Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. apríl 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tilraunaverkefni um þjónustu við geðfatlaða í Reykjavík

Átak í þjónustu við geðfatlað fólk.Að tillögu Magnúsar Stefánssonar félagsmálaráðherra hefjast viðræður milli félagsmálaráðuneytisins og Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um að koma á fót tilraunaverkefni sem felur í sér að borgin annist uppbyggingu búsetu og þjónustu fyrir geðfatlaða sem búa í Reykjavík.

Fleiri kostir en ókostir

Verkefnisstjórn átaks í þjónustu við geðfatlað fólk fagnar undirtektum velferðarráðs Reykjavíkurborgar við beiðni félagsmálaráðuneytisins. Það er álit félagsmálaráðuneytisins að kostir við yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga séu fleiri en ókostir og með því að flytja þetta afmarkaða verkefni málaflokksins yfir til reynslu megi afla þekkingar sem nýtist þegar að endanlegri yfirfærslu kemur.

Aðstæður og réttindi geðfatlaðs fólks hafa verið í brennidepli undanfarin misseri. Sjónarmið varðandi félagsleg áhrif á eðli, framvindu og umfang geðfötlunar fá stöðugt meiri hljómgrunn. Hugmyndum um að færa beri þjónustu við fólk með geðraskanir út í samfélagið, frá hefðbundnum sjúkrastofnunum, vex fylgi. Þannig megi rjúfa einangrun og efla sjálfstæði fólksins.

Talið er að búseta í íbúðakjarna eða þjónustuíbúð með fjölbreyttri og sveigjanlegri stoðþjónustu geti veitt stöðugleika og öryggi sem stuðlar að jafnvægi í heilsufari og dregur úr líkum á endurinnlögnum á sjúkrahús.

Stórátak í þjónustu við geðfatlaða

Á grundvelli þessara sjónarmiða var fyrir forgöngu félagsmálaráðherra í samstarfi við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið ákveðið með lögum að gera stórátak í uppbyggingu búsetu og þjónustu fyrir geðfatlað fólk. Stefna og framkvæmdaáætlun átaks félagsmálaráðuneytisins 2006–2010 í þjónustu við geðfatlað fólk var kynnt 9. október 2006. Við stefnumótunina var haft náið samráð við hagsmunasamtök geðfatlaðra og aðstandenda þeirra og sérfræðinga á þessu sviði.

Samkvæmt framkvæmdaáætlun 2006–2010 snertir átaksverkefnið 160 einstaklinga og um helmingur þeirra er búsettur í Reykjavík.

Vinna við framkvæmd verkefnisins er þegar komin af stað undir stjórn framkvæmdahóps með aðild Velferðarsviðs Reykjavíkur, Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík, geðsviðs Landspítala - háskólasjúkrahúss auk fulltrúa félagsmálaráðuneytisins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum