Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. apríl 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Þjónustusamningur við Sveitarfélagið Hornafjörð um þjónustu við fatlaða

Magnús Stefánsson og Hjalti Þór Vignisson undirrita samning um þjónustu við fatlaða.
Magnús Stefánsson og Hjalti Þór Vignisson undirrita samning um þjónustu við fatlaða.

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra og Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri undirrituðu í morgun þjónustusamning milli félagsmálaráðuneytisins og Sveitarfélagsins Hornafjarðar um þjónustu við fatlaða.

Síðastliðin tíu ár hefur slíkur samningur verið í gildi milli þessara aðila. Þessi nýi samningur er að fjárhæð 26,7 milljónir króna og gildir til sex ára, allt til ársins 2012.

„Það er til marks um þá jákvæðu reynslu sem er að baki og það gagnkvæma traust og trúnað sem skapast hefur með farsælu og gjöfulu samstarfi“, sagði Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra við undirritunina. „Það má raunar einnig hafa til marks um þau viðhorf sem stöðugt vex fylgi að þjónusta við fatlaða sé best komin í heimabyggð fólks, hjá sveitarfélögunum eða samlögum þeirra. Með því móti gefst tækifæri til þess að samþætta þjónustu við fötluð börn og fullorðna annarri félagslegri þjónustu, færa hana nær notendunum og auðvelda þannig aðgang að henni. Ég er þess fullviss að sú tilhögun er til þess fallin að auka skilvirkni, bæta nýtingu fjármuna og auka þjónustugæði.“

Þjónusta aukist

Þjónustuþegar hjá Sveitarfélaginu Hornafirði eru samtals 18 á aldrinum 7–72 ára. Á þeim tíu árum sem liðin eru frá því Sveitarfélagið Hornafjörður var með fyrstu sveitarfélögum landsins sem félagsmálaráðuneytið gerði þjónustusamning við á þessu sviði, hefur þjónustuþegum fjölgað og öll þjónusta aukist til muna. Árið 1997 voru tveir starfsmenn í 1,2 stöðugildum en eru nú tólf í 5,5 stöðugildum í liðveislu, frekari liðveislu og dagvist. Dagvist fyrir fatlaða var opnuð í febrúar árið 2000. Árið 2006 veitti Framkvæmdasjóður fatlaðra styrk til að endurnýja fjórar íbúðir, þar af eru þrjár íbúðir leigðar út og ein íbúð ætluð fyrir skammtímavistun fyrir börn og fullorðna og sem skrifstofa fyrir starfsmenn.

Rafrænn gagnagrunnur

Magnús Stefánsson gerði grein fyrir ýmsum nýmælum í þjónustusamningnum.

„Í honum er gerð grein fyrir framtíðarsýn, grundvallarsjónarmiðum og markmiðum sem fram koma í hinni nýju stefnu ráðuneytisins í málefnum þeirra sem búa við fötlun, enda er gert ráð fyrir að tekið skuli mið af þeim atriðum við framkvæmd samningsins“, sagði félagsmálaráðherra. „Þá er þar að finna, í samræmi við hina nýju stefnu, ákvæði um svonefndan notendagrunn. Það er rafrænn gagnagrunnur, sem ráðuneytið mun leggja til, þar sem verður að finna samræmdar upplýsingar um þjónustuþarfir allra notenda þjónustunnar. Hvað börn varðar skulu þar liggja fyrir þarfir fyrir skammtímaþjónustu, stuðningsfjölskyldur, viðeigandi ráðgjöf, þjálfunaráætlanir, eftirfylgd, endurmat og önnur stuðningsúrræði. Um fullorðna skal liggja fyrir mat á þörfum fyrir stuðning til búsetu og atvinnu, auk stoðþjónustu af öðru tagi. Notendagrunnurinn verður notaður jafnt til þess að meta þarfir einstaklinga sem til almennra starfsáætlana.“

Gott samstarf

Það er skoðun heimamanna að vel hafi tekist til með framkvæmd þjónustunnar á því tíu ára tímabili sem þjónustusamningur um þjónustu við fatlaða hefur verið í gildi. Jafnframt hefur þjónustan verið efld og færð nær notendum. Þjónusta við fatlaða er þannig samþætt annarri félagsþjónustu í sveitarfélaginu og sami aðili ber ábyrgð á allri þjónustunni. Gott samstarf er milli félagsþjónustu sveitarfélagsins og Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands, sem sveitarfélagið rekur, um þjónustu við fatlaða og af því er ótvíræður ávinningur.

Heimamenn vænta þess að áframhaldandi samstarf ríkis og sveitarfélags muni hér eftir sem hingað til reynast vel og að áfram verði unnið að uppbyggingu á þessari þjónustu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum