Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. júlí 2007 Innviðaráðuneytið

Nítján ferðir í viku milli Íslands og Grænlands

Fyrsta flugferð sumarsins á vegum Flugfélags Íslands milli Reykjavíkur og Narsarsuaq var farin síðastliðinn þriðjudag en félagið flýgur þessa leið tvisvar í viku. Alls flýgur félagið 19 ferðir í viku milli Íslands og þriggja staða á Grænlandi.

Á leiðinni til Grænlands.
Á leiðinni til Grænlands.

Kristján L. Möller samgönguráðherra og Róbert Marshall, aðstoðarmaður hans. voru með í fyrstu ferðinni. Samgönguráðherra segir þjónustu Flugfélags Íslands mikilvæga fyrir samskipti landanna. ,,Með þessu flugi er hægt að þróa ferðir þeirra sem vilja heimsækja Ísland og hafa jafnframt möguleika til að skreppa til Grænlands í tvo til fjóra daga. Ég er viss um að það verður vaxandi spenningur fyrir þessum möguleika í ferðaþjónustuflórunni hjá okkur.? Hann segir samskipti Íslands og Grænlands hafa staðið um árabil meðal annars í gegnum vestnorrænt samstarf á ýmsum sviðum og einnig hafi viðskipti Íslendinga og Grænlendinga farið vaxandi og meðal annarsi hafi nokkur íslensk verktakafyrirtæki tekið að sér verkefni á Grænlandi. ,,Öll þessi samskipti kalla á sífellt meiri þjónustu á sviði flugsins og þar hefur Flugfélag Íslands miklu hlutverki að gegna.?

Ferðir milli Reykjavíkur og Narsarsuaq standa fram í ágúst og hefur Flugfélag Íslands fengið tímabundinn styrk frá samgönguráðuneytinu vegna þessa flugs. Félagið leigir flugvél frá Atlantic Airways til flugsins. Þá flýgur félagið milli Keflavíkur og Nuuk þrisvar í viku í sumar og fjórtán ferðir í viku milli Reykjavíkur og Kulusuk og er því flugi sinnt með Dash 8 eða Fokker 50 vélum félagsins. Flugfélagið hefur um árabil sinnt flugi milli Íslands og Kulusuk, yfirleitt árið um kring.

Siglt innan um ís á Einarsfirði á Grænlandi.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum