Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. mars 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Íslensk dagskrá á 51. kvennanefndarfundi SÞ í New York

Íslenskir þátttakendur á 51. kvennanefndarfundi SÞ í New YorkFélagsmálaráðuneytið efndi í samvinnu við frjáls félagasamtök til sérstakrar dagskrár í tengslum við fund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í New York. Fjallað var um ýmsar leiðir sem farnar hafa verið á Íslandi til að stuðla að jafnrétti. Jafnréttisþróunin á Íslandi sker sig að sumu leyti frá þróuninni í öðrum ríkjum Norðurlanda, svo sem hvað varðar kvennafrídag, kvennalista, fæðingarorlofslögin og þátttöku karla í jafnréttisbaráttunni. Sú staðreynd að yfir 90% íslenskra feðra taka að minnsta kosti þriggja mánaða fæðingarorlof vekur mikla athygli og þá þótti Hjallastefnan, sem Margrét Pála Ólafsdóttir kynnti, mjög athyglisverð.

„Það er afar ánægjulegt hve margar þjóðir leita til okkar um samstarf og ráðgjöf varðandi fæðingarorlof feðra,“ sagði Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra að loknum fundinum. „Fulltrúar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og einstakra landa innan og utan Evrópu sýndu áhuga á samstarfi á þessu sviði og fleirum og við munum kappkosta að sinna því vel enda er slíkt samstarf beggja hagur,“ sagði ráðherra.

Fundarstjóri á hinni íslensku málstofu var Ásta Möller alþingiskona en framsögumenn Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra, Sjöfn Vilhelmsdóttir, framkvæmdastjóri UNIFEM á Íslandi, Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjalla ehf ., Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta , Þorbjörg Inga Jónsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands, og Ingólfur V. Gíslason, sviðsstjóri rannsóknarsviðs á Jafnréttisstofu.  

Fulltrúar Íslands ásamt fulltrúum Danmerkur og Noregs stóðu enn fremur fyrir málstofu undir yfirskriftinni The Nordic Father: Role Model for a Caring Male? Magnús Stefánsson opnaði fundinn og Ingólfur V. Gíslason sagði frá íslensku fæðingarorlofslöggjöfinni og áhrifum hennar á íslenskt samfélag. Fundarstjóri var Øystein Gullvåg Holter frá Norrænu stofnuninni fyrir kvenna- og kynjarannsóknir (NIKK) og aðrir framsögumenn voru Vibeke Abel frá félags- og jafnréttismálaráðuneyti Danmerkur, Arni Hole frá barna- og jafnréttismálaráðuneyti Noregs og Per Kristian Dotterud, framkvæmdastjóri Reform í Noregi.  

Ísland skipar til ársins 2008 sæti Norðurlandanna í Kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna og hefur tekið mjög virkan þátt í starfi nefndarinnar. Fulltrúar félagsmálaráðuneytisins á fundi Kvennanefndarinnar voru Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra, Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri og Ingi Valur Jóhannsson, deidarstjóri.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum