Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. október 2007 Heilbrigðisráðuneytið

30 ára útskriftarafmæli háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga við Háskóla Íslands

Guðlaugur Þór Þórðarson

30 ára útskriftarafmæli háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga

Hátíðarsalur Háskóla Íslands

2. október 2007

Kæri útskriftarafmælishópur og aðrir gestir!

Ég vil byrja á því að óska ykkur til hamingju með daginn!

Það er mér sönn ánægja að ávarpa ykkur hér í dag á 30 ára útskriftarafmæli fyrstu háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga við Háskóla Íslands en útskriftin markaði tímamót þar sem um var að ræða útskrift fyrstu hjúkrunarfræðinganna sem útskrifuðust með B.S. gráðu hér á landi.

Á degi sem þessum er ekki úr vegi að staldra við og minnast þeirra sem stóðu að baki þessarar námsleiðar fyrir hjúkrunarmenntun en það voru einstaklingar eins og María Pétursdóttir, Ingibjörg R. Magnúsdóttir og fleiri sem með dugnaði sínum, elju og framsýni sáu til þess að kennsla í hjúkrunarfræði fluttist yfir á háskólastig og stofnuð var námsbraut í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.

Einnig er vel við hæfi að minnast Dr. Guðrúnar Marteinsdóttur sem lést fyrir aldur fram en hún og var einn af brautreyðjendunum í þróun hjúkrunarmenntunar á háskólastigi hér á landi og tilheyrði þessum 30 ára útskriftarafmælishópi.

Kæru hátíðargestir!

Með því skrefi að kenna hjúkrunarfræði í háskóla urðum við í fararbroddi meðal þjóða í Evrópu. Við urðum jafnframt fyrirmynd annarra þjóða með því að ákveða að allt nám í hjúkrunarfræði yrði kennt í háskóla.

Árgangurinn sem útskrifaðist 1977 samanstóð af 14 nemendum og er gaman frá því að segja að tveir þessara nemenda eru samstarfsmenn mínir í dag, þær Ragnheiður Haraldsdóttir og Vilborg Ingólfsdóttir skrifstofustjórar í í heilbrigðisráðuneytinu.

Það má því með sanni segja að þessi árgangur hafi haft áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku innan heilbrigðiskerfisins og tekið þátt í því að rödd hjúkrunarfræðinga hefur heyrst skýrt og vel.

Frá því að námsbrautin var stofnuð hafa kennarar, nemendur og starfsfólk unnið mikið uppbyggingar- og þróunarstarf í kennslu og námskrárgerð, en ekki síður á sviði rannsókna. Rannsóknastofnun í hjúkrunarfræði tók til starfa árið 1997 og með tilkomu meistara- og doktorsnáms hefur enn frekar verið stuðlað að rannsóknavirkni við deildina. Mér skilst að nýlega hafi einnig verið stofnaður rannsóknasjóður til að efla rannsóknir doktorsnema við deildina.

Mikil fjölgun hefur orðið í deildinni frá því að fyrsti árgangurinn útskrifaðist. En skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir ráðuneytið á síðasta ári svo og skýrsla Félags Íslenskra hjúkrunarfræðinga benda til þess að betur má ef duga skal.

Skortur á heilbrigðisstarfsfólki er brýnt mál sem snýr ekki síst að stjórnvöldum. Einn þáttur í að koma á móts við þennan vanda er að tryggja að aðgangur að námi heilbrigðisstétta taki mið af mannaflaþörf heilbrigðisþjónustunnar. Endurskoðun á hjúkrunarfræðináminu er einnig mikilvægur þáttur í þessu sambandi. Í ljósi þessa beitti ráðuneytið sér fyrir því á síðasta ári að fjárveitingar yrðu auknar og nemendum í hjúkrunarfræði fjölgað við Háskóla Íslands og Háskólann á  Akureyri til að fullnægja aukinni eftirspurn. 

Á síðasta ári kallaði landlæknisembættið saman hóp til að ræða hvaða leiðir væru færar til að takast á við mannekluvandann. Hópinn skipa fulltrúar Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og hefur hópurinn verið að kanna meðal annars hvort hægt sé að auka enn við námspláss fyrir nemendur í hjúkrunarfræði og jafnvel taka inn nemendur tvisvar á ári. Einnig er fyrirhuguð viðamikil rannsókn á hindrunum í starfi hjúkrunarfræðinga.

Í þessu sambandi tel ég það einnig mjög mikilvægt að huga að bættri ímynd heilbrigðisstétta, ekki síst þeirra sem glíma við mikinn skort s.s. hjúkrunarfræðinga, og er ég reiðubúinn til samstarfs í þeim efnum.

Eins og sjá má þarf að leita fjölmargra leiða til að tryggja nægan mannafla í heilbrigðisþjónustunni, svo ná megi markmiðinu um bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma.

Kæru hátíðargestir!

Forvarnir og fræðsla skipa sífellt stærri sess í starfi heilbrigðisstétta. Ég tel það mikilvægt að nágast heilbrigðisþjónustana út frá forsendum heilbrigðis og hef því gert það að einu af mínum forgangsmálum að hefja vinnu að víðtækri stefnu í forvarnarmálum sem tekur á öllum helstu þáttum sem við þurfum að kljást við í bráð og lengd.

Afar mikilvægt er að hvetja almenning til að bera ábyrgð á eigin heilsu með því að upplýsa borgarana um allt það sem þeir geta sjálfir gert til að bæta heilsufar sitt og stuðla að betra og lengra lífi með heilbrigðum lifnaðarháttum. Hér eru hjúkrunarfræðingar í lykilhlutverki þar sem þeir eru í góðri aðstöðu til að fræða skjólstæðinga sína og almenning og þar sem starf þeirra byggir á heildrænni sýn á einstaklinginn og fjölskyldu hans.

Hjúkrunarfræðingar hafa mikið vægi í íslensku heilbrigðiskerfi. Þeir eru fjölmennasta fagstéttin í heilbrigðisþjónustunni og starfa á öllum sviðum þjónustunnar. Ábyrgð þeirra er mikil, störfin krefjandi og verkefnin verða sífellt fjölbreyttari og flóknari.

Kröfur um menntun, færni og sérhæfingu aukast stöðust meðal þeirra sem starfa á sviði heilbrigðisþjónustunnar.

Hjúkrunarfræðideildinni hefur tekist mæta vel að byggja upp vel menntaða, sjálfstæða og sterka fagstétt, til forystu fallinnar innan heilbrigðisþjónustunnar.

Ég hlakka til að heyra fulltrúa úr afmælisárganginum flytja erindi sitt hér á eftir og óska ykkur enn og aftur til hamingju með daginn. Ég vona að samstarf ráðuneytisins við hjúkrunarfræðideildina verði áfram jafn ánægjulegt og árangursríkt og það hefur verið fram til þessa.

Takk fyrir.

Talað orð gildir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum