Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. maí 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Nýr heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tekur við embætti

Nýr ráðherra tekur við lyklavöldum að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, tekur við lyklavöldum ráðuneytisins úr hendi fráfarandi ráðherra, Sivjar Friðleifsdóttur

Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, tók við embætti heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á ríkisráðsfundi í dag.

Að loknum ríkisráðfundi kom nýr ráðherra í ráðuneyti sitt og tók við lyklavöldum úr hendi fráfarandi ráðherra, Sivjar Friðleifsdóttur. Guðlaugur Þór Þórðarson er fæddur í Reykjavík 19. desember 1967. Foreldrar hans eru Þórður Sigurðsson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn og Sonja Guðlaugsdóttir. Maki hans er Ágústa Johnson.

Guðlaugur Þór Þórðarson er stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands. Hann sat sem varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokk á Alþingi árið 1997 (febrúar - mars og maí – júní) og 1998 (október - nóvember). Hann var kosinn alþingismaður í Reykjavíkurkjördæmi norður 2003 og er nú 1. þingmaður í Reykjavíkurkjördæmi - norður. Hann hefur setið í félagsmála- og umhverfisnefnd Alþingis. Hann var formaður Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA frá 2003. Guðlaugur Þór Þórðarson var kosinn í borgarstjórn Reykjavíkur 1998.

Tólf einstaklingar hafa gegnt embætti heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á undan Guðlaugi Þór Þórðarsyni frá því ráðuneytið var stofnsett 1970. Tuttugu ár eru frá því fulltrúi Sjálfstæðisflokksins gegndi síðast embætti heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, en það var Ragnhildur Helgadóttir, sem lét af embætti að loknum kosningum sumarið 1987.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum