Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. mars 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Ný lög um heilbrigðisþjónustu og landlækni

Hinn 17. mars sl. samþykkti Alþingi ný lög um heilbrigðisþjónustu og taka þau gildi 1. september 2007. Núgildandi lög um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 eru að stofni til frá árinu 1973 og eru þau úrelt og óskýr í ýmsum atriðum. Frumvarp það sem nú er orðið að lögum er afrakstur viðamikils nefndastarfs sem staðið hefur frá árinu 2003, með þátttöku m.a. fulltrúa stjórnmálaflokka, landlæknis, Læknafélags Íslands, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sjúklingasamtaka og aðila vinnumarkaðarins. Með nýju lögunum er bætt úr brýnni þörf fyrir skýran lagaramma um grunnskipulag hins opinbera heilbrigðisþjónustukerfis. Lögin byggja á því grundvallarsjónarmiði að haldið skuli uppi öflugu opinberu heilbrigðiskerfi sem allir landsmenn eigi jafnan aðgang að óháð efnahag og búsetu. Lögð er áhersla á að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og eftirlit með henni. Einnig er lögð áhersla á að almenn heilbrigðisþjónusta sé veitt í heimabyggð og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Kveðið er á um hlutverk Landspítala sem aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús og hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri sem kennslusjúkrahús og sérhæft sjúkrahús.

Lög um landlækni

Hinn 17. mars sl. samþykkti Alþingi ennfremur lög um landlækni og taka þau sömuleiðis gildi 1. september 2007. Þó embætti landlæknis standi á gömlum merg eru ákvæði gildandi laga tiltölulega fábrotin og dreifð. Meginlagastoð fyrir starfrækslu embættisins er að finna í 3. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu. Nefnd sú sem falið var að endurskoða lög um heilbrigðisþjónustu taldi nauðsynlegt að setja ítarlegri ákvæði um landlæknisembættið og að þau væru í einum lögum. Nefndin lagði því til að sett yrðu sérstök lög um landlækni.  Í lögunum er kveðið skýrar á um stöðu og hlutverk landlæknis sem eftirlitsstofnun.  Þar er m.a. kveðið nánar á um skyldu landlæknis til að hafa faglegt eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum og heilbrigðisþjónustu.  Þá er kveðið á um skráningar- og tilkynningarskyldu heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsmanna þegar eitthvað fer úrskeiðis við veitingu heilbrigðisþjónustu og  hlutverk landlæknis við gæðaþróun innan heilbrigðisþjónustunnar.  

Lögin í endanlegri mynd á vef Alþingis:

 

 

Uppfært 27. mars 2007

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum