Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. apríl 2007 Innviðaráðuneytið

Morgunverðarfundur um stöðu umferðaröryggismála

Efnt verður í fyrramálið til fræðslufundar um stöðu umferðaröryggismála og er hann sérstaklega ætlaður stjórnmálamönnum en þó opinn öllum. Fundurinn er liður í dagskrá umferðaröryggisviku. Tilgangur hennar er meðal annars að auka og efla vitund stjórnmálamanna fyrir umferðaröryggi.

Fundurinn verður á Hótel Loftleiðum og stendur frá kl. 8.30 til 10. Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytis, setur fundinn og síðan flytja fimm sérfræðingar erindi um ýmsar hliðar umferðaröryggismála. Sigurður Helgason, verkefnastjóri hjá Umferðarstofu, fjallar um þróun og kostnað umferðarslysa á Íslandi og heiminum síðustu tíu ár og Ágúst Mogensen, forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa, ræðir um helstu orsakir alvarlegra umferðarslysa á Íslandi.

Síðan eru þrjú erindi þar sem fjallað verður um það sem gert hefur verið og hvað gera þurfi til að auka umferðaröryggi á Íslandi. Um það efni fjalla Auður Þóra Árnadóttir, deildarstjóri hjá Vegagerðinni, sem fjallar um vegakerfið, Egill Bjarnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, fjallar um löggæslu og viðurlög við umferðarlagabrotum og Kjartan Magnússon, formaður Umferðarráðs, ræðir hlutverk sveitarfélaga á sviði umferðaröryggis og um áróður og fræðslu.

Eins og fyrr segir er fundurinn ekki síst ætlaður stjórnmálamönnum en hann er opinn öllum og fulltrúar fjölmiðla eru hvattir til að sækja hann.

Önnur atriði á dagskrá umferðaröryggisvikunnar eru að bjóða á laugardaginn uppá akstursæfingar á gamla varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll. Hefur Umferðastofa í samstarfi við FÍB og Landsamband íslenskra akstursíþróttafélaga fengið leyfi fyrir akstursæfingum á gamla varnarsvæðinu. Verið er að koma til móts við óskir akstursíþróttafólks um viðeigandi keppnissvæði og er þetta bráðabirgðaúrlausn þess vanda þar til fullkomið akstursíþróttasvæði verður opnað.

Þá verður Frumherji með almennar ráðleggingar til ökumanna með sérstaka áherslu á öryggi barna í bílum í Smáralind um helgina. Einnig verða kynnt ýmiss atriði varðandi skoðun og ástand ökutækja, hvort sem um er að ræða bíla, mótorhjól, eftirvagna eða reiðhjól. Kynntur verður öryggisbúnaður fyrir hjólreiðafólk. Dregið verður í happdrætti þar sem barnabílstólar og sitthvað fleira er í verðlaun.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum