Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. ágúst 2007 Innviðaráðuneytið

Icelandair Group hlýtur samgönguverðlaun

Icelandair Group hlaut samgönguverðlaun samgönguráðherra sem veitt voru í fyrsta sinn í dag. Verðlaunin fær fyrirtækið og fyrirrennarar þess á sviði flugmála fyrir brautryðjendastarf og áratuga uppbyggingu á flugsamgöngum um Ísland og milli landa.

Samgönguverðlaun afhent.
Samgönguverðlaun afhent. Verðlaunagripurinn er myndverkið Stög eftir Pétur Bjarnason.

Samgönguverðlaun verða veitt árlega einstaklingi, félagi eða fyrirtæki sem þykir hafa skarað framúr eða lagt fram verðmætan skerf til samgöngumála þjóðarinnar. Við leit að verðlaunahafa eru könnuð öll svið samgöngumála. Fyrrverandi samgönguráðherra skipaði starfshóp til að leggja fram tillögur um verðlaunahafa og var Ingimundur Sigurpálsson formaður hópsins. Auk hans sátu í hópnum Sigríður Finsen hagfræðingur, Kjartan Ólafsson félagsfræðingur og Kristján Már Unnarsson fréttamaður. Jóhannes Tómasson upplýsingafulltrúi ráðuneytisins starfaði með hópnum.

Samnefnari

Greint var frá fyrirhugaðri verðlaunaveitingu á liðnum vetri og óskað eftir tilnefningum auk þess sem starfshópnum var falið að leggja fram tillögur. Starfshópurinn kom saman nokkrum sinnum snemmsumars og var það niðurstaða hópsins að leggja til við samgönguráðherra að Icelandair Group hlyti verðlaunin. Kjarninn í rökstuðningi hópsins er sú staðreynd að félagið stendur á gömlum merg frumkvöðla í flugmálum þjóðarinnar. Félagið er samnefnari fyrir þessa frumkvöðla sem hafa víða farið og félagið er í dag öflugt flug- og ferðaþjónustufyrirtæki sem lagt hefur grunn að gjaldeyrisskapandi atvinnugrein.

Verðlaunin voru afhent í athöfn í Þjóðmenningarhúsinu. Kristján L. Möller samgönguráðherra flutti ávarp, Ingimundur Sigurpálsson skýrði frá vinnu starfshópsins og niðurstöðu og ráðherra afhenti síðan verðlaunin.

Samgönguráðherra sagði meðal annars í ávarpi sínu að það væri eðlilegt að samgönguráðherra efndi til viðurkenningar sem þessarar. Samgöngur næðu til allra sviða í nútímaþjóðfélagi og þar væri rík þörf fyrir uppbyggingu og áræði. Í lok ávarpsins sagði ráðherra meðal annars:

,,Samgönguverðlaunum verður ætlað að vera í senn viðurkenning á þýðingarmiklu starfi og leiðarljós, fyrirmynd eða hvatning öllum þeim sem starfa á sviði samgöngumála. Þar eru allir málaflokkar jafnvígir og öll sviðin eru jafn þýðingarmikil. Það er sama hvert litið er í íslenskum samgöngumálum, hvarvetna sjáum við merki um hugvit, sérfræðiþekkingu, verkkunnáttu og áræði. Þegar þetta allt fer saman verður til sterk heild sem leiðir til nýjunga og framfara.

Ég vonast til að undir þessum formerkjum verði samgönguverðlaun einstaklingum sem fyrirtækjum hvatning til góðra verka og þakka starfshópi um samgönguverðlaun fyrir gott starf undir forystu Ingimundar Sigurpálssonar.?

Í ávarpi sínu sagði Ingimundur Sigurpálsson meðal annars: ,,Starfshópurinn kom saman til funda í vor og snemmsumars og kom fljótt í ljós að úr vöndu var að ráða. Hvar átti að bera niður: Átti að horfa til eins ákveðins framtaks, átti að leita að ákveðnu afreki einstaklings eða átti að kanna á hvaða sviði samgangna mestar framfarir hefðu orðið síðustu ár og þannig komu upp fjölmörg áleitin álitamál, sem taka varð afstöðu til. Og því meir sem málin voru rædd kom æ betur í ljós, að af fjölmörgu var að taka. Sá starfshópurinn raunar fram á að geta lagt fram tillögur um samgönguverðlaun til nokkurra næstu ára.

Samgöngur leika gríðarlega stórt hlutverk í íslensku samfélagi og tengjast þær nánast öllum atvinnuvegum og flestum starfsgreinum. Rekstur samgöngukerfa kallar á sérfræðinga á öllum sviðum og þar þurfa hugsjónamenn einnig að koma við sögu.

Til að gera langa sögu stutta þá beindust augu starshópsins til flugsins - nú þegar samgönguverðlaun eru veitt í fyrsta sinn; atvinnugreinar, sem átt hefur svo ríkan þátt í því að tengja Ísland við umheiminn. Sem samnefnara fyrir þetta svið gerði starfshópurinn tillögu um að Icelandair hlyti samgönguverðlaun nú fyrsta sinni og hefur samgönguráðherra fallist á þá tillögu."

Verðlaunagripurinn er eftir Pétur Bjarnason myndlistarmann og er nafn verksins Stög. Pétur útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1982 og stundaði síðan framhaldsnám í Þýskalandi og Belgíu. Hann kenndi við Myndlista- og handíðaskólann og rekur nú eigin vinnustofu í Hafnarfirði. Hann hefur margoft verið fenginn til að vinna höggmyndir fyrir opinbera aðila og aðra af margs konar tilefnum. Pétur hefur einnig haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum.

Rökstuðningur

Hér fer á eftir rökstuðningur um samgönguverðlaun ársins 2007:

,,Icelandair Group stendur á gömlum merg. Saga félagsins og forvera þess er í hnotskurn saga um uppbyggingu og nýsköpun í atvinnulífi Íslendinga sem byggðist á áræði og framsýni stofnenda og forystumanna í gegnum árin. Fámennri eyþjóð í Norður-Atlantshafi hefur alltaf verið nauðsynlegt að eiga mikil samskipti við umheiminn. Þau samskipti hafa fyrr og síðar grundvallast á víkingum. Þau samskipti hafa lagt grunn að efnahagslegri velferð þjóðarinnar og eru einn af lykilþáttum í góðum lífskjörum landsmanna.

Starfsemi Icelandair má rekja aftur til ársins 1937 þegar Flugfélag Akureyrar er stofnað og reglulegt innanlandsflug hafið. Höfuðstöðvarnar voru fluttar til Reykjavíkur árið 1943 og nafninu breytt í Flugfélag Íslands. Var það fyrsta skrefið í fjölbreyttri nafnaþróun félagsins og upp úr því var einnig farið að nota nafnið Icelandair á alþjóðlega vísu.

Árið 1944 var stofnað annað flugfélag á Íslandi, Loftleiðir, og kepptu þessi félög um innanlandsflugið en fljótlega var einnig horft til útlanda. Flugfélag Íslands hóf millilandaflug sumarið 1945 til Evrópu. Millilandaflug Loftleiða, Icelandic Airlines, hófst árið 1947, einnig til Evrópulanda, en Loftleiðamenn hófu árið 1955 flug milli Lúxemborgar og Bandaríkjanna með viðkomu á Íslandi.

Árið 1973 voru félögin sameinuð í eignarhaldsfélagið Flugleiðir og sex árum síðar var ákveðið að allur rekstur og öll starfsemi gömlu félaganna skyldi heyra undir og vera á ábyrgð Flugleiða. Á næstu árum skiptust á skin og skúrir í rekstri félagsins en forystumenn þess héldu stefnunni, brugðust við erfiðum aðstæðum og sneru vörn í sókn.

Rekstrarumhverfi, tækni og skilyrði öll í flugstarfsemi og ferðaþjónustu hafa á örfáum árum þýtt gjörbreytt félag í sterkri sókn á innanlandsmarkaði sem á alþjóðavísu. Sú sókn hefur skapað nærri þrjú þúsund störf í flug- og ferðaþjónustu hjá Icelandair Group. Þessi sókn hefur einnig kallað á innlenda sem erlenda samkeppni í þágu einstaklinga sem fyrirtækja.

Icelandair hefur verið í forystu í íslenskum flugmálum í áratugi. Félagið er samnefnari fyrir frumkvöðla og brautryðjendur í íslensku flugi, fagmenn á öllum sviðum flugs hvort sem þeir hafa starfað innan vébanda félagsins eða hjá öðrum íslenskum flugrekendum stórum sem smáum.

Starfshópur um samgönguverðlaun telur Icelandair Group vel að samgönguverðlaunum komið."

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, tók við verðlaununum. Fyrir hönd fyrrverandi og núverandi starfsfólks þakkaði hann fyrir þessa viðurkenningu sem hann sagði að væri kærkomin og hældi jafnframt samgönguyfirvöldum fyrir að veita verðlaun sem þessi.

Á verðlaunaskjalinu er svofelldur texti:

Samgönguverðlaun

Samgönguverðlaun samgönguráðherra sem veitt eru í fyrsta sinn 2007 falla í skaut Icelandair Group.

Fyrirtækið og fyrirrennarar þess á sviði flugmála hlýtur verðlaunin fyrir brautryðjendastarf og áratuga uppbyggingu á flugsamgöngum um Ísland og milli landa.

Samgönguverðlaun eru veitt einstaklingi, samtökum eða fyrirtæki sem hafa skarað framúr eða lagt fram verðmætan skerf á einhverju sviði samgöngumála þjóðarinnar.

Reykjavík 21. ágúst 2007

Kristján L. Möller samgönguráðherra



Samgönguverðlaun afhent.
Kristján L. Möller samgönguráðherra afhenti Jóni Karli Ólafssyni, forstjóra Icelandair Group, verðlaunagripinn og skjal til staðfestingar verðlaununum. Lengst til hægri er Ingimundur Sigurpálsson, formaður starfshóps um samgönguverðlaunin. (Ljósm. Þórdís Jóhannesdóttir)
Samgönguverðlaun afhent.
Frá afhendingu samgönguverðlaunanna í Þjóðmenningarhúsinu.
Samgönguverðlaun afhent.
Frá vinstri: Magnús Oddsson ferðamálastjóri, Pétur Bjarnason myndlistarmaður og kona hans, Sigríður Jóhannesdóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum