Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. september 2007 Innviðaráðuneytið

Umhverfismál til umræðu á þingi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar

Nú stendur yfir 36. þing Alþjóðaflugmálastjórnarinnar í Montreal í Kanada sem haldið er á þriggja ára fresti. Þingið er hið fjölsóttasta til þessa en þar eru nú 1.150 fulltrúar frá 170 þjóðum saman komnir og frá Íslandi sækja þingið fulltrúar samgönguráðuneytis, Flugmálastjórnar Íslands og Flugstoða.

Fulltrúar Íslands á ársþingi hjá ICAO.
Fulltrúar Íslands á ársþingi hjá ICAO. Frá vinstri: Ásgeir Pálsson, Karl Alvarsson, Ragnhildur Hjaltadóttir, Taieb Chérif, Pétur Maack og Hallgrímur Sigurðsson.

Á þinginu verður kosið nýtt fastaráð ICAO. Norðurlöndin hafa skipst á að eiga fulltrúa í ráðinu og er nú komið að Íslendingum að bjóða fram fyrir þeirra hönd. Framboð Íslands var tilkynnt aðalframkvæmdastjóra ICAO, Taieb Chérif, síðastliðinn þriðjudag og fer kosningin fram á morgun, laugardag.

Fyrir utan venjuleg þingmál eru helstu málin til umfjöllunar á þinginu flugöryggismál, flugverndarmál og umhverfismál. Töluverður ágreiningur er um síðasta málaflokkinn aðallega milli Evrópuríkja og annarra þjóða um aðgerðir til að draga úr útblæstri frá flugvélum. Evrópuríkin með Evrópusambandið í forystu hafa lagt til að settir verði útblásturskvótar á flug til og frá Evrópu sem taki gildi 2011-12.

Auk fulltrúa aðildarríkja situr þingið fjöldi fulltrúa yfir 30 félagasamtaka á sviði flugmála eins og frá Alþjóðasamtökum áætlunarflugfélaga (IATA) Alþjóðasamtökum atvinnuflugmanna (IFALPA), Alþjóðasamtökum flugumferðarstjóra (IFATCA) og Samtökum einkarekinna flugumferðarþjónustuaðila (CANSO) og fleiri.

Þingið stendur til 28. september en íslensku fulltrúarnir skipta með sér að sitja viðeigandi fundi sem snerta málefni stofnana þeirra. Forseti þingsins er Jeffrey Shane frá Bandaríkjunum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum