Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. júní 2007 Innviðaráðuneytið

Rætt um göng, vegagerð, ferju og flugvöll

Vaðlaheiðargöng, uppbyggður vegur um Kjöl, Grímseyjarferja og flugvallamál komu til umræðu á fundum Kristjáns L. Möller samgönguráðherra með fulltrúum aðila þessara mála á Akureyri í gær. Ráðherrann hefur að undanförnu sett sig inn í verkefni ráðuneytisins og er nú að ljúka yfirferð í stofnanir þess.

Samgönguráðherra kynnir sér vegamál við Akureyri.
Kristján L. Möller og Birgir Guðmundsson eru hér skammt frá hugsanlegum gangamunna Vaðlaheiðarganga.

Fulltrúar Greiðrar leiðar ehf., þeir Pétur Þór Jónasson, Ásgeir Magnússon og Halldór Jóhannsson röktu undirbúningsvinnu félagsins vegna Vaðlaheiðarganga og kynntu gögn. Sögðu þeir undirbúningi og rannsóknum lokið, leiðarval lægi fyrir og ljóst að framkvæmdin væri tæknilega möguleg. Útboðsskylda verksins hafði komið þeim á óvart. Rætt var um ýmsar leiðir varðandi fjármögnun og aðkomu ríkisins eða einkaframkvæmd. Ráðherra sagði að næsta skref væri að fara yfir málið í ráðuneytinu og í framhaldi af því leggja tillögur um framgang þess fyrir ríkisstjórn.

Brynjólfur Árnason, Garðar Ólason og Alfreð Garðarsson, fulltrúar Grímseyinga vegna nýrrar Grímseyjarferju, fóru yfir stöðu verksins hjá Vélsmiðju Orms og Víglundar. Útlit er fyrir að verkinu geti lokið á næstu þremur mánuðum.

Fulltrúar Norðurvegar, sem hefur sett fram hugmyndir um lagningu uppbyggs heilsársvegar um Kjöl, Kristján Vigfússon, Halldór Jóhannsson og Eiður Gunnlaugsson, kynntu hugmyndir félagsins. Farið var yfir helstu gögn um athugun á áhrifum vegarlagningarinnar sem eru stytting leiða milli Norður- og Suðurlands, aukin hagkvæmni við vöruflutninga milli þessara landshluta og minna álag á Hringveginn sem aukið gæti umferðaröryggi. Lýstu þeir áhuga félagsins á frekara samstarfi við Vegagerðina um framhald rannsókna. Ráðherra þakkaði góða kynningu. Sagði hann að ekki væri séð að slík vegarlagning samræmdist gildandi skipulagi á miðhálendi. Sagði hann mikilvægt að kanna málið áfram út frá skipulags- og umhverfissjónarmiðum og efna til víðtækrar umræðu um vegagerð til framtíðar á hálendinu.

Sigurður Hermannsson, Haukur Hauksson og Áslaug Magnúsdóttir frá Flugstoðum kynntu umfang starfsemi Akureyrarflugvallar og hugmyndir um lengingu og fleiri umbætur sem ráðast þarf í, meðal annars. nýtt flughlað og stækkun flugstöðvar. Ljóst að lenging flugbauta gefur aukin tækifæri á flugumferð, millilandaflugi með farþega og frakt. Þar með yrði unnt að nýta flugvélar betur sem geta í dag við ákveðin skilyrði þurft að taka á loft léttari (með minni frakt/færri farþega). Fram kom sá vilji að Flugstoðir haldi áfram undirbúningi fyrir útboð vegna lengingar enda er fjármagn tryggt vegna undirbúnings. Hugsanlegt er að auglýsa útboð undir lok árs og hefja framkvæmdir 2008.

Auk þessara funda heimsótti samgönguráðherra einnig Vegagerðina þar sem Birgir Guðmundsson umdæmisstjóri greindi frá helstu verkefnum sem unnið yrði að í ár og þeim sem væru á undirbúningsstigi.

Aukin flugumferð um Akureyrarflugvöll.
Flughreyfingar á Akureyrarflugvelli eru um það bil 12% af öllum flughreyfingum á áætlunarflugvöllum innanlands og fer þeim fjölgandi. Sigurður Hermannsson virðir hér fyrir sér þrjár vélar á vellinum í gær, ein á leið til Kaupmannahafnar, önnur í vöruflutningum til Grænlands og sú þriðja á leið til Reykjavíkur.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum