Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. apríl 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Rannsóknastofnun um lyfjamál

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Kristín Ingólfsdóttir, háskólarektor, skrifuðu í morgun undir samstarfssamning um Rannsóknarstofnun um lyfjamál við Háskóla Íslands. Rannsóknastofnun um lyfjamál mun einbeita sér að rannsóknum og úttektum á lyfjamálum. Markmið hennar er að auka rannsóknir og fræðslu um lyfjanotkun og lyfjastefnu á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi. Stofnuninni er ætlað að vera víðtækur vettvangur rannsókna á sviði lyfjamála þar sem sérstök áhersla verður lögð á rannsóknir sem lúta að skynsamlegri lyfjanotkun, lyfjafaraldsfræði og lyfjahagfræði. Markmiðið er jafnframt að miðla vísindalegri þekkingu um stefnumörkun og stjórnun lyfjamála og laða fræðimenn til starfa á þessu sviði. Starfsemi Rannsóknastofnunar um lyfjamál verður þríþætt: Rannsóknir og úttektir á lyfjamálum, þjónustuverkefni á sviði lyfjamála og símenntun á sviði lyfjamála.

Auk Háskóla Íslands og heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytis standa eftirtaldir aðilar að rannsóknastofnuninni: Landlæknisembættið, Landspítali–háskólasjúkrahús, Lyfjastofnun og Lyfjafræðingafélag Íslands.

Undanfarin misseri hefur farið fram mikil umræða um vaxandi lyfjakostnað á Íslandi og síðast liðið haust kallaði heilbrigðisráðherra eftir auknum rannsóknum um skynsamlega lyfjanotkun. Í ávarpi sem Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra hélt þegar samningurinn var undirritaður fagnaði hún tilkomu stofnunarinnar og lagði áherslu á að með henni yrði til rannsóknar- og fræðslustofnun sem væri hlutlaus og óháð hagsmunaaðilum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum