Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. maí 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Sýningarkassi með dýrum og plöntum í útrýmingarhættu

Sýningarkassi
Við sýningarkassann í Leifsstöð

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra afhjúpaði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í dag sýningarkassa með dýrum og plöntum í útrýmingarhættu sem óheimilt er að versla með samkvæmt CITES samningnum. Sýningunni er ætlað að fræða ferðafólk um samninginn og tegundir sem ólöglegt er, eða þarf leyfi til að flytja inn og út úr landinu.

Meðal þeirra fjölmörgu tegunda sem eru háðar leyfum eru fílar, nashyrningar, hvítabirnir, tígrisdýr og fleiri tegundir kattardýra, krókódílar, ýmsar eðlur, antilóputegundir, skjaldbökur, fjöldi skrautfugla, hvalir, styrjur, nokkrar tegundir kaktusa, orkideur og nokkrar tegundir harðviðar, svo og afurðir og full unnar vörur úr afurðum þessara tegunda. CITES reglur gilda um öll eintök tegunda óháð því hvort þau eru keypt, fengin gefins, fundin, ræktuð o.s.frv. Afurðir CITES tegundar geta t.d. verið skinn, tennur, bein, klær, fjaðrir og þess háttar.

CITES er samningur um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu gerður í Washington 3. mars 1973 ásamt síðari breytingum og viðaukum. Markmið samningsins er að vernda tegundir dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu með því að stjórna alþjóðlegum viðskiptum með þær. Samningurinn gildir um verslun með tegundir eða afurðir um 5.000 dýrategunda og 25.000 plöntutegunda.

Umhverfisráðuneytið fer með umsjón með framkvæmd samningsins hvað allar tegundir varðar nema nytjastofna sjávar en Umhverfisstofnun sér um leyfisveitingar og eftirlit með framkvæmd samningsins fyrir hödn ráðuneytisins. Sjávarútvegsráðuneytið hefur umsjón með samningnunm gagnvart nytjastofnum sjávar og Fiskistofa sér um framkvæmdinga gagnvart þeim tegundum. Náttúrufræðistofnun Íslands og Hafrannsóknarstofnunin veita vísindalega ráðgjöf við veitingu leyfa og framkvæmd hans. Hlutverk tollyfirvalda er m.a. að tollskoða CITES vörur við inn og útflutning og yfirfara CITES vottorð. Framkvæmd samningsins byggir á lögum nr. 85/2000 og reglugerð frá umhverfisráðuneytinu nr. 993/2004 um allar CITES tegundir nema nytjastofna sjávar og reglugerð nr.829/2005 frá sjávarútvegsráðuneytinu um tegundir úr hafi.

Þeir sem hyggjast flytja inn eða út tegundir sem tilgreindar eru í viðaukum reglugerðanna, eða afurðir þeirra, þurfa að sækja um CITES leyfi hjá Umhverfisstofnun eða Fiskistofu. Sækja þarf um slík leyfi fyrir alþjóðlega verslun svo sem inn- og útflutning heildsala, einkaaðila og einnig fyrir flesta minjagripi úr afurðum þeirra tegunda sem reglugerðirnar taka til. Þar á meðal fyrir innflutningi minjagripa úr fílabeini, hvalbeini, rostungstönnum og ýmsum náttúrulyfjum sem innihalda afurðir CITES tegunda. Brot varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Hægt er að fræðast nánar um CITES samninginn á heimasíðu Umhverfisstofnunar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum