Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. júní 2007 Forsætisráðuneytið

Málum bæinn bleikan

Í dag eru 92 ár síðan konur fengu kosningarrétt á Íslandi og í tilefni af því er kvenréttindadagurinn haldinn í dag. Enn stendur yfir baráttan um jafnrétti kynjanna. Samkvæmt Hagstofu Íslands virðist enn langt í land á mörgum vígstöðvum. Má þar nefna að konur eru í miklum minnihluta í stjórnum, nefndum og ráðum hjá ríkinu eða um 32%. Í árslok 2006 voru konur aðeins 16% af sendiherrum Íslands, hlutfallið hækkar aðeins þegar kemur að stjórnmálum en 32% þingmanna á Íslandi eru konur.

Við viljum hvetja alla til að sýna stuðning við jöfnum réttindum og tækifærum kvenna og karla á þessum degi. Hægt er að sýna stuðning við jafnrétti kynjanna með því að heiðra bleika litinn í dag, hægt er að klæðast bleiku í tilefni dagsins, flagga bleiku, planta bleikum blóm, skreyta glugga bleika, setja upp bleikan varalit, senda bleikan tölvupóst eða borða bleikan snúð svo dæmi séu nefnd.

Búið er að skipuleggja ýmsa viðburði í tilefni dagsins en aðstandendur Málum bæinn bleikan eru Bríet, Kvenréttindafélag Íslands, Stígamót, Femínistafélag Íslands, Kvennaráðgjöfin, Kvenfélagasamband Íslands, Samtök um kvennaathvarf, Kvennasögusafn, Stúdentaráð Háskóla Íslands, Kvennakirkjan, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræði (RIKK) og UNIFEM.

Dagskrá

Svona fögnum við 19. júní – auk þess að bera eitthvað bleikt allan daginn!

  • 10:00 Afhending Bleiku steinanna, hvatningarverðlauna Femínistafélagsins á Austurvelli og Ísafirði
  • 13:00 Opið hús á Jafnréttisstofu, Borgum á Akureyri
  • 16:15 Kvennasöguganga undir leiðsögn Kristínar Ástgeirsdóttur sagnfræðings. Gangan hefst við Kvennaskólann í Reykjavík, gengið verður um Þingholtin og Kvosina og endað á Hallveigarstöðum
  • 17:15 Hátíðardagskrá í samkomusal Hallveigarstaða í boði Kvenréttindafélags Íslands, Kvenfélagasambandsins og Bandalags kvenna í Reykjavík. Ávörp flytja Þorbjörg Inga Jónsdóttir, formaður KRFÍ, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Steingerður Steinarsdóttir, ritstjóri 19. júní
  • 18:00 Veitingar og kaffispjall á Hallveigarstöðum
  • 20:30 Kvennamessa Kvennakirkjunnar í samvinnu við Kvenréttindafélag Íslands og Kvenfélagasamband Íslands. Messan er haldin við þvottalaugarnar í Laugardal
  • 22:00 Samkoma ungliðahóps Femínistafélagsins á Cultura á Hverfisgötu

Kvenréttindafélag Íslands dreifir tímaritinu 19. júní frítt.

UNIFEM selur bleik armbönd til styrktar kvennamiðstöðvum í Afganistan.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum