Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. maí 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Ávarp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á ráðstefnunni „Gæðastjórnun er dauðans alvara! - Eflum sjúklingaöryggi í landinu“

Ágætu ráðstefnugestir.

Ég vil byrja á að þakka skipuleggjendum ráðstefnunnar, Focal og Emilíusjóðnum, fyrir að standa fyrir þessari metnaðarfullu ráðstefnu, sem ber yfirskriftina „Gæðastjórnun er dauðans alvara! - Eflum sjúklingaöryggi í landinu“.

Eins og titillinn ber með sér er hér um afar mikilvægan þátt heilbrigðisþjónustunnar að ræða. Það er einnig ánægjulegt að sjá hversu margir hafa gefið sér tíma til að koma hér í dag, en það endurspeglar eflaust þá vakningu og þann áhuga sem er á öryggi og gæðum heilbrigðisþjónustunnar. Þessi vakning er reyndar ekki bundin við Ísland heldur hefur umræða um gæði og raunar enn frekar öryggi verið fyrirferðarmikil á Vesturlöndum síðastliðin ár. Þessir þættir eru auðvitað  samtvinnaðir því það eru engin gæði án öryggis.

Það þekkja líklega flestir hér inni bandarísku skýrsluna To err is human sem kom út árið 1999 og  hleypti af stað bylgju umræðna og, sem betur fer einnig, aðgerða til að auka öryggi sjúklinga í Bandaríkjunum og víðar.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur einnig  um árabil unnið skipulega að stefnumótun og áætlanagerð á sviði öryggismála í heilbrigðisþjónustunni og hefur  stofnunin sett á fót „Heimssamtök tengd öryggi sjúklinga“ undir forystu Sir Liam Donaldson, landlæknis Breta. Sir Liam kom hingað sem aðalfyrirlesari á málþingi Landlæknisembættisins um öryggi sjúklinga í febrúar sl. en hann hefur verið einn  ötulasti baráttumaðurinn  fyrir öryggi sjúklinga um allan heim.

Við það tækifæri undirritaði ég samkomulag um þátttöku Íslands í verkefninu „Hreinlæti og örugg heilbrigðisþjónusta haldast í hendur“ sem  er hluti af víðtækri áætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um  eflingu  sjúklingaöryggis.  Verkefnið felur m.a. í sér ákveðna skuldbindingu um þátttöku í að vinna að fækkun sýkinga sem eiga upptök sín í heilbrigðisþjónustunni.  Nú þegar hafa heilbrigðisráðherrar um 40 landa undirritað slíkt samkomulag þeirra á meðal Ástralía, Bretland og Finnland. 

Ágætu gestir.

Heilbrigðisyfirvöld telja mikilvægt að á hverjum tíma liggi fyrir skýr stefna á sviði gæðamála. Gæðaáætlun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins frá árinu 1999 hefur nú verið endurskoðuð og þann 25. apríl sl. kynntu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Landlæknisembættið Stefnumörkun heilbrigðisyfirvalda í gæðamálum til ársins 2010. 

Þessi gæðastefna styðst m.a. við markmið heilbrigðisáætlunar til ársins 2010 og viðmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um gæði í heilbrigðisþjónustunni.  Jafnframt hefur verið litið til stefnu heilbrigðisyfirvalda í gæðamálum annars staðar á Norðurlöndum og víðar.  Loks tekur stefnan mið af gæðaáætlun ráðuneytisins frá árinu 1999, lagafyrirmælum og annarri stefnumótun íslenskra stjórnvalda.

Megin tilgangur stefnunnar er að auka gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar og stuðla að bættu heilbrigði þjóðarinnar. Stefnan endurspeglar sýn heilbrigðisyfirvalda, en stofnanir eru jafnframt hvattar til að gera eigin gæðaáætlanir sem ganga út frá hlutverki og viðfangsefnum þeirrar stofnunar sem í hlut á.

Í nýrri gæðastefnu eru lagðar fram megin áherslur sem unnið verður að til ársins 2010 og er þar að finna 34 markmið.  Fyrsta áhersluatriðið sem fram kemur í  gæðastefnunni snýr einmitt að öryggi sjúklinga, sem er grunnur að gæðum þjónustunnar eins og ég  nefndi í upphafi.

Eins og flestir hér inni vita hafa rannsóknir sýnt að þar sem öryggi sjúklinga á heilbrigðisstofnunum er ábótavant er talið að orsakirnar liggi oftast í kerfum og vinnuferlum stofnana.  Því er góð skráning og úrvinnsla upplýsinga veigamikill þáttur í auknu öryggi og umbótum.

Í stefnunni eru sett fram markmið um að efla skráningu atvika um leið og  úrvinnsla upplýsinga úr atvikaskráningum verði gerð markvissari og sýnilegri. Jafnframt verður fljótlega skipaður starfshópur sem  hefur það  hlutverk að móta heildstæða stefnu á sviði sjúklingaöryggis og verður  sú áætlun sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sett fram um öryggi sjúklinga, höfð til hliðsjónar. Ég vil í þessu sambandi hvetja starfsmenn og  notendur heilbrigðisþjónustunnar  til aukins samstarfs  með það í huga að  tryggja öryggi  en  Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin  leggur ríka áherslu á hlutverk  notendanna sjálfra í því skyni.

Auk öryggis sjúklinga snúa markmið gæðastefnunnar m.a. að rafrænni skráningu, klínískum leiðbeiningum, gæðavísum, skilgreiningum á hlutverki og verkaskiptingu stofnana, gæðakröfum, árangursstjórnun og  mönnun en  á umliðnum árum hefur sjónum í vaxandi mæli verið beint að mikilvægi  góðrar mönnunar og starfsumhverfi.

Ég vil sérstaklega nefna hér mikilvægi gæðamenningar eða gæðabrags sem fjallað er um í stefnunni.  Gæðamenning endurspeglast m.a. í auknu samstarfi við sjúklinga og aðstandendur, beitingu nýjustu þekkingar og stöðugs náms. Skipulag starfseminnar og vinnuferlar beinast að því að mæta þörf sjúklings eða notanda fyrir þjónustu og tryggja um leið öryggi hans. Þar sem gæðamenning ríkir hafa starfsmenn skilið, viðurkennt og tileinkað sér gæðahugsun og hegðun sem felst m.a. í því að vilja sífellt gera betur. 

Stefnu heilbrigðisyfirvalda er ætlað að ýta undir þróun gæðamenningar en ábyrgð á henni hvílir ekki einungis á einstökum stjórnendum eða starfsmönnum heldur einnig á stjórnum stofnana og rekstraraðilum. 

Ágætu ráðstefnugestir

Mig langar að  lokum að nefna hér að á síðasta vorþingi voru samþykkt ný lög um heilbrigðisþjónustu og lög um Landlæknisembættið sem taka gildi 1. september nk.  Þar er kveðið á um mikilvæga þætti sem snúa að gæðum og öryggi heilbrigðisþjónustunnar. Í lögunum er m.a. gert ráð fyrir auknu hlutverki Landlæknisembættisins bæði á sviði gæðaeftirlits en einnig gæðaþróunar á   landsvísu.

Annað sem nefna má er Lyfjastefna til ársins 2012 sem var  kynnt í mars sl. en þar eru öryggi og gæði veigamiklir þættir.  Það væri sem sagt hægt að halda lengi áfram að tala hér um öryggi og gæði heilbrigðisþjónustunnar en ég læt hér staðar numið.

Ég sé á dagskránni að efninu verða gerð góð skil, af öflugu fólki, og svo verða umræður á eftir. Einnig verður opnuð hér  ný heimasíða  um sjúklingaöryggi. Ég vænti þess því að dagurinn í dag leiði okkur fram á veginn og stuðli að auknu öryggi og gæðum í íslenskri  heilbrigðisþjónustu.

Ráðstefnan er sett.

Talað orð gildir.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum