Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. mars 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherrar Íslands, Írlands, Noregs og Austurríkis hvetja til lokunar Sellafield

Umhverfisráðherrar Íslands, Írlands, Noregs og Austurríkis á fundi í Dublin. F.h. Josef Pröll, umhverfisráðherra Austurríkis, Jónína Bjartmarz, Dick Roche frá Írlandi og Helen Björnöy frá Noregi.
Í Dublin

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra sat í gær fund umhverfisráðherra fjögurra ríkja í Dublin á Írlandi, þar sem rætt var um kjarnorku og fyrirhugaða enduropnun THORP-endurvinnsluversins í Sellafield á Englandi. Ráðherrarnir hvetja bresk stjórnvöld til að opna verið ekki að nýju í ljósi ítrekaðra öryggisvandamála sem komið hafa þar upp, en hefja þess í stað undirbúning að lokun Sellafield-stöðvarinnar.

Nokkur umræða hefur verið undanfarin misseri í Evrópu og víðar um að auka orkuframleiðslu með kjarnorku í ljósi loftslagsbreytinga. Í yfirlýsingu umhverfisráðherra Íslands, Írlands, Noregs og Austurríkis sem ritað var undir á fundinum vara þeir sterklega við því að litið sé á kjarnorku sem góða lausn á loftslagsvandanum. Notkun kjarnorku til orkuframleiðslu fylgi veruleg vandamál varðandi öryggi kjarnorkuvera og meðferð og geymslu geislavirks úrgangs. Auk þess töldu ráðherrarnir að áhersla á kjarnorku dragi athygli frá þeim aðgerðum sem best tryggja langtímaárangur í loftslagsmálum: orkusparnaði og notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Ríki sem íhuga notkun kjarnorku eru hvött til þess að setja fram viðunandi lausnir á þeim vanda sem henni fylgir, þannig að fólki og umhverfinu stafi ekki hætta af geislamengun.

Endurvinnsla Breta á geislavirkum úrgangi í Sellafield og losun geislavirkra efna í hafið hefur lengi verið íslenskum stjórnvöldum þyrnir í augum. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað lýst yfir áhyggjum vegna Sellafield-stöðvarinnar og endurteknum óhöppum, oft í samvinnu við stjórnvöld á hinum Norðurlöndunum og á Írlandi.

Eitt alvarlegasta slysið í Sellafield varð í svokölluðu THORP-veri þar árið 2005, þegar 83 þúsund lítrar af mjög geislavirkum vökva láku úr leiðslu, sem uppgötvaðist ekki fyrr en nokkrum mánuðum eftir að hann hófst. Verinu var þá lokað og skýrsla breskra stjórnvalda um óhappið sýndi fram á að öryggismálum í verinu var stórlega ábótavant. Engu að síður hafa bresk stjórnvöld nýlega tekið ákvörðun um að enduropna THORP-verið. Umhverfisráðherra sagði á fundinum að nú hefðu bresk stjórnvöld gullið tækifæri til að binda enda á umdeilda starfsemi, sem hefði einkennst af óhöppum og erfiðleikum.

Í yfirlýsingu ráðherranna eru bresk stjórnvöld hvött til þess að hætta við enduropnun THORP-versins, vegna þess að hún muni auka losun geislavirkra efna í umhverfið og auka hættuna á hættulegri geislamengun. Hvatt er til þess að endurvinnslu kjarnorkuúrgangs í Sellafield verði hætt og að hafist verði handa við lokun Sellafield-stöðvarinnar. Vilji Bretar halda fast við áætlanir um enduropnun THORP sé lágmarkskrafa að hún fari fram undir umsjón alþjóðlegs hóps sérfræðinga.

Hér má nálgast yfirlýsingu fundarins á ensku.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum