Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. apríl 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, á ráðstefnu FENÚR um úrgangsstjórnun

Úrgangsstjórnun til ársins 2020, ábyrgð - samstarf - árangur.

 

Ágætu ráðstefnugestir !

Ég vil þakka FENÚR - Fagráði um endurnýtingu og úrgang - fyrir það tækifæri að fá að ávarpa þessa ráðstefnu hér í dag.

Það er ánægjulegt þegar frjáls félagasamtök standa fyrir og stuðla að faglegri umræðu um meðhöndlun úrgangs þar sem aðild eiga önnur félagasamtök, sveitarfélög, fyrirtæki á sviði úrgangsmeðhöndlunar, ráðgjafafyrirtæki og stofnanir. Ánægjulegt er hvað FENÚR tekur virkan þátt í alþjóðlegu fagsamstarfi um úrgangsmál sem skilar sér vissulega í framgangi þessa málaflokks hér á landi, enda hefur FENÚR haft mikil áhrif á framgang sorphirðumála hér á landi.

Ég hef haft tækifæri til að kynnast starfi FENÚR lítillega, m.a. er tveir stjórnarmenn FENÚR kynntu mér starfsemi félagsins. Ég verð að segja að það vakti athygli mína hve starfið er viðamikið og metnaðarfullt, einkum vöktu flokkunarmerkingar sem unnar hafa verið af FENÚR og kynningarefni þar um áhuga minn. Starf af þessu tagi auk vandaðrar faglegrar umræðu skiptir miklu máli og skilar árangri fyrir þá sem vinna að meðhöndlun úrgangs.

Það er margt framundan í málefnum tengdum meðhöndlun úrgangs. Málaflokkurinn sem fyrir hálfum öðrum áratug var fyrst og fremst „vandamál" sem sveitarfélög sátu uppi með af illri nauðsyn er orðinn að öflugri atvinnugrein með sóknarfærum og spennandi verkefnum til að leysa. Já, margt hefur breyst og ljóst er að miklar og áhugaverðar breytingar eru framundan.

Í gildi er Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir árin 2004 til 2016, en áætlunin er endurskoðuð og uppfærð á þriggja ára fresti. Landsáætlun er vegvísir fyrir sveitarfélög sem fara með framkvæmd úrgangsmála hér á landi auk þess að vera til leiðbeiningar við svæðisbundna áætlunargerð sveitarstjórna. Sveitarstjórnir semja aftur á móti og staðfesta áætlanir sem gilda fyrir viðkomandi svæði og eru byggðar á markmiðum landsáætlunar.

Úrvinnslusjóður hefur starfað frá árinu 2003 og er úrvinnslugjald lagt á ýmsar vörur til að greiða fyrir endurnýtingu eða förgun þeirra þegar þær verða að úrgangi. Úrvinnslusjóður byggist á sömu hugmyndafræði og Spilliefnanefnd starfaði eftir á sínum tíma. Úrvinnslusjóður hefur sýnt það í verkum sínum að full ástæða var fyrir því að setja hann á laggirnar og hefur margt áunnist á fyrstu mótunarárum stofnunarinnar. Mikilvægt að stuðla að sveigjanleika og hugmyndaauðgi við úrlausn úrvinnslumála, horfa fram á veginn og jafnframt að tryggja náið samstarf ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífsins. Þau skref sem hafa verið tekin hjá Úrvinnslusjóði og sú reynsla sem þegar hefur fengist mun nýtast vel til áframhaldandi starfs á þessu sviði. Starf á þessum vettvangi hefur átt mikinn þátt í viðhorfsbreytingu sem orðið hefur að undanförnu.

Flokkun, endurnotun og endurnýting er vaxandi áhersla í allri umhverfisvernd. Mikilvægt er þegar til lengri tíma er litið að bæta verulega nýtingu alls hráefnis svo sem með því að draga úr myndun úrgangs og auka endurnýtingu. Það skiptir miklu fyrir atvinnulífið í heild hvernig þar tekst til og hvort þau markmið sem við setjum okkur í þessum málaflokki nást eða ekki. Með því að skapa skilyrði fyrir því að markaðurinn komi að endurnýtingu og endurvinnslu hefur mikið áunnist og tel ég að á undanförnum árum hafi orðið mikil viðhorfsbreyting hjá einstaklingum og fyrirtækjum um mikilvægi þess að flokka og koma úrgangi til endurnýtingar. Til að ná sem bestum árangri í þessum efnum er mikilvægt að nýta sér hagræn stjórntæki, s.s. að sveitarfélög hagi gjaldtöku fyrir sorphirðu eftir magni. Þá er vænlegt til árangurs að sveitarfélög og einkafyrirtæki bjóði upp á þjónustu við heimili við að sækja til þeirra flokkaðan úrgang til endurnýtingar eins og komið er á stað m.a. hér á höfuðborgarsvæðinu.

Aðild Íslands að samningi að Evrópska efnahagssvæðinu hefur haft verulega áhrif á framgang úrgangsmála hér á landi og mótað þau sl. fimmtán ár og á þessu verður engin breyting á næstunni. Fyrir liggur tillaga að rammatilskipun um úrgang COM(2005)667 sem mörg ykkar þekkja, en fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB kynnti hana á fundi í Reykjavík sl. haust og tóku margir þátt í gerð athugasemda við stefnumótandi skjal vegna þessa fyrir nokkrum misserum. Í þessari rammatilskipun verða settir fram meginþættir varðandi úrgangsstjórnun og mun tillagan verða kynnt á fundi ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar á næstunni.

Ísland hefur ekki enn innleitt tilskipun um raf- og rafeindatækjaúrgang. Undanfarið hefur verið vinna í gangi við að greina tilskipunina og skoða hvernig hægt er að standa að innleiðingu hennar hér á landi, m.a. hefur verið skoðað ítarlega hvort mögulegt sé að nota lög um úrvinnslugjald nr. 162/2002, með síðari breytingum og það kerfi til að innleiða þær skyldur sem hin nýja tilskipun hefur að geyma. Nokkuð ljóst er að það kerfi sem lög um úrvinnslugjald mælir fyrir um hentar ekki eins og það er til innleiðingar á framangreindri tilskipun. Af hálfu atvinnulífsins hafa verið settar fram tillögur sem nú er verið að vinna úr í ráðuneytinu. Niðurstaða úr þessari vinnu mun liggja fyrir á næstu vikum.

Tilskipun um raf- og rafeindatækjaúrgangi byggir á hugmyndafræði um ábyrgð framleiðenda en framleiðendaábyrgð kallar á nýja nálgun á þessum málaflokki og breytingar á því kerfi sem er við lýði hér. Ljóst er að enn fleiri vöruflokkar munu falla undir framleiðendaábyrgð á næstunni og því þarf að skoða þetta víðtækt. Hafa ber í huga að hinu nýja kerfi er ætlað að ná yfir ákveðna úrgangsflokka sem stjórnvöld telja mikilvægt að koma til endurnýtingar eða sérstakrar meðhöndlunar og setja sérstakar reglur um til að ná fram heildarmarkmiðum í úrgangsmálum. Samhliða þeim þarf einnig að huga að öðrum þáttum eins og skiptingu milli heimilisúrgangs og rekstrarúrgangs svo og mismunandi réttindi og skyldur sveitarfélaga. Einnig þarf að huga að móttökustöðvum og fara nánar yfir stefnu stjórnvalda til að tryggja að dregið verði úr úrgangsmyndun og því magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar, hver beri ábyrgð á því og hvaða aðferðum verði beitt til að ná þeim markmiðum.

Áhersluatriði varðandi úrgangsmál eru að dregið sé úr myndun úrgangs og stuðlað verði að aukinni endurnýtingu úrgangs og endurnotkun. Til að ná þessum markmiðum verður leitast við að koma á framleiðendaábyrgð þar sem það á við. Meginmarkmið framleiðendaábyrgðar er að minnka kostnað og umhverfisáhrif vegna meðhöndlunar úrgangs með því að framlengja ábyrgð framleiðenda á vöru sinni svo hún nái einnig yfir ábyrgð á öllum samfélagslegum kostnaði við meðhöndlun úrgangs þar á meðal umhverfiskostnaði vegna förgunar. Það sem gerir kerfi sem byggir á framleiðendaábyrgð frábrugðið öðrum kerfum er að framleiðendaábyrgð færir fjárhagslega ábyrgð, oftast að hluta til, við úrvinnslu úrgangs til framleiðenda og frá sveitarfélögunum. Þá er algengt að kerfi sem byggir á framleiðendaábyrgð geri framleiðendur ábyrga á framkvæmdahlið við úrvinnslu sértæks úrgangs. Með kerfi framleiðendaábyrgðar gera framleiðendur sér betri grein fyrir þeim kostnaði við sem fylgir því að varan verður að úrgangi eða fer til endurnýtingar. Framleiðendaábyrgð er þannig ætlað að hvetja framleiðandann til að taka þennan kostnaðarlið með í reikninginn allan lífsferil vörunnar, þ.e. allt frá hönnun, framleiðslu, notkun, markaðssetningu og úrvinnslu. Ljóst er að sett verða ákvæði í lög til að innleiða framleiðendaábyrgð í úrvinnslumálum hér á landi. Gert er ráð fyrir að framleiðendur og innflytjendur muni sjá um rekstur kerfisins og greiði fyrir endurnýtingu ákveðinna úrgangsflokka. Eins og ég hef nefnt þá munu raf- og rafeindatæki falla undir kerfi framleiðendaábyrgðar hér á landi áður en langt um líður og skal samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs stefna að því að að jafnaði verði safnað 4 kílóum á hvern íbúa af slíkum úrgangi og hann meðhöndlaður á viðeigandi hátt. Hvaða vöruflokka fylgja eftir er ófrágengið en mikilvægt er að um það verði náið samráð milli ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Heimilt er að innleiða tilskipun um umbúðir og umbúðaúrgang í samræmi við framleiðendaábyrgð og hefur slíkt verið gert í flestu „gömlu" ESB ríkjunum. Danmörk og Holland hafa þó ekki farið þá leið.

Mikið hefur verið unnið að umbúðarmálum undanfarið en betur má ef duga skal. Sett hafa verið tímasett markmið um endurnýtingu og endurvinnslu tiltekinna umbúðategunda, s.s. pappírs og plast. Úrvinnslusjóður ber ábyrgð á því að settum markmiðum vegna umbúða sem bera úrvinnslugjald verði náð. Frá 1. janúar 2012 gilda ný og þrengri markmið og er unnið að því að ná þeim. Ísland hefur lengri tíma miðað við flest önnur ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, sem verða að uppfylla sömu markmið fyrir árslok 2008. Varðandi umbúðir hefur náðst víðtækt samstarf og samstaða um útfærslu kerfisins þar sem haft er að leiðarljósi að hafa þetta flókna kerfi eins einfalt og mögulegt er. Í skoðun er hvernig best er að haga því kerfi sem við þekkjum svo vel og heldur utan um skilagjaldskyldar drykkjavöruumbúðir en ljóst að það mun taka einhverjum breytingum á næstunni.

Stjórnvöld hafa á síðustu árum bætt lagaumhverfi um lífrænan úrgang og sett töluleg markmið um endurnýtingu hans. Stefnt er að því að magn lífræns úrgangs sem verður urðað árið 2009 verði ekki meira en 75% af því sem var árið 1995. Um mitt ár árið 2013 á magnið að vera komið niður í 50% og eigi síðar en 1. júlí 2020 niður í 35% miðað við grunnárið 1995. Sveitarfélög eiga að gera grein fyrir því í áætlum sínum um meðhöndlun úrgangs hvernig endurnýtingu lífræns úrgangs er háttað. Ljóst er að jarðgerð lífræns úrgangs er ein af þeim leiðum sem velja þarf í auknum mæli til að ná settum markmiðum.

Að undanförnu hafa átt sér stað umræður um þau vandamál sem skapast hafa víða í landinu vegna meðferðar og frágangs á sláturúrgangi en hin einstöku sveitarfélög eru misjafnlega í sveit sett til þess að takast á við það verkefni og kostnaður framleiðanda þar með mismunandi. Er nú að því unnið að óheimilt verði að urða ómeðhöndlaðan sláturúrgang frá og með 1. janúar 2009. Ráðuneytið hefur lagt áherslu á að útfærsla málsins verði í nánu samstarfi við hagsmunaaðila.

Urðunarstaðir sem voru í rekstri við gildistöku laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs eiga að uppfylla kröfur laganna fyrir 16. júlí 2009 eða loka þeim fyrir þann tíma. Við gildistöku laganna voru 22 urðunarstaðir í rekstri. Rekstaraðilar stærstu urðunarstaða landsins hafa sett fram áætlun hvernig þeir munu uppfylla ákvæði laganna fyrir 16. júlí 2009. Nokkrir aðilar munu loka viðkomandi urðunarstað alfarið fyrir árið 2009. Á fjórum þessara staða er gert ráð fyrir að eingöngu verði urðaður óvirkur úrgangur. Tólf staðir stefna á aðlögun og þrír staðir eru í afskekktri byggð. Einn af þessum urðunarstöðum er með gassöfnun og þrír staðir eru að athuga hugsanlega gassöfnun. Gert er ráð fyrir að gengið verði frá fjárhagslegri tryggingu við endurnýjun starfleyfis, eða með yfirlýsingu sveitarfélags og ekki seinna en árið 2009.

Áherslur í stjórnum úrgangsmála í framtíðinni munu snúa að því að dregið verði úr myndun úrgangs, framleiðendaábyrgð verður innleidd, verðmæti sem eru í úrgangi verða nýtt í auknum mæli sem hráefni til vinnslu og stórfelld breyting er fyrirsjáanleg varðandi meðhöndlun lífræns úrgangs. Sveitarstjórnir bera áfram meginábyrgð og stjórnun á málaflokknum, með aðkomu atvinnulífsins þar sem framleiðendaábyrgð er til staðar. Sveitarstjórnir hafa til þess verkfæri sem felast í samþykktum sveitarfélaga og heimild til gjaldtöku. Rekstraraðilar förgunarstaðar eiga að innheimta gjöld fyrir förgun úrgangs og ég sé það fyrir mér að gjald verði einnig innheimt fyrir alla aðra meðhöndlun úrgangs. Þannig skulu sveitarstjórnir ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi í sveitarfélaginu og sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar. Úrgangsstjórnun er að færast nær uppruna vöru og þjónustu og verður í framtíðinni í auknum mæli tekið á þessum málum áður en úrgangurinn myndast og þar sem hann myndast, meðal annars með vöruþróun og umhverfisstjórnunarkerfum.

Ég veit að það eru spennandi tímar framundan og það þarf fagþekkingu, hugvit og áræðni til að gera sem mest úr því og þar getur FENÚR áfram lagt sitt lóð á vogaskálarnar. Gangi ykkur vel.

Kærar þakkir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum