Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. maí 2007 Innviðaráðuneytið

Nefnd skipuð um hlutverk og gerð hálendisvega

Samgönguráðherra hefur skipað nefnd sem leggja á tillögur fyrir ráðherra um hlutverk og gerð hálendisvega og slóða utan og innan friðlanda og þjóðgarða. Einnig er nefndinni falið að leggja fram hugmyndir um framtíðarþróun vegakerfis hálendisins.

Nefndin er meðal annars skipuð með hliðsjón af mikilli umræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu um gerð og framtíð vega um hálendi Íslands. Nýjar hugmyndir um hálendisvegi kalla á úttekt á notagildi vega sem fyrir eru og nauðsynlegt er að heildstæð mynd af vegakerfi hálendisins liggi fyrir áður en frekari ákvarðanir eru teknar um hugsanlega uppbyggingu slíkra vega. Nefndinni er falið að fjalla um hálendisvegi og slóða sem ýmist eru skráðir í kerfi Vegagerðarinnar eða eru óskráðir og að leggja tillögur fyrir samgönguráðherra um hvar mismunandi gerðir vega verði notaðar.

Í skýrslu um umhverfismat á tillögu að samgönguáætlun 2007 til 2018 kemur fram að nauðsynlegt sé að yfirvöld móti heildarstefnu og framtíðarsýn um hálendi Íslands í því skyni að samgönguáætlun geti samræmst henni.

Formaður nefndarinnar verður Friðrik Pálsson, hótelstjóri og ferðaskipuleggjandi. Aðrir nefndarmenn eru Eymundur Runólfsson forstöðumaður, tilnefndur af Vegagerðinni, Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, skipuð án tilnefningar, Magnús Hallgrímsson, tilnefndur af Landvernd, Pálmar Sigurðsson skrifstofustjóri, tilnefndur af Samtökum ferðaþjónustunnar og Trausti Baldursson fagsviðsstjóri, tilnefndur af Umhverfisstofnun. Ritari nefndarinnar er Eiríkur Bjarnason, verkfræðingur í samgönguráðuneytinu.

Gert er ráð fyrir að nefndin ljúki störfum eigi síðar en í nóvember á þessu ári til að hún nýtist við endurskoðun samgönguáætlunar 2009-2012.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum