Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. september 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Nýtt tölvukerfi fyrir Læknavaktina

Guðlaugur Þór Þórðarson

Nýtt tölvukerfi tekið í notkun fyrir Læknavaktina

28. september 2007

Kæru læknar og aðrir góðir gestir,

Mér er það sönn ánægja að vera viðstaddur þessa athöfn þar sem við ætlum að taka í notkun endurbætt tölvukerfi fyrir Læknavaktina.

Ég get fullyrt með áherslu, að aukin og bætt tölvuvæðing upplýsinga í heilbrigðiskerfinu hefur verið mér mjög ofarlega í huga þessa fáu mánuði sem ég hef setið í embætti. Ég tel að margt hafi verið gert á þessu sviði undanfarin ár en ég tel við þurfum að sækja fram á ýmsa vegu.

Ég hef kynnst tölvuvæðingu margra þátta í þjóðfélaginu, einkum í atvinnulífi og viðskiptum og held að við getum öll verið sammála um, að þar hafi orðið algjör umsnúningur á tiltölulega stuttum tíma, bæði sú mynd sem snýr að einstaklingum og ekki síður hvað varðar stjórnun fyrirtækja og stofnana.

Mér er alveg ljóst að í heilbrigðiskerfinu er um flókinn og erfiðan vanda að ræða, þegar kemur að tölvuvæðingu, enda mun fáum löndum, ef nokkrum, hafa tekist að leysa tölvuvæðingu sjúkraskráa svo að vel sé. Hugsanlega höfum við ætlað okkur of stór skref í einu í þessu sambandi. 

Ég er á þeirri skoðun að komið sé að því að við eigum að geta nálgast og sent létt og greiðlega upplýsingar innan heilbrigðisþjónustunnar, betur en hingað til hefur verið hægt.  Slíkt hlýtur að vera sjúklingum og þjónustunni í hag. Ég á hér við myndgreiningarnar en einnig rannsóknarniðurstöður, hjartalínurit, bólusetningar og svo ef til vill að lokum sjúkraskrána alla.

Því ekki einnig sameiginlegur grunnur um þætti sem gætu verið hættulegir, eins og lyfjaofnæmi. Segjum sem svo að ég sé með lífshættulegt ofnæmi fyrir einhverju lyfi. Er fráleitt að hugsa sér, að áberandi upplýsingar birtist um þetta á tölvuskjá heilbrigðisstarfsmanns, sem tæki á móti mér hvar sem er á landinu, jafnt hjá lækni sem ætlaði að gefa mér lyfið, en líka í apóteki sem ætlaði að selja mér það. Svona mætti nefna fleiri þætti. 

Að sjálfsögðu þarf að gera þetta varlega og með persónuvernd í huga, en að mínu mati felst mikil persónuvernd í samþættingu upplýsinga af þessum toga.

Mér er alveg ljóst að við erum að tala um hluti sem að þarf að taka í skrefum.  Fyrsta skrefið er grunnheilbrigðisupplýsingar, lágmarks upplýsingar, heilbrigðistölfræði til talninga og mats á starfsemi stofnana, þetta er að hluta í góðu lagi en þarf þó að bæta, þannig að við getum bæði stýrt peningaflæði og öðrum áherslum samkvæmt gagnlegum síendurnýjuðum magntölum. 

Þaðan er hins vegar stórt stökk í  næsta skref, í það að sjúkraskráin sjálf verði rafvædd eins og draumur manna stendur til, þar sem farið er úr nokkrum þúsundum alþjóðlegra flokkunarheita á sjúkdómum, aðgerðum og aðhlynningu og yfir í flokkun þar sem að hugtakaföldi skiptir hundruðum þúsunda. 

Ég hef lítillega kynnt mér þessi mál almennt og veit að rafræn sjúkraskrá hefur verið vandamál víða um lönd. Ég tel engu að síður að okkar góða land með tiltölulega viðráðanlegum fólksfjölda og háþróuðu tæknistigi, eigi jafnvel að geta náð forystu á þessu sviði. Við Íslendingar höfum átt í gegnum árin mjög dugmikla menn, bæði áhugamenn og atvinnumenn á sviði tölvufræða og tel fulla ástæðu til þess að fylgja þessu eftir af festu.  Öðruvísi verður hvort eð er ekki mögulegt að stjórna kerfinu svo vel sé né að halda uppi gæðum svo vel.

Ég tel að það sem við erum að taka þátt í hér í dag hjá Læknavaktinni sé hluti af eðlilegri og sjálfsagðri framþróun á þessu sviði.  Hérna hefur dugmikið fyrirtæki leitað eigin lausna á eigin þörfum.  Slíkt þarf að sjálfsögðu gerast innan einhverra ákveðinna gæðakrafna og staðla frá hendi hins opinbera um hvaða upplýsingar berast t.d. Landlækni, en að því slepptu finnst mér að fyrirtæki og stofnanir eigi að fá að þróa þetta sem þau best geta.  Um leið erum við öll sammála um það að tvíverknaður og þar af leiðandi aukinn kostnaður sé óæskilegur.

Ég vil óska Læknavaktinni til hamingju með þennan áfanga sem við tökum í notkun hér í dag. Ég vil einnig lýsa ánægju minni með starfsemi hennar í heild sinni, sem ég held að þrátt fyrir miklar annir og mikil afköst hafi hlotið almennt góða dóma fyrir þjónustu sína hjá þeim sem ég hef heyrt til.  Mín eigin reynsla er sú sama.

Takk fyrir.

Talað orð gildir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum