Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. júlí 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisþing boðað í haust

Umhverfisráðuneytið
Umhverfisráðuneytið

Umhverfisráðherra hefur boðað til Umhverfisþings í Reykjavík dagana 12. og 13. október næstkomandi. Þetta er í fimmta sinn sem Umhverfisþing er haldið og mun það að þessu sinni fjalla um náttúruvernd og líffræðilega fjölbreytni. Á þinginu verður meðal annars fjallað um drög að náttúruverndaráætlun fyrir tímabilið 2009-2013 og drög að áætlun um líffræðilega fjölbreytni.

Umhverfisráðuneytið hefur skipað starfshóp til að vinna að undirbúningi næstu náttúruverndaráætlunar og er honum ætlað að kynna fyrstu drög að henni á umhverfisþinginu. Í framhaldi af því mun hópurinn vinna að verkefninu, m.a. á grundvelli þess sem fram kemur á þinginu og áætlað er að hann skili tillögum til ráðuneytisins fyrir 1. mars á næsta ári. Starfshópinn skipa Sigurður Á. Þráinsson, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu, formaður, Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands og Ellý Katrín Guðmundsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.

Við gerð áætlunarinnar verður lögð áhersla á að bæta framkvæmd og eftirlit með þegar friðlýstum svæðum, friðlýsingu á miðhálendi Íslands, s.s. allt votlendi Þjórsárvera og jaðarsvæða Vatnajökulsþjóðgarðs, auk ákveðinna friðlýsinga viðkvæmra svæða og náttúrufyrirbæra í hafinu umhverfis Ísland. Við gerð áætlunarinnar verður tekið mið af fenginni reynslu af núgildandi náttúruverndaráætlun.

Það er von ráðuneytisins að fimmta Umhverfisþing verði vettvangur upplýstrar umræðu og skoðanaskipta um náttúruvernd, sem nýtist stjórnvöldum við endurskoðun náttúruverndaráætlunar og mótun stefnu um líffræðilega fjölbreytni og almennt til að efla umræðu um þessi mál hér á landi.

Nánari upplýsingar um þingið verður að finna á heimasíðu umhverfisráðuneytisins þegar nær dregur. Á heimasíðunni má fræðast um síðasta Umhverfisþing sem haldið var fyrir tveimur árum og fjallaði um sjálfbæra þróun.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum