Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. maí 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Reglur og samskiptahefðir á íslenskum vinnumarkaði verði virtar

Starfshópur fulltrúa stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði, sem félagsmálaráðherra skipaði í júní 2006, hefur lokið störfum og skilað skýrslu með tillögum til ráðherra meðal annars um hvernig megi gera framkvæmdina innan stjórnkerfisins skilvirkari.

Alþingi hefur nú þegar lögfest frumvarp Magnúsar Stefánssonar félagsmálaráðherra sem byggðist á tillögum nefndarinnar og varðaði réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, sbr. lög nr. 45/2007.

Aukin yfirsýn

Starfshópnum þykir enn fremur nauðsynlegt að efla samvinnu stjórnvalda sem koma að þessum málaflokki, svo sem lögreglu, skattyfirvalda, Fyrirtækjaskrár, Tryggingastofnunar ríkisins, Útlendingastofnunar, Vinnueftirlits ríkisins, Vinnumálastofnunar og Þjóðskrár. Auk þess þurfi að auðvelda stjórnvöldum að hafa yfirsýn yfir fjölda erlendra ríkisborgara sem starfa á íslenskum vinnumarkaði. Starfshópurinn gerir ákveðnar tillögur um verklag og telur rétt að skipaður verði vinnuhópur til að vinna að nánari útfærslu.

Áfram er lögð áhersla á öflugt og gott samráð stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um þessi efni. Mikilvægt sé að fjölgun erlendra fyrirtækja og útlendinga hér á landi raski ekki þeim reglum og samskiptahefðum sem mótast hafa á íslenskum vinnumarkaði.

Margvíslegar tillögur

Meðal annars leggur nefndin til að gefin verði út tímabundin skattkort annars vegar í samræmi við gildistíma EES-dvalarleyfis og hins vegar í samræmi við gildistíma atvinnuleyfis eftir því sem við á.

Jafnframt er lögð til sú breyting að hafi atvinnurekandi eða annar lögaðili ekki sótt um kennitölu til Þjóðskrár á því tímamarki sem viðkomandi EES-borgari sækir um EES-dvalarleyfi til Útlendingastofnunar geti stofnunin framsent beiðni um útgáfu kennitölu fyrir viðkomandi EES-borgara til Þjóðskrár.

Til hagræðingar eru lagðar til þær breytingar frá núverandi framkvæmd að atvinnurekandi sæki ekki um kennitölu fyrir viðkomandi útlending fyrr en fyrir liggur að dvalar- og atvinnuleyfi verði veitt, ef um er að ræða ríkisborgara ríkis utan EES-svæðisins.

Aukin upplýsingamiðlun

Loks telur starfshópurinn brýnt að upplýsingagjöf verði bætt til erlendra ríkisborgara sem koma til að dvelja og starfa hér á landi. Tryggja verði að þeir eigi greiðan aðgang að upplýsingum um réttindi sín og skyldur hér á landi strax við komuna til landsins.

Starfshópurinn leggur áherslu á að erlendir aðilar geti á auðveldan hátt nálgast allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að þeir geti starfað með lögmætum hætti hafi þeir hug á að hefja atvinnustarfsemi hér á landi.

Fjölmenningarsetrið hefur í samstarfi við félagsmálaráðuneytið láta taka saman umfangsmiklar upplýsingar fyrir útlendinga sem birtar eru hjá þjónustuveitunni Ísland.is, bæði margháttaðar leiðbeiningar á nokkrum tungumálum og orðskýringar sem gagnast innflytjendum og raunar öllum notendum vefsins. Ísland.is er samstarfsverkefni ríkisstofnana, ráðuneyta og sveitarfélaga og er eitt mikilvægasta verkefnið í stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið fyrir árin 2004–2007, „Auðlindir í allra þágu“.

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra tilkynnti í mars síðastliðnum að upplýsingamiðlun Fjölmenningarsetursins yrði efld með viðbótarstöðugildi upplýsingafulltrúa. Lögfræðiþjónusta Alþjóðahússins yrði sömuleiðis styrkt.

Þar að auki mun Alþjóðahús gefa út bækling með styrk og þátttöku félagsmálaráðuneytisins sem ætlað er að veita innflytjendum og erlendum starfsmönnum sem koma tímabundið til landsins nauðsynlegar upplýsingar og greiða götu þeirra í nýju landi.

Skjal fyrir Acrobat ReaderSkýrsla starfshópsins



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum