Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. maí 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Fulltrúaþing Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Ágætu hjúkrunarfræðingar!

Ég vil þakka fyrir tækifærið til að ávarpa fulltrúaþing ykkar hér í dag. En þetta er í fyrsta sinn sem ég ávarpa ykkur við þetta tilefni.

Fulltrúaþingið fer með æðsta vald í málefnum félagsins og því eru hér rædd málefni sem miklu varða fyrir heilbrigðisþjónustuna í landinu.

Hjúkrunarfræðingar hafa mikið vægi í íslensku heilbrigðiskerfi. Þeir eru fjölmennasta fagstéttin í heilbrigðisþjónustunni. Starfssvið þeirra er breitt, þar sem þeir starfa á öllum sviðum þjónustunnar. Ábyrgð þeirra er mikil, störfin krefjandi og verkefnin verða æ fjölbreyttari og flóknari.

Það verður ekki ofsagt að mikilvægasta auðlind heilbrigðisþjónustunnar er starfsfólkið. Því verður að gæta að hag starfsmanna og tryggja þeim góða starfsaðstöðu og starfsumhverfi sem mætir þörfum þeirra eftir fremsta megni.

Margar heilbrigðisstofnanir hafa þegar hafið aðgerðir sem miða að bættu starfsumhverfi og stuðla að meiri festu starfsmanna sinna. Þessar aðgerðir eru einnig ætlaðar til að auka starfsánægju en ánægja starfsfólks er forsenda fyrir góðum árangri. Hér er því jafnt um að ræða hagsmunamál starfsfólks, heilbrigðisstofnana og notenda þjónustunnar.

Mig langar í þessu samhengi að minnast á Alþjóðadag hjúkrunarfræðinga 12. maí n.k. sem mun haldinn undir yfirskriftinni gott starfsumhverfi en þar eru fyrirmyndar vinnustaðir sagðir stuðla að góðri hjúkrun. Þetta er því greinilega málefni sem hjúkrunarfræðingar víða um heim láta sig varða.

Ég er ekki ein um að hafa orðið vör við aukið álag á heilbrigðisstarfsmenn á síðustu misserum. Skýringarnar á auknu álagi tengjast breytingum í rekstri margra stofnana, en líka því að neytendur þjónustunnar eru veikari en áður, aldurssamsetningin er að breytast með fjölgun í hópi aldraðra og skortur eða aukin eftirspurn er á fagfólki til starfa, sérstaklega á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Þessi eftirspurn er ekki bundin við Ísland heldur er þetta alþjóðlegt og sívaxandi vandamál og á svipuð þróun sér stað víða í Evrópu. Til dæmis má nefna að Norðurlandaþjóðirnar keppa um heilbrigðisstarfsfólk, ekki síst hjúkrunarfræðinga og lækna.

Skortur á heilbrigðisstarfsfólki er brýnt mál sem snýr ekki síst að stjórnvöldum. Einn þáttur í að koma á móts við þennan vanda er að tryggja að aðgangur að námi heilbrigðisstétta taki mið af mannaflaþörf heilbrigðisþjónustunnar. Í ljósi þessa beitti ég mér fyrir því á síðasta ári að fjárveitingar yrðu auknar og nemendum í hjúkrunarfræði fjölgað  við Háskóla Íslands og Háskólann á  Akureyri til að fullnægja aukinni eftirspurn.  Fram til þessa hafa verið útskrifaðir um 109 hjúkrunarfræðingar árlega en nú eru samtals 157 nemendur á fyrsta ári í hjúkrunarfræði í báðum skólunum sem er yfir 30% aukning milli ára. Endurskoðun á hjúkrunarfræðináminu er einnig mikilvægur þáttur í þessu sambandi.

En til þess að hægt sé að taka mið af mannaflaþörf heilbrigðisþjónustunnar þarf að meta þörfina. Í því skyni kynnti ég, rétt fyrir síðustu áramót, nýja skýrslu sem unnin var fyrir ráðuneytið af Hagfræðistofnun um spá um þörf fyrir vinnuafl fjögurra stétta heilbrigðisstarfsfólks, það er lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og sjúkraþjálfara. Stuðst var við gögn frá Hagstofu Íslands, landlæknisembættinu, fagfélögum og sjúkrastofnunum.

Það er von mín að skýrslan geti orðið gagnlegt vinnuskjal fyrir ýmsa aðila, stofnanir og stjórnvöld. Einnig að hún geti orðið grundvöllur að frekara samstarfi. Ég fagna því þeim viðbrögðum sem skýrslan hefur fengið.

Eins og flestir vita gaf Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) nýverið út skýrslu um manneklu í hjúkrun sem gerir grein fyrir hvert stefnir fram til ársins 2015, verði ekkert að gert. Sú skýrsla er byggð á aðeins öðrum forsendum en skýrslan sem Hagfræðistofnun HÍ vann fyrir ráðuneytið. Skýrsla Fíh sýnir að þrátt fyrir þann mikla og góða áfanga að fjölga hjúkrunarfræðinemum þá mun skorturinn halda áfram að aukast komi ekki fleira til. 

Á síðasta ári kallaði landlæknisembættið saman hóp til að ræða hvaða leiðir væru færar til að takast á við mannekluvandann en hópurinn er skipaður fulltrúum Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Landspítala- háskólasjúkrahúss, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Hópurinn hefur verið að kanna meðal annars hvort hægt sé að auka enn við námspláss fyrir nemendur í hjúkrunarfræði og jafnvel taka inn nemendur tvisvar á ári. Einnig er fyrirhuguð viðamikil rannsókn á hindrunum í starfi hjúkrunarfræðinga.

Eins og flestum er kunnugt þá eru kjarasamningar ekki á hendi heilbrigðisráðuneytisins, heldur á ábyrgð fjármálaráðuneytisins. En þegar rætt er um skort á heilbrigðisstarfsfólki er óhjákvæmilegt annað en að víkja að kaupum og kjörum. Mikil þensla og uppgangstímar hafa verið í efnahagslífinu. En það kallar á aukna starfsmannaveltu þar sem fólk sækir í betur launuð störf. Í kjarasamningum þarf því að leggja sérstaka áherslu á að lyfta umönnunarstörfum upp. Þessi störf hafa hingað til verið aðallega á hendi kvenna, en launamunur kynjanna er um 15-16% hér á landi eins og flestir vita.

Eins og sjá má þarf að leita fjölmargra leiða til að tryggja nægan mannafla í heilbrigðisþjónustunni, svo ná megi markmiðinu um bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma. En við, og þá er ég að tala um heilbrigðisstofnanir, háskóla, starfsmenn, fagfélög og yfirvöld, verðum fyrst og fremst að vinna SAMAN að því að vinna bug á mannekluvandanum.

Ágætu þingfulltrúar!

Hjúkrunarfræðingar hafa alltaf tekið virkan þátt í gæðastarfi innan heilbrigðisþjónustunnar, en markvisst gæðastarf er mikilvæg forsenda þess að auka gæði og öryggi þjónustunnar og stuðla að bættu heilbrigði þjóðarinnar. Í síðasta mánuði kynnti ráðuneytið og Landlæknisembættið Stefnumörkun heilbrigðisyfirvalda í gæðamálum til ársins 2010.

Stefnumörkunin tekur við af gæðaáætlun ráðuneytisins sem kom út árið 1999 en meginmarkmið hennar var meðal annars að stuðla að formlegu gæðaþróunarstarfi heilbrigðisstofnana. Margt af því sem þá var lögð áhersla á hefur gengið eftir og leitt til jákvæðra breytinga á starfsemi og skipulagi stofnana.

Í hinni nýju stefnumörkun er sjónum í ríkari mæli en áður beint að verkefnum sem eru á ábyrgðarsviði heilbrigðisyfirvalda og eru lagðar fram þær megináherslur sem unnið verður eftir til ársins 2010.

Ein megin áhersla endurskoðaðrar gæðastefnu snýr að öryggi sjúklinga sem hefur verið mikið til umræðu á síðustu misserum. Rannsóknir hafa sýnt að þar sem öryggi sjúklinga á heilbrigðisstofnunum er ábótavant liggja orsakirnar oftast í kerfum og vinnuferlum stofnananna. Góð skráning og úrvinnsla upplýsinga er því veigamikill þáttur í auknu öryggi og umbótum. Stefnt er að því að efla skráningu atvika og gera úrvinnslu atvikaupplýsinga markvissari og sýnilegri. Ég vil benda á að í lögum um heilbrigðisþjónustu og í lögum um landlæknisembættið sem samþykkt voru á nýafstöðnu þingi og taka gildi þann 1. september næst komandi er einnig kveðið á um aukna áherslu á öryggi sjúklinga og gæði þjónustunnar.

Í gæðastefnunni til ársins 2010 er einnig lögð áhersla á mikilvægi gæðamenningar sem m.a endurspeglast í auknu samstarfi við sjúklinga og aðstandendur, beitingu nýjustu þekkingar og stöðugs náms. Skilgreiningar á hlutverki og verkaskiptingu stofnana, gæðakröfur, gæðamælikvarðar, klínískar leiðbeiningar og rafræn skráning eru allt atriði sem lögð er áhersla á auk fjölmargra annarra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar.

Sérstakt gæðaráð verður skipað til að fylgja gæðastefnunni eftir með fulltrúum heilbrigðisyfirvalda, stofnana, fagfólks og notenda.

Ég hvet því alla til að kynna sér gæðastefnuna sem er aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins.

Að lokum langar mig að vekja athygli ykkar á Endurskoðun meginmarkmiða heilbrigðisáætlunar til ársins 2010 sem kom út fyrr á árinu. Í henni er gerð grein fyrir hvernig gengið hefur að ná upphaflegum markmiðum og fjallað er um breytingar sem nauðsynlegt er að gera á áætluninni. Ennfremur hafa verið sett ný markmið er miða að því að draga úr offitu og ofþyngd, auk víðtækari markmiðssetningar í krabbameinsvörnum.

Í heild hefur heilbrigðisáætlunin staðið fyrir sínu og flest þau markmið, sem sett voru í upphafi, hafa reynst raunhæf. Markmiðin eru fjölþætt en ljóst er að þar eru mikil sóknarfæri fyrir hjúkrunarfræðinga.

Talandi um sóknarfæri fyrir hjúkrunarfræðinga þá er nú þegar í gildi samningur við ráðuneytið vegna hjúkrunar í heimahúsum. Einnig er að fara af stað vinna á vegum ráðuneytisins við að endurskoða heildarskipulag þjónustu sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðinga.

Ágætu hjúkrunarfræðingar!

Framlag hjúkrunar verður ætíð sérstakt og mikilvægt. Ég vil þakka hjúkrunarfræðingum fyrir dugnað í krefjandi störfum sínum, störfum sem leggja grunnin að öflugu heilbrigðiskerfi okkar.

Nú er kjörtímabilið á enda og ég hef gegnt hlutverki heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í rúmt ár. Ég vil þakka hjúkrunarfræðingum fyrir samstarfið á þessum tíma. Ég vil einnig þakka formanni ykkar Elsu B. Friðfinnsdóttur, og Höllu Grétarsdóttur í fjarveru hennar, fyrir samstarfið og óska félagsmönnum allra heilla í lífi og starfi.

Takk fyrir.

Talað orð gildir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum