Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. júní 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Norðlingaskóli flaggar Grænfána

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra afhendir flaggar Grænfánanum með nemendum og starfsfólki Norðlingaskóla.
Við Norðlingaskóla

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra afhenti nemendum og starfsfólki Norðlingaskóla Grænfánann í gær. Það var fyrsti Grænfáninn sem Þórunn afhendir síðan hún tók við starfi umhverfisráðherra. Skólar fá leyfi til að flagga Grænfánanum í tvö ár ef þeir uppfylla skilyrði er varða umhverfismennt og umhverfisstefnu.

Landvernd veitir Grænfánann hér á landi en verkefnið er styrkt af umhverfisráðuneytinu og menntamálaráðuneytinu. Nú eru 88 skólar hér á landi sem taka þátt í verkefninu, þar af 53 grunnskólar, 32 leikskólar, 2 menntaskólar og einn háskóli. Af þeim hafa 36 skólar fengið að flagga Grænfánanum. Norðlingaskóli er því þrítugasti og sjöundi skólinn hér á landi til að hljóta þessa viðurkenningu.

Um 15.000 skólar í yfir 30 löndum í Evrópu, S-Ameríku, Afríku og Asíu taka þátt í verkefninu og um 5.000 skólar hafa náð því markmiði að fá Grænfána.

Norðlingaskóli hefur unnið markvisst að umhverfisstefnu innan skólans frá því að skólinn tók fyrst til starfa haustið 2003. Innan skólans er starfandi umhverfisnefnd sem í eru 1 nemandi úr hverjum árgangi, alls 8 nemendur, fimm starfsmenn ásamt þremur fulltrúum foreldra. Lögð hefur verið áhersla á að flokka og endurnýta pappír og annan úrgang, reynt að draga úr notkun einnota umbúða með því að bjóða nemendum upp á mjólk og vatn og hefur hver nemandi sitt drykkjarmál.

Svokallaðar Grænfánasmiðjur hafa verið settar á laggirnar með það að markmiði að nemendur temji sér jákvætt viðhorf til umhverfis, náttúru og vísinda, sýni áhuga og beri ábyrgð á nánasta umhverfi sínu.  Norðlingaskóli hefur einnig lagt mikla áherslu á útikennslu og hefur sérstaka útikennslustofu í Björnslundi sem er í nágrenni skólans. Í útikennslustofunni eru 6 mismunandi stöðvar svo hægt er að bjóða upp á fjölbreytta útikennslu. Útikennslustofan hefur vakið mikla athygli og um leið athygli á umhverfisstefnu skólans.

Nánari upplýsingar um Grænfánann má nálgast á heimasíðu Landverndar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum