Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. október 2007 Heilbrigðisráðuneytið

„Til bjargar í 30 ár“ - Afmælisfundur SÁÁ

Guðlaugur Þór Þórðarson

Afmælisfundur SÁÁ

„Til bjargar í 30 ár“

3. október 2007

Ágætu fundarmenn.

Ég vil byrja á því að óska ykkur og okkur öllum hjartanlega til hamingju með þennan áfanga í sögu SÁÁ og í sögu baráttu Íslendinga við áfengisvandann.

Þegar SÁÁ hóf starf sitt fyrir rúmum 30 árum voru ekki mörg úrræði í áfengismeðferð hér á landi. Nokkur hópur manna hafði farið í meðferð við áfengissýki á Freeport í Bandaríkjunum og þeir vildu opna fleirum leið til að fá sömu úrlausn og þeir höfðu sjálfir átt kost á. Það voru miklir eldhugar sem að þessu verki stóðu og stöndum við í mikilli þakkarskuld við þá menn sem sannarlega lyftu Grettistaki. Stofnun SÁÁ hefur orðið til þess að fleiri hafa átt kost á meðferð og meðferðin fyrir hvern og einn hefur orðið miklum mun ódýrari en ella hefði verið. Þá get ég ekki látið hjá líða að nefna hér sérstaklega þátt ,,heiðursmannanna“ og „kjarnakvennanna“ svokölluðu, eða þess fólks sem fengið hefur bata hjá samtökunum. Það er ekki ónýtt fyrir samtök á borð við SÁÁ að njóta stuðnings á borð við þann sem þessi hópur veitir.

Rannsókn sem SÁÁ lét framkvæma fyrr á þessu ári sýnir glögglega að meðferðarstarf þeirra nýtur sérlega mikils trausts meðal almennings – og kemur það alls ekkert á óvart. SÁÁ eru að sumu leiti ekki dæmigerð félagasamtök, en samt sem áður gott dæmi um ötula og mikilvæga vinnu sem frjáls félagasamtök vinna hér á landi. Mig langar að nefna hér sérstaklega viðleitni SÁÁ til að leggja sig eftir meiri rannsóknarmiðaðri þekkingu á öllum sviðum áfengis- og vímuefnamála og þá sérstaklega hvað varðar forvarnir. Ráðstefnan sem SÁÁ hefur staðið fyrir undanfarna daga er skínandi dæmi um þetta viðhorf, þar sem erlendir og hérlendir sérfræðingar hafa komið saman til að efla enn frekar þekkingu á þessu sviði.

Síðan SÁÁ hóf starfsemi sína hefur neysla annarra vímuefna en áfengis því miður vaxið og því hafa samtökin látið sig varða fleiri og fjölþættari vandamál nú en áður var. Með öðrum orðum, SÁÁ hefur þróað starfsemi sína í takt við þarfir samfélagsins. Þannig hefur sú meðferð sem í byrjun var fyrst og fremst vegna áfengisfíknar nú þróast í meðferð við fíkn vegna annarra vímugjafa og einnig hefur SÁÁ boðið meðferð vegna spilafíknar. Mjór er mikils vísir! Þetta sýnir kannski betur en margt annað að afmælisbarnið er síungt.

Svo lengi sem áfengi og önnur vímuefni eru til verður þörf á meðferðarstörfum. En með auknum áherslum á fyrsta stigs forvarnir verður vonandi sífellt minni þörf fyrir meðferð. Allir myndu fagna slíkri þróun. Það er t.a.m. mikil og góð heilsuefling og forvarnavinna unnin með grunnskólabörnum og foreldrum þeirra, en framhaldsskólarnir þurfa og munu fá, aukinn stuðning við sín forvarnastörf.

Gömul erlend dæmisaga segir frá þorpsbúa sem fer að sækja sér vatn út í á þegar hann sér einstakling berast meðvitundarlaus með straumnum. Auðvitað stekkur þorpsbúinn út í til að bjarga viðkomandi en hann er ekki fyrr kominn hundvotur upp á bakka fyrr en hann sér annan mann berast niður með ánni. Svona gengur þetta um stund: Sífellt fleiri berast niður með straumnum og þorpsbúinn kallar loks á vini sína til að hjálpa sér við björgunarstörfin. Þegar allir eru orðnir úrvinda af þreytu stendur þorpsbúinn á bakkanum, starir upp með ánni og hristir hausinn. Einn úr hópnum spyr pirraður hvort hann ætli ekki að halda áfram að hjálpa fólkinu? ‘Nei’, segir þorpsbúinn. ‘Þið haldið áfram ... ég ætla að fara upp eftir ánni til að sjá af hver er að kasta þeim út í.’

Góðir gestir!

Heilbrigðiskerfi vestrænna ríkja hefur í gegnum tíðina verið skipulagt út frá sjúkdómum. Í nútímasamfélagi má rekja stóran hluta þeirra sjúkdóma sem við er að etja til lifnaðarhátta. Mikilvægt er að auka áherslu á heilbrigði og þátt fólks í að taka ábyrgð á eigin heilsu. Slíkar aðgerðir eru líklegastar til að auka lífsgæði fólks.

Vegna mikilvægi forvarna er mikilvægt að taka árangursmat til grundvallar þegar ákvarðanir eru teknar um fjármögnun á einstökum forvarnarverkefnum. Við þurfum að komast að því hvaða aðferðir virka best og styðja þær enn betur. Í því samhengi eru ráðstefnur eins og sú sem SÁÁ hefur staðið fyrir undanfarna daga til fyrirmyndar og vonandi verður hún til þess að auka enn frekar þekkingu og meðvitund sérfræðinga og ráðamanna í þeirri vinnu sem framundan er í þessum mikilvæga málaflokki.

Það traust sem SÁÁ nýtur meðal íslensku þjóðarinnar má rekja til þess árangurs sem samtökin hafa náð. Ég hef gjarnan tekið SÁÁ sem gott dæmi um það sem frjáls félagasamtök geta gert og það leynist engum sem til þekkja að í SÁÁ leynist kraftur sem einkennir samtök af þessu tagi. Í allri umræðu um mikilvægi þess að bjóða upp á fjölbreyttari rekstrarform, er ekki síst verið að tala um að nýta þennan kraft sem býr í frjálsum félagasamtökum eða hinum svokallaða þriðja geira.

Við höfum sett markið hátt í heilbrigðismálunum. Við ætlum að ná árangri og til þess að svo megi verða verðum við læra af fenginni reynslu. Þar kemur til mikilvægi þess að skilgreina og nota rétta mælikvarða, því það er besta leiðin til þess læra og þróast inn á þær brautir sem skila okkur sem bestum árangri.

Árangur frjálsra félagasamtaka er ekki eingöngu bundinn við heilbrigðismál. Þar nægir að líta til þess sem hefur verið að gerast í menningarmálum og íþróttum svo dæmi séu tekin. Það sem hefur kannski vantað frá stjórnvöldum er lagaumgjörð, stefnumótun og heildarsýn í málefnum þriðja geirans. Það er ljóst að til þess að ná þeim árangri sem stefnt er að þarf mælingar og eftirlit, óháð því hvort um er að ræða samninga stjórnvalda við opinbera aðila, einkageirann eða þriðja geirann.

Í ljósi þessa hef ég ákveðið að leggja í vinnu til að móta stefnu um þriðja geirann innan heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Eva Þengilsdóttir leiðir þá vinnu, en hún hefur nýlega lokið MPA námi frá Háskóla Íslands og fjallaði meistararitgerð hennar um þriðja geirann, takmarkanir og tækifæri. Að sjálfsögðu verður við vinnu þessa unnið með samtökum á borð við SÁÁ.

Að þessu sögðu árétta ég að það þarf að nota næstu vikur til að klára samninga heilbrigðisráðuneytisins við SÁÁ og þar er mikilvægt að ekki sé tjaldað til einnar nætur.

Að lokum vil ég enn og aftur óska ég SÁÁ til hamingju með afmælið og þakka kærlega fyrir mig.

Talað orð gildir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum