Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. september 2007 Dómsmálaráðuneytið

Gagnagrunnar með lagastoð og lúta eftirliti Persónuverndar

Vegna forsíðufréttar Fréttablaðsins sunnudaginn 9. september sl., þar sem lögmæti gagnagrunna greiningardeildar ríkislögreglustjóra er dregið í efa með vísan til erindis á þingi lögfræðinga, vill dóms- og kirkjumálaráðuneytið að fram komi:

Vegna forsíðurfréttar Fréttablaðsins sunnudaginn 9. september sl., þar sem lögmæti gagnagrunna greiningardeildar ríkislögreglustjóra er dregið í efa með vísan til erindis á þingi lögfræðinga, vill dóms- og kirkjumálaráðuneytið að fram komi:

Um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu gildir reglugerð nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu, með áorðnum breytingum. Er reglugerðin sett með skýrri lagastoð í samræmi við ákvæði 3. mgr. 19. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, i-lið 1. mgr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, sbr. lög nr. 15/2000, og 3. mgr. 45. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Það er því skýr lagaheimild fyrir starfrækslu gagnagrunna lögreglu þ.m.t. greiningardeildar embættis Ríkislögreglustjóra.

Ríkislögreglustjóri hefur rekið miðlæga gagnagrunna lögreglu í áraraðir, skv. lögum og reglum þar um. Má þar nefna málaskrá um kærur sem berast lögreglu um afbrot, dagbók lögreglu um erindi sem henni berast, skrá yfir handtekna menn og gagnagrunn þar sem skráðar eru upplýsingar um einstaklinga, hópa, félög, fyrirtæki eða annað sem tengist eftirfarandi brotaflokkum: a. fíkniefnum, b. barnaklámi, c. peningaþvætti, d. hryðjuverkum, e. fjármögnun skipulagðrar brotastarfsemi, f. ólögmætum flutningi fólks og loks aðrar skrár sem nauðsynlegar eru í þágu lögreglustarfa til að afstýra yfirvofandi hættu eða sporna við afbrotum.

Allir þeir gagnagrunnar sem ríkislögreglustjóri rekur hafa lagastoð, eru undir eftirliti Persónuverndar og á þá hefur reynt fyrir dómstólum. Meðferð og söfnun persónuupplýsinga hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra er í fullu samræmi við ofangreint.

Með setningu reglugerðar um greiningardeild nr. 404/2007 var ekki vikið frá ofangreindum heimildum, heldur kveðið á um skipulagsleg atriði og starfsemi greiningardeildarinnar. Greiningardeildin byggir á sömu heimildum og er háð sömu takmörkunum er gilda almennt um meðferð og söfnun persónuupplýsinga hjá lögreglu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum