Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. mars 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á málþingi um vatnasvið á höfuðborgarsvæðinu

Málþingsstjóri, ágætu málþingsgestir !

Þéttbýli höfuðborgarsvæðisins hefur vaxið hröðum skrefum síðustu áratugina. Íbúar í sveitarfélögunum átta sem mynda höfuðborgarsvæðið eru nú um 190 þúsund talsins og þess er skammt að bíða að þeir verði á þriðja hundrað þúsund. Það sem hins vegar einkennir okkar borgarsamfélag umfram mörg önnur er hve byggðin hefur þrátt fyrir allt vaxið með lítinn þéttleika. Græn svæði eru mörg, sum skipulögð sem slík en önnur af náttúrunnar hendi ef svo má segja. Séreinkenni höfuðborgarsvæðisins eru því þegar öllu er á botninn hvolft þeir lækir og ár sem renna í gegnum byggðina sem tekist hefur að viðhalda að mestu bæði að vatnsmagni og lífríki. Síðan stöðuvötnin eins og Hafravatn, Elliðavatn og Vífilsstaðavatn svo einhver séu nefnd.

Við sem búum hér í borginni sækjum í opin græn svæði. Þau auka tvímælalaust lífsgæði og eru okkur til ánægjuauka. Vötnin, árnar og lækirnir skipa síðan alveg sérstakan sess í hugum okkar og við skulum ekki vanmeta gildi þess að hafa aðgengi og geta notið útivistar t.d. í nálægð Úlfarsár, eða tjarnanna og sjávarlónanna á Álftanesi með sínu fjölskrúðuga fuglalífi. Á hinn bóginn er það síðan strandlengjan frá Seltjarnarnesi í Kópavog, út Álftanes og inn í Hafnarfjörð sem sveitarfélögin hafa með stjórnvöldum lagt mikinn metnað í sem fram kemur í gildandi náttúruverndaráætlun í þá veru að viðhalda ströndinni eins og hún er frá náttúrunnar hendi. Jafnframt að bæta aðgengi til útivistar og upplifunar.

Skiljanlega sækir fólk í nálægð vatna og lækja í frístundum sínum. Tilgangurinn getur verið margvíslegur: heilnæm útivera, gönguferðir, náttúruskoðun eða þá veiðiskapur. Mikil vakning hefur verið í þá veru að bæta aðgengi almennings að vötnum og lækjum og ám sem frá þeim renna. Vötn og vatnsföll skipa fyrir vikið grundvallarsess í skipulagi sveitarfélaganna, sem grænu geirarnir eins og þeir eru kallaðir þar sem þeir teygja sig í gegnum byggðina frá stöðuvatni, meðfram vatnsfalli allt til sjávar. Elliðaárdalurinn er nærtækasta dæmið. Það er sérstök ástæða til þess að hrósa sveitarfélögunum fyrir framsýni í þessum málum. Hún er ekki svo lítils virði þegar búsetugæði eru metin.

Tekist hefur að varðveita lífríkið í ám og vötnum að því leyti sem það hefur verið hægt. Umfangsmiklar rannsóknir hafa verið gerðar á vistgerðum t.a.m. í Vífilsstaðavatni, Rauðavatni, svo ekki sé minnst á Elliðaárnar og Elliðavatn. Fyrir löngu gerðu menn sér það ljóst að árnar og lækirnir voru annað og meira en opin skólpræsi eins og vildi bregða við fram eftir síðustu öld. Þeir tímar eru sem betur fer löngu liðnir, en fólk þarf að halda vöku sinni og vera meðvitað um þá auðlind sem lífríki og umhverfi ferskvatns-svæðanna er. Um leið og slakað er á sígur á ógæfuhliðina fyrir vistkerfið. Ég vil í þessu sambandi benda á mikilvægi þess að sem minnst rask verði á vatnabúskap og að ofanvatn frá götum og af þökum húsa skili sér í sem mestum mæli í nálægar ár og læki, en renni ekki með veitum til sjávar. Ofanvatnið getur þó borið með sér mengun, en í reglugerða 797/1999 um varnir gegn mengun vatns er að finna ákvæði sem gera heilbrigðisnefndum skylt að rannsaka og flokka yfirborðsvatn með tilliti til mengunar. Áhugaverðar tilraunir standa nú yfir með settjarnir til hreinsunar ofanvatns, áður en það rennur í viðkomandi vatnsfall.

Mörgum hér inni er vel kunnugt um Vatnatilskipun ESB. Hún er nú í meðförum EFTA og framkvæmdastjórnarinnar, en fyrir síðustu stækkun ESB hafði að mestu náðst samkomulag um aðlögunartexta. Meginmarkmið Vatnatilskipunarinnar er annars vegar að hindra að vatnsgæði rýrni meira en orðið er og hins vegar að reyna að bæta ástand vatna þar sem það er mögulegt samfara nýtingu þeirra. Gunnar Steinn Jónsson sérfræðingur á Umhverfisstofnun mun síðar í dag gera grein fyrir hlutverki sveitarfélaganna í framkvæmd vatnatilskipunarinnar.

Ágætu ráðstefnugestir !

Ég ætla nú að gera vatnsvernd að umtalsefni. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga sé afar merkilegt samstarf um neysluvatnsvernd sem nær aftur til ársins 1969, en það ár var fyrsti sameiginlegi skipulagsuppdrátturinn um vatnsvernd staðfestur. Hann leit dagsins ljós eftir vinnu samvinnunefndar um skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu sem fékk það mikilvæga verkefni að kanna neysluvatnsþörf og gera tillögur um nauðsynlegar verndunaraðgerðir til að viðhalda góðu og nægjanlegu neysluvatni. Samkvæmt gildandi svæðisskipulagi er vatnsverndarsvæðinu ofan höfuðborgarsvæðisins, sem myndar nánast samfellda heild, skipt upp í brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði. Neysluvatn það sem veitt er til íbúa höfuðborgarsvæðisins er af háum gæðaflokki. Hollusta neysluvatnsins er ekki sjálfgefin. Vatnsverndarsvæðin hér ofan byggðar eru öll mjög lek. Það þýðir að spilliefni við yfirborð berast mjög auðveldlega ofan í vatnsgeyminn. Við vorum rækilega minnt á hversu lítið má út af bregða fyrr í þessum mánuði þegar vöruflutningabíll valt á vegi í Heiðmörk og nokkur olía flaut um.

Það er afar brýnt að leitað verði allra leiða til þess að beina frá vatnsverndarsvæðunum allri starfsemi sem getur valdið röskun eða mengun, jafnvel frá þeim jaðarsvæðum vatnsverndarinnar sem flokkast undir fjarsvæði. Ég vil hér lýsa sérstakri ánægju minni með áhuga og árverkni heilbrigðisumdæmanna sem eru vakin og sofin yfir vatnsverndarsvæðunum. Það virðist heldur ekki veita af því skipulag nýrrar byggðar teygir sig stöðugt nær vatnsverndarsvæðum. Eins hafa í gegn um tíðina orðið árekstrar á milli hestafólks, skógræktar og landgræðslu, við þær hörðu reglur sem nauðsynlegt er að viðhafa í umgengni okkar við neysluvatnið.

Samvinna sveitarfélaganna, skýr langtímasýn með góðu og virku svæðisskipulagi eru þau tæki sem gagnast best í verndun og viðhaldi neysluvatnsauðlindarinnar. Svæðisskipulaginu hefur nýverið verið breytt og vatnsverndarsvæði verið minnkað um leið og vatnstaka við Vífilsstaðavatn hættir. Þessi breyting er fyrst og fremst gerð til að koma fyrir nýrri byggð. Það eitt út af fyrir sig er umhugsunarefni. Engu að síður treysti ég því að sveitarfélögin í sameiningu gæti vel og hlúi að neysluvatnsauðlindinni hér skammt ofan byggðarinnar. Annað kemur vart til greina. Verkefnið er vandasamt, hagsmunaárekstrar eru til staðar og þeir mun áfram verða. Ómengað neysluvatn úr þessum nálægu brunnum varðar lífskilyrði tveggja þriggja hluta landsmanna. Höfum það hugfast.

Takk fyrir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum