Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. maí 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Samið við Tannlæknafélag Íslands um tannlæknaþjónustu þriggja og tólf ára barna

Samninganefndir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og samninganefnd Tannlæknafélags Íslands hafa náð samkomulagi um fyrirkomulag tannlæknisþjónustu vegna forvarnarskoðana þriggja og tólf ára barna og um skráningu tannheilsu þeirra. Samkvæmt samningnum mun skráning tannheilsu þessara barna verða með svipuðu fyrirkomulagi og gerist annars staðar á Norðurlöndunum og mun Miðstöð tannverndar taka við skráningargögnum og sjá um alla úrvinnslu þeirra.

Samningurinn var undirritaður af samninganefndum í Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í dag laugardaginn 5. maí og var Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra viðstödd undirritunina. Samningurinn tekur gildi 1. júní nk. með fyrirvara um samþykki félaga Tannlæknafélags Íslands, en stefnt er að því að afstaða félaga TFÍ verði ljós fyrir þann tíma.

Tryggingastofnun ríkisins greiðir að fullu fyrir eina forvarnarskoðun hjá tannlækni fyrir öll sjúkratryggð börn á Íslandi, sem eru þriggja og tólf ára á hverjum tíma, sem sækja þjónustu til tannlækna sem eru aðilar að samningnum. Fjöldi barna í hvorum árgangi telur rúmlega 4000 einstaklinga og verður leitast við að ná til sem allra flestra barna á þessum aldri. Gert er ráð fyrir því að heildarkostnaður við þennan samning sé um 70 milljónir kr. fyrir þessa tvo árganga og samþykkti ríkisstjórnin fyrir sitt leyti á fundi sínum í gær, föstudaginn 4. maí, að veita þessari fjárhæð til þessa verkefnis í ár.

Það er sameiginlegur skilningur samningsaðila að með þessu sé stigið fyrsta skrefið í forvarnareftirliti barna og unglinga, sem leggja mun grunn að bættri tannheilsu barnsins um alla framtíð. Í framtíðinni verður hugað að því að þétta þetta eftirlitsnet með því að taka fleiri árganga inn til eftirlits á þennan hátt.

Í samningnum er kveðið á um hvaða þjónusta skuli innifalin í forvarnarskoðun hvors hóps og er hún sem hér segir:

3ja ára börn:

Skoðun
Viðtal
Atferlismeðferð
Bein fræðsla
Flúormeðferð

Að auki fyrir 12 ára börn:

Röntgenbitmynd (tvær)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum