Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. febrúar 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Framkvæmdir hafnar við byggingu nýs hjúkrunar­heimilis við Suðurlandsbraut

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri í Reykjavík tóku fyrstu skóflustunguna að nýju hjúkrunarheimili við Suðurlandsbraut í dag. Einnig var undirritaður verksamningur við Jarðvélar ehf. sem sjá um jarðvegsframkvæmdir vegna verksins.

Á hjúkrunarheimilinu verða 110 hjúkrunarrými. Af þeim eru 40 rými ætluð fyrir heilabilaða. Einnig verður þar 10 rýma deild fyrir geðsjúka aldraða og er það fyrsta hjúkrunardeildin hér á landi sem er ætluð þessum hópi. Miðað er við að allir íbúar hjúkrunarheimilisins verði í einbýli. Hvert herbergi er um 24 fermetrar að meðtöldu baðherbergi.

Hönnun hússins er á lokastigi og verða byggingarframkvæmdir væntanlega boðnar út í byrjun apríl. Samhliða verður lögð fram kröfulýsing, þ.e. lýsing á þeim kröfum sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið gerir til þjónustu og aðbúnaðar og á þeim grundvelli verður auglýst eftir rekstraraðilum. Þeir sem bjóða í rekstur heimilisins munu ekki keppa um verð heldur um fyrirkomulag og gæði þjónustunnar, en daggjaldagreiðslur til heimilisins munu byggjast á greiðslulíkani heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.

Endanleg kostnaðaráætlun er ekki fullgerð en mat á heildarkostnaði framkvæmdarinnar er um 1950 milljónir króna og miðast við að heimilið sé þá fullbúið til reksturs með öllum nauðsynlegum búnaði. Fjármögnun framkvæmdanna skiptist þannig að 40% koma úr Framkvæmdasjóði aldraðra, 30% greiðir Reykjavíkurborg og 30% koma af fjárlögum ríkisins.

Arkítektar hússins eru Yrki ehf. en um verkfræðiráðgjöf hafa séð VGK Hönnun Hf. og Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar ehf. Landslag ehf. hefur séð um landslagshönnun.

Jarðvélar ehf. sem sjá um jarðvegsvinnu vegna verksins voru í hópi tólf verktaka sem buðu í verkið. Öll tilboð voru undir kostnaðaráætlun en Jarðvélar buðu lægst, 21,2 milljónir króna.

Reiknað er með að nýja hjúkrunarheimilið við Suðurlandsbraut verði tekið í notkun í byrjun árs 2009.  

Vesturhlið nýja hjúkrunarheimilisins, horft frá Suðurlandsbraut
Vesturhlið nýja hjúkrunarheimilisins, horft frá Suðurlandsbraut



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum