Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. mars 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra opnar nýtt húsnæði Brunamálaskólans á Miðnesheiði

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra við opnun Brunamálaskólans
Við opnun Brunamálaskólans

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra tók í dag formlega í notkun nýtt húsnæði Brunamálaskólans á gamla varnarsvæðinu á Miðnesheiði. Í húsnæðinu er góð aðstaða til bóklegrar og verklegrar kennslu fyrir nemendur skólans sem eru árlega á bilinu 200-300 talsins. Húsnæðið er 400 fermetrar að stærð. Þar eru kennslustofur og starfsaðstaða fyrir skólastjóra og kennara, auk 100 fermetra aðstöðu til verklegrar kennslu. Auk þess er góð aðstaða á svæðinu til að kenna reykköfun, björgun úr bílflökum, neyðarakstur og fleira sem slökkviliðsmenn læra á námskeiðum skólans. Brunamálaskólinn hefur verið starfræktur á vegum Brunamálastofnunar frá stofnun hans árið 1994. Hlutverk skólans er að veita slökkviliðsmönnum og eldvarnaeftirlitsmönnum um allt land þá menntun, starfsþjálfun og endurmenntun sem nauðsynleg er vegna starfa þeirra. Skólinn hefur ekki áður haft fast aðsetur.

Fyrstu nemendurnir hafa þegar hafið nám á nýja staðnum því 16 manns taka nú þátt í fyrri hluta þriggja mánaða námskeiðs fyrir atvinnuslökkviliðsmenn. Námskeið fyrir slökkviliðsstjóra stendur einnig yfir. 

Hér að neðan má lesa ávarp sem umhverfisráðherra flutti við opnun Brunamálaskólans í dag.

Ágætu gestir.

Ég fagna því sérstaklega að fá að vera með ykkur hér nú og taka formlega í notkun nýtt húsnæði Brunamálaskólans á varnarsvæðinu á Miðnesheiði. Hér er góð aðstaða til bóklegrar en ekki síður verklegrar kennslu eins og við sjáum hér þegar við lítum í kringum okkur.

Brunamálaskólinn var stofnaður árið 1994 og hefur verið starfræktur á vegum Brunamálastofnunar síðan. Hlutverk skólans er að veita slökkviliðsmönnum, slökkviliðsstjórum og eldvarnaeftirlitsmönnum um allt land þá menntun, starfsþjálfun og endurmenntun sem nauðsynleg er vegna starfa þeirra.

Á undanförnum árum hafa verkefni slökkviliða landsins hvað varðar björgun fólks vegna slysa, elds og náttúruhamfara vaxið mjög. Verkefnin eru ekki aðeins að slökkva elda og fara með forvarnir í brunamálum varðar, heldur sinna slökkviliðin ákaflega mörgum öðrum björgunarverkefnum, svo sem viðbragði við mengunarslysum, björgun úr bílflökum og viðbragði vegna vatnstjóns, til að nefna nokkur dæmi.

Ástandið í heimsmálum, aukin verðmæti og þróun atvinnulífsins hafa síðan orðið til þess að þjóðfélagið leggur síaukna áherslu á innra öryggi, bæði atvinnulífsins og borgarana, og þar gegna slökkviliðin lykilhlutverki. Það er því brýnt að standa vel að menntun og þjálfun þeirra sem gegna þessum störfum.

Brunamálaskólinn hefur það hlutverk annars vegar að mennta og þjálfa þá hlutastarfandi slökkviliðsmenn sem sinna björgunarstörfum víða um land. Þannig heldur skólinn árlega um 25 helgarnámskeið, á mörgum stöðum á landinu, fyrir rúmlega 200 hlutastarfandi slökkviliðsmenn.

Hins vegar heldur skólinn margvísleg lengri og sérhæfðari námskeið, sem hingað til hafa verið haldin á höfuðborgarsvæðinu í húsnæði sem skólinn hefur fengið að láni hverju sinni. Nefna má þriggja mánaða námskeið fyrir atvinnuslökkviliðsmenn, en halda verður tvö slík námskeið á hverju ári. Einnig eru haldin fjölmörg önnur námskeið fyrir slökkviliðsstjóra, stjórnendur í slökkviliðum og eldvarnaeftirlitsmenn.

Það skiptir miklu máli að standa vel að þeirri menntun og þjálfun sem Brunamálaskólinn veitir. Það er því mjög ánægjulegt að Brunamálaskólinn hefur nú loksins fengið fast aðsetur, í húsnæði sem mér sýnist vera einmitt mjög viðeigandi fyrir þá starfsemi sem þarf að fara fram í skólanum. Og hér í nágrenninu er fyrirtaks aðstaða til allskyns verklegrar kennslu á sviði skólans, svo sem kennslu í neyðarakstri, reykköfun, björgun úr bílflökum, viðbragði við mengunarslysum og slökkvistarfi almennt.

Með föstu aðsetri skólans skapast miklir möguleikar til að styrkja enn frekar og byggja upp aðstöðu til menntunar og þjálfunar slökkviliðsmanna, þar með talið möguleika til að nýta nýjustu tækni í fjarkennslu. Ég vil því óska slökkviliðsmönnum á Íslandi til hamingju með þetta nýja húsnæði Brunamálaskólans og ég er viss um að atvinnulífið og við öll eigum, þegar til lengdar lætur, eftir að njóta góðs af þessu mikla framfaraskrefi í menntunarmálum slökkviliðsmanna.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum