingar um aðgerðir til að vinna að fækkun sýkinga sem eiga upptök sín í heilbrigðisþjónustu. Helstu skuldbindingar eru þær að:

  • Viðurkenna ógn sýkinga, sem eiga upptök sín í heilbrigðisþjónustu
  • Þróa stöðugan áróður á landsvísu til að bæta handþvott meðal heilbrigðisstarfsmanna
  • Bæta aðgengi áreiðanlegra upplýsinga um sýkingar sem eiga upptök sín í heilbrigðisþjónustu, til að geta gripið til viðeigandi ráðstafana.
  • Deila reynslu, og ef viðeigandi, upplýsingum með WHO - World Alliance for Patient Safety
  • Íhuga að nota verklagsreglur og vinnuleiðbeiningar WHO til að berjast gegn sýkingum sem eiga upptök sín í heilbrigðisþjónustu, s.s. varðandi handþvott, blóðgjafir, sprautugjöf, bólusetningar, klínískar aðgerðir, notkun vatns, hreinlæti og förgun úrgangs

Skuldbinding felur einnig í sé að vinna með heilbrigðisstarfsfólki og samtökum þeirra til að:

  • Efla fagleg vinnubrögð til að daga úr hættu á sýkingum sem eiga upptök sín í heilbrigðisþjónustu.
  • Hvetja til frekari samvinnu rannsóknastofnana, háskóla og annarra skóla þar sem menntun heilbrigðisstétta fer fram svo og heilbrigðisstofnana til að tryggja full not fyrirliggjandi þekkingar á sýkingum, sem eiga upptök sín í heilbrigðisþjónustu.
  • Hvetja yfirstjórnendur til að styðja og efla lykilstarfsfólk í að vera fyrirmynd við að innleiða aðferðir til að sporna við sýkingum, sem eiga upptök sín í heilbrigðisþjónustu.

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sagði við undirritun samkomulagsins að öryggi sjúklinga væri grunnur að gæðum þjónustu og því teldu íslensk stjórnvöld það mjög mikilvægt að setja öryggi í forgrunn heilbrigðisþjónustunnar hér á landi.

Tölfræðilegar upplýsingar:

  • Sýnt hefur verð fram á að einfaldur hlutur eins og handþvottur getur komið í veg fyrir margar sýkingar og smit.
  • Talið er að á hverjum tíma glími um 1,4 milljónir manna í heiminum við sýkingar sem eiga upptök sín á heilbrigðisstofnunum. Í vestrænum ríkjum er talið að um 5 - 10% sjúklinga sýkist af einni eða fleiri sýkingu á heilbrigðisstofnunum og allt að 15 - 40% þeirra sjúklinga sem lagðir eru inn á gjörgæsludeildir. Áhættan er tvisvar til tuttugu sinnum meiri í þróunarlöndunum.
  • Í Bandaríkjunum er talið að einn af hverjum 136 sjúklingum verði alvarlega veikir vegna sýkinga sem þeir verða fyrir á heilbrigðisstofnunum, eða um 2 milljónir manna á ári, sem kosta heilbrigðiskerfið um 4,5- 5,7 milljarða bandaríkjadala og valda um 80 þúsund dauðsföllum á ári.
  • Í Englandi er talið að á ári hverju komi upp um 100 þúsund sýkingatilvik sem rekja má til heilbrigðisstofnana og er áætlað að kostnaður vegna þeirra sé um 1 milljarður punda og talið að þau valdi yfir 5 þúsund dauðsföllum.

Nánari upplýsingar um verkefnið Hreinlæti og örugg heilbrigðisþjónusta haldast í hendur er að finna á heimasíðu Landlæknisembættisins í tengslum við málþing um öryggi sjúklinga sem haldið var í dag, 8. febrúar, en þar var aðalfyrirlesari Sir Liam Donaldsson, landlæknir Bretlands.

Einnig má lesa nánar um verkefnið á heimasíðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Yfirlýsing um þátttöku Íslands í verkefninu Hreinlæti og örugg heilbrigðisþjónusta haldast í hendur (pdf 277KB)

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum