Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. febrúar 2007 Innviðaráðuneytið

Öryggisaðgerðir á vegum í þágu slysavarna

Öryggi vega var yfirskrift fundar samgönguráðs og samgönguráðuneytis í dag í fundaröðinni um stefnumótun í samgöngum. Þrír sérfræðingar ræddu þar um öryggisaðgerðir á vegum og öryggi vegamannvirkja.

Frá fundi samgönguráðs um öryggi vega.
Frá fundi samgönguráðs um öryggi vega.

Torstein Bergh frá sænsku vegagerðinni ræddi ýmsar hliðar á vegakerfi Svíþjóðar, skýrði frá uppbyggingu þess, reglum um hámarkshraða og reynsluna af 2+1 vegum. Alls eru um 1.500 km í sænska vegakerfinu með 2+1 laginu þar sem skiptast á vegakaflar sem eru ein akrein í aðra áttina og tvær í hina. Akstursstefnur eru aðskildar með víravegriði. Sænski sérfræðingurinn sagði reynslu Svía góða af umræddu fyrirkomulagi sem tekið hefði verið upp fyrir áratug. Enn væru byggðir vegir með þessu sniði og þegar umferð um þá ykist væri fjórðu akreininni bætt við og þeir gerðir að hraðbraut með tveimur akreinum í hvora átt.

Auður Þóra Árnadóttir, forstöðumaður umferðardeildar Vegagerðarinnar, fjallaði um öryggisaðgerðir á vegum. Greindi hún frá slysum og tegundum þeirra og kom fram í máli hennar að algengustu umferðarslys á þjóðvegum væru útafakstur og þegar bílar mætast. Sagði hún túlkun slysatalna sýna að miklu skipti að umhverfi vega væri þannig úr garði gert að afleiðingar útafaksturs verði sem minnstar og mikilvægt væri að aðskilja akstursstefnur. Þá sagði hún hálkuvarnir og skipta miklu máli. Sagði hún lagfæringu á vegakerfinu umfangsmikið verkefni sem standa myndi mörg ár.

Jón Helgason, framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs Vegagerðarinnar, fjallaði um öryggi vegamannvirkja og hvernig mat á mannvirkjum, úttektir og öryggisstjórnun væru sífellt þýðingarmeiri þættir í hönnun og gerð þeirra. Hann sagði sumar- sem vetrarþjónustu mikið öryggisatriði svo og alla upplýsingagjöf um veður og færð. Einnig kom fram í máli hans að unnið hefur verið að endurskoðun vegstaðals, meðal annars komið fram nýr staðall um vegrið, nýjar leiðbeiningar um gerð hringtorga og um gerð 2+1 vega.

Frá fundi samgönguráðs um öryggi vega.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum