Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. september 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Aukið heilbrigði - ábyrgð atvinnulífsins

Guðlaugur Þór Þórðarson

Morgunverðarfundur SVÞ

Aukið heilbrigði - ábyrgð atvinnulífsins

13. september 2007

 

Góðir gestir.

Mér er það sönn ánægja að fá tækifæri til ávarpa ykkur hér í dag. Ég fagna sérstaklega frumkvæðinu sem SVÞ og fyrirtækin, sem hér hafa tekið höndum saman, og hvetja nú til aukinnar hollustu og breyttra lífshátta í því skyni að bæta heilsufar þjóðarinnar. Framtakið er til mikillar fyrirmyndar og mjög í þeim anda sem mér hugnast sem ráðherra heilbrigðismála.

Ég lýsti því yfir við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra fyrr á árinu, að forvarnastarf á öllum sviðum yrði sá forgrunnur eða útgangspunktur sem ég tæki í störfum mínum sem heilbrigðismálaráðherra.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er einmitt lögð stóraukin áhersla á forvarnir á öllum sviðum. Þetta markmið setjum við okkur til að stuðla að heilbrigðari lífsháttum þjóðarinnar, til að bæta hag og heilsu allra Íslendinga.

Þetta gerist ekki af sjálfu sér og þetta gerist ekki þótt ráðherra óski þess.

Til að ná markmiðinu þurfa margir að vinna saman. Það þarf að laða menn til samstarfs á sviði forvarna og einmitt hér geta heilbrigðisyfirvöld gegnt ákveðnu lykilhlutverki.

Það er til dæmis í þessu sambandi mikilvægt að opna augu manna fyrir því að þótt breyttir lífshættir skili sér hægt, þá verða áhrifin varanleg, bæði fyrir samfélagið og borgarana, ef okkur tekst að ná árangri á fornvarnasviðinu. Þess vegna er það rétt sem segir í yfirlýsingu ykkar að aukið heilbrigði og betri lífsstíll eru eftirsóknarverð markmið fyrir alla Íslendinga.

Hver og einn þarf að taka mark á því þegar fram kemur í rannsóknum að íslenska þjóðin er að þyngjast og margir glíma við ofþyngd.

Við verðum að taka mark á því þegar sérfræðingar vara okkur við og hvetja til þess að menn hreyfi sig meira en gert er.

Við verðum að taka mark á því þegar sömu sérfræðingar vara sérstaklega við ofþyngd og vaxandi kyrrsetum íslenskra barna.

Ef við spyrnum ekki við fótum nú erum við að leggja drög að útgjaldasprengingu í íslenskri heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar og við verðum að opna augu fólks fyrir því, að varanlegur sparnaður í heilbrigðiskerfinu næst fyrst og fremst með bættu heilsufari sem flestra.

Þess vegna ber að fagna því að verslanirnar, sem nú hafa sameinast um að hvetja til aukinnar hollustu, skuli ætla að halda sérstaklega fram hollustuvöru, að þau skuli ætla að merkja þessar vörur sérstaklega, fræða viðskiptavini sína um hollar matarvenjur, og hvetja til aukinnar hreyfingar, svo eitthvað sé nefnt.

Það er líka mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir að þegar heilsufarið er annars vegar þá getur hver og einn borið verulega ábyrgð á líðan sinni.

Langstærstan hluta sjúkdómsbyrði og dauðsfalla í Evrópu má til dæmis rekja til sjúkdóma sem ekki eru þessir klassísku smitsjúkdómar heldur sjúkdómar sem við getum haft áhrif á með lifnaðarháttum okkar. 86% prósent dauðsfalla og um 77% sjúkdómsbyrðarinnar í Evrópu árið 2002 mátti rekja til sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma, krabbameins, lungnasjúkdóma og annarra sjúkdóma sem eiga það sammerkt að draga má verulega úr hættunni á þeim með aukinni hollustu og breyttum lífsháttum.

Til að undirstrika enn frekar hve þungt þessir sjúkdómar vega í sjúkdómsbyrði í Evrópu má nefna að bara hjarta- og æðasjúkdómarnir voru um 23% sjúkdómsbyrðarinnar í Evrópu fyrir fimm árum samkvæmt upplýsingum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.

Það er enda svo að áhættuþættirnir, sem taldir eru hafa mikið um það að segja hvort menn fá þessa sjúkdóma, eða ekki, eða sagt með öðrum orðum: þættirnir sem við getum haft áhrif á sjálf, eru þessir helstir:

Hár blóðþrýstingur, há blóðfita, reykingar, holdafar, mataræði, hreyfing og áfengisneysla


Allir þessir sjö þættir ráða miklu um heilsufar okkar, og ef við horfum til sjúkdómsbyrðarinnar sem þessir sjúkdómar valda þá sjá allir að til mikils er að vinna á sviði forvarna.
Ávinningurinn er ótvíræður ekki síst fyrir einstaklinginn sjálfan.

Þess vegna fagna ég því að verslunarfyrirtækin, sem hér hafa tekið höndum saman með Samtökum verslunar og þjónustu, skuli láta sig málið varða með þeim hætti sem hér er kynnt.

Mig langar að segja frá því að fyrr í sumar átti ég þess kost að ræða við prófessor John Martin frá University College í Bretlandi. Hann er einn fremsti og virtasti vísindamaðurinn í grunnrannsóknum hjarta- og æðasjúkdóma í Evrópu og ötull baráttumaður fyrir heilsusamlegum lífsháttum til að forða mönnum frá hjartasjúkdómum. Hann var hingað kominn á vegum Hjartaverndar til að kynna og hleypa af stokkunum, eins konar sáttmála um aðgerðir til að draga úr hjarta- og æðasjúkdómum.

Hann vakti athygli mína á því í fyrsta lagi, að þótt barátta gegn hjartasjúkdómum hefði skilað miklum árangri, mætti alls ekki slaka á forvarnaklónni.

Hann vakti líka athygli mína á þeim gríðarlega heildarkostnaði sem fellur á Evrópusambandslöndin árlega vegna hjarta- og æðasjúkdóma. 169 milljarðar Evra sagði hann að útgjöldin vegna hjarta- og æðasjúkadómanna væru á ári hverju í Evrópusambandslöndunum.

Það sem mér þótti hins vegar merkilegast við það sem vísindamaðurinn John Martin sagði var sú tröllatrú sem hann hafði á þýðingu forvarna í baráttu gegn hjarta- og æðasjúkdómum.

Góðir fundarmenn.

Undirskriftin hér í dag er vonandi til merkis um að augu okkar eru að opnast fyrir því að það er ekki sjálfsagt að skilgreina heilbrigðiskerfi vestrænna ríkja út frá sjúkdómum eingöngu.

Eins og ég hef rakið hér má rekja umtalsverðan hluta sjúkdóma og sjúkdómsbyrðarinnar til lifnaðarhátta okkar. Þess vegna fagna ég öllum tilraunum, allri viðleitni, sem felur í sér að auka áherslu á heilbrigði og þátt fólks í að taka ábyrgð á eigin heilsu.

Til lengri tíma spara slíkar aðgerðir mest og eru líklegastar til að auka lífsgæði fólks.

Á vegum heilbrigðisráðherra er nú að hefjast vinna að víðtækri stefnu í forvarnarmálum sem tekur á öllum helstu þáttum sem við þurfum að kljást við í bráð og lengd. Þung áhersla er þar lögð á að efla grasrótarstarf og verða frjáls félagasamtök virkjuð til þátttöku.

Dr. Inga Dóra Sigfúsdóttir, ráðgjafi heilbrigðisráðherra, hefur tekið að sér að vera formaður nefndar sem leiða mun stefnumótunina, en í nefndinni verða auk hennar fulltrúar aðila sem málinu tengjast: íþróttahreyfingarinnar, frjálsra félagasamtaka, sveitarfélaga, heilbrigðiskerfis, menntakerfis, félagsmálakerfis o.fl.

Nefndinni er einnig ætlað að vinna að nýju frumvarpi til laga um Lýðheilsustöð sem lagt verður fram á vorþingi 2008 en í þessu sambandi mun ég leggja áherslu á það meðal annars að gerðir verði þjónustusamningar við frjáls félagasamtök um forvarnarstarf, með árangursmælingum og mati.

Í þessu felst að mínu áliti sama hugsun og kemur fram í frumkvæðinu sem verslunarfyrirtækin og samtök ykkar eru með undirskriftinni hér í dag að hleypa af stokkunum.

Yfirlýsing ykkar mun vafalaust hvetja viðkomandi stjórnvöld til dáða til að efla forvarnir, hvort sem það snýst um heilsuátak og hreyfingu, merkingu matvæla, eða öflugri fræðslu í skólum landsins og er það vel.

Mestu skiptir þó að upplýsa borgarana í þessu landi um allt það sem þeir geta gert sjálfir til að bæta heilsufar sitt strax, eða stuðla með lifnaðarháttum sínum að betra og lengra lífi, án þess að láta sjúkdóma íþyngja sér á lífsleiðinni.

Talað orð gildir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum