Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. september 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 07040040

Hinn 31. ágúst 2007 er kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

Ráðuneytinu barst þann 3. apríl 2007 bréf 17 íbúa á Akranesi þar sem þess er krafist að umhverfisráðuneytið beiti sér fyrir því að starfsemi Laugafisks verði stöðvuð og að starfshættir Heilbrigðisnefndar Vesturlands verði teknir til athugunar vegna útgáfu á starfsleyfi til umrædds fyrirtækis 1. nóvember 2006. Þykir verða að virða umrætt erindi sem stjórnsýslukæru.

I. Málavextir og kröfur kærenda

Þann 1. nóvember 2006 var af hálfu Heilbrigðisnefndar Vesturlands tekin ákvörðun um endurnýjun starfsleyfis Laugafisks ehf, sbr. 6. gr. laga nr. 7/1998 og 20. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur er haft getur í för með sér mengun. Lúta athugasemdir kærenda að því að endurnýjun leyfisins hafi ekki verið í samræmi við gildandi lög og reglur þetta varðandi. Lítur ráðuneytið þannig á að það sé framangreind ákvörðun um endurnýjun leyfisins sem kæran beinist hér að, líkt og fyrr greinir. Samkvæmt málsgögnum Heilbrigðisnefndar Vesturlands var þann 1. nóvember síðastliðinn endurútgefið starfsleyfi handa Laugafiski ehf., Breiðargötu 8 Akranesi. Fyrirtækið hefur með höndum heitloftsþurrkun sjávarafurða. Var leyfið upphaflega útgefið til fjögurra ára, en nokkrum mánuðum áður en gildistími þess starfsleyfis rann út, tók heilbrigðisnefnd ákvörðun um endurnýjun þess. Telja kærendur að þeir stjórnsýsluhættir heilbrigðisnefndarinnar að auglýsa ekki til athugasemda þá leyfisendurnýjun, standist ekki gildandi lög og reglur. Er þess krafist af hálfu kærenda að starfsemi fyrirtækisins verði stöðvuð og vinnubrögð heilbrigðisnefndarinnar tekin til athugunar.

II. Niðurstaða ráðuneytisins

Í 1. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir kemur fram að markmið þeirra laga er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi er felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Í 2. gr. laganna er meðal annars svo fyrir mælt að lögin taki til hvers konar starfsemi og framkvæmda hér á landi, sem hafa eða haft geta áhrif á þá þætti sem tilgreindir eru í 1. gr. laganna. Hefur ráðherra sett áðurnefnda reglugerð nr. 785/1999 á grundvelli umræddra laga til að stuðla að því að þessum markmiðum megi ná, sbr. um það heimildarákvæði 5. gr. áðurnefndra laga. Í 20. gr. reglugerðarinnar kemur fram að endurskoða skuli starfsleyfi að jafnaði á fjögurra ára fresti og í 12 gr. reglugerðarinnar er tekið fram að starfsleyfi skuli gefa út til ákveðins tíma. Í 24. gr. eru svo ákvæði um auglýsingar og almennings til athugasemda vegna umsókna um starfsleyfi. Ekki er þó vikið að því í reglugerðinni hvernig fara skuli með endurnýjun starfsleyfa, það er þegar ekki þykir nauðsynlegt að gefa út nýtt starfsleyfi, en það var mat heilbrigðisnefndar að ekki þyrfti að gefa út nýtt starfsleyfi til handa fyrirtækinu heldur aðeins endurnýja það. Fram er komið að starfsleyfi Laugafisks ehf. var tímabundið til fjögurra ára. Líkt og gögn málsins upplýsa um liggur fyrir að starfsemi þessi er líkleg til þess að hafa í för með sér áhrif á loftgæði eða vera lyktarvaldandi fyrir umhverfið, sbr. skilgreiningu á hugtakinu mengun í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 7/1998. Endurnýjun starfsleyfisins varðar því hagsmuni þeirra er búa í grennd við umrædda fiskiðju. Í ljósi þess og með hliðsjón af framansögðu er það mat ráðuneytisins að þess hafi ekki verið gætt af hálfu Heilbrigðisnefndar Vesturlands að tryggja þeim er hagsmuni gátu átt vegna endurnýjunar starfsleyfisins, svigrúm til að koma að athugasemdum sínum og sjónarmiðum áður en hin kærða ákvörðun um endurnýjun starfsleyfis var tekin. Er það og mat ráðuneytisins að heilbrigðisnefnd beri að fylgja þeim formreglum er ákvæði 24. gr. umgetinnar reglugerðar kveða á um, hvort heldur um er að tefla útgáfu á nýju starfsleyfi eða endurnýjun á eldra starfsleyfi.

Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 er kærufrestur tvær vikur frá ákvörðun heilbrigðisnefndar. Hin kærða ákvörðun var tekin þann 1. nóvember 2006 og kæra barst ráðuneytinu ekki fyrr en 28. apríl 2007. Með tilliti til þess að heilbrigðisnefnd auglýsti umrætt starfsleyfi ekki til athugasemda sbr. 24. gr. framannefndrar reglugerðar svo og með vísan til ákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um afsökunarástæður kærudráttar, þykir rétt að taka hina kærðu ákvörðun til efnisúrskurðar. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að fella hina kærðu ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar úr gildi og beina því til hennar að taka nýja ákvörðun í samræmi við þær reglur er raktar eru í 24. gr. umgetinnar reglugerðar. Samkvæmt ákvæðum 26. gr. laga nr. 7/1998 er það almennt aðeins á valdsviði heilbrigðisnefnda og heilbrigðisfulltrúa að beita þvingunarúrræðum eins og stöðvun starfsemi. Telur ráðuneytið lagaskilyrði bresta fyrir því að unnt sé að taka kröfu um stöðvun atvinnurekstrar Laugafisks ehf. til greina. Það skal tekið fram að sótt hefur verið um undanþágu frá starfsleyfi fyrir hönd Laugafisks ehf., sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998, og hefur ráðuneytið fallist á að veita þá undanþágu þar til ný ákvörðun heilbrigðisnefndar um starfsleyfi liggur fyrir.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Heilbrigðisnefndar Vesturlands um endurnýjun starfsleyfis Laugafisks ehf. frá 1. nóvember er hér með felld úr gildi. Krafa kærenda um stöðvun atvinnurekstrar Laugafisks ehf. er ekki tekin til greina.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum