Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. apríl 2007 Innviðaráðuneytið

Starfshópur um frístundahúsamálefni sammála um drög að frumvarpi

Frumvarpsdrög um frístundahús
Frístundahúsamálefni

Starfshópur um málefni er varða frístundahús, sem Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra skipaði 21. júlí 2006, leggur til að samningar um leigu á lóð undir frístundahús kveði á um endurskoðun á leigu og forkaupsrétt leigjenda við sölu á leigulóð. Enn fremur leggur starfshópurinn til að farin verði hliðstæð leið og í fjöleignarhúsalögunum við úrlausn tiltekinna ágreiningsefna.

Starfshópurinn skilaði ráðherra tillögum sínum í formi frumvarps til laga um réttindi og skyldur eigenda og leigjenda lóða í skipulagðri frístundabyggð. Í frumvarpsdrögum starfshópsins er gert ráð fyrir að í samningum um kaup eða leigu á lóð undir frístundahús þurfi aðilar að taka afstöðu til tiltekinna lágmarksákvæða. Þannig er til dæmis lagt til að í samningum um leigu á lóð undir frístundahús þurfi samningsaðilar að taka afstöðu til endurskoðunar á leigu og forkaupsrétti leigjenda við sölu á leigulóð. Í skilabréfi starfshópsins til félagsmálaráðherra kemur fram að hópurinn hafi á fundum sínum fjallað um vanda í viðskiptum eigenda og leigjenda lóða undir frístundahús í skipulögðum frístundabyggðum við lok leigutíma. Þótt hópurinn hafi ekki litið svo á að það hafi verið hlutverk hans að gera tillögur um lausn á þess háttar ágreiningi sem upp er kominn bendir hann á að sértæk úrræði gætu brotið í bága við ákvæði stjórnarskrár um samningafrelsi og friðhelgi eignarréttarins.

Í drögum starfshópsins að lagafrumvarpi er lagt til að við úrlausn tiltekinna ágreiningsefna milli hagsmunaaðila innbyrðis í frístundabyggð verði farin hliðstæð leið og í fjöleignarhúsalögunum. Félög eigenda og leigjenda lóða í frístundabyggð verði vettvangur fyrir samskipti aðila um sameiginleg hagsmunamál. Samkvæmt frumvarpsdrögunum er lagt til að eigendur og leigjendur lóða í frístundabyggð geti skotið ágreiningsefnum með nokkrum takmörkunum til kærunefndar fjöleignarhúsamála. Starfshópurinn bendir á að kostir úrskurðarnefndar séu einfaldar málsmeðferðarreglur, skjótar úrlausnir og ódýr leið til að fá niðurstöðu í deiluefni. Enn fremur er gert ráð fyrir samráði sveitarfélaga við svæðisfélög í frístundabyggð. Starfshópurinn stendur einhuga að baki frumvarpsdrögunum.

Félagsmálaráðherra hefur ákveðið að senda frumvarpsdrög starfshópsins til umsagnar hagsmunasamtaka. Almenningi gefst jafnframt kostur á að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum við frumvarpsdrögin á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins. Eftir að umsagnarfrestur er úti verður farið yfir athugasemdir sem berast með það að markmiði að frumvarp til laga verði lagt fyrir Alþingi í haust.

Starfshópinn skipuðu Atli Már Ingólfsson, lögfræðingur í landbúnaðarráðuneytinu, Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, Ingibjörg Halldórsdóttir, lögfræðingur í umhverfisráðuneytinu, Jana Friðfinnsdóttir, lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skúli Guðmundsson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, og Sveinn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Landssambands sumarhúsaeigenda. Formaður og fulltrúi félagsmálaráðherra var Gylfi Kristinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum