Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. október 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vaxandi áhyggjur af sjófuglastofnum í Norðurhöfum

Lundar
Lundar

Ótvíræðar en flóknar breytingar eru að eiga sér stað á vistkerfi sjávar sem undirstrikar enn frekar en áður þörf fyrir að stjórna betur þáttum sem hafa áhrif á sjófugla og unnt er að stjórna, svo sem fiskveiðum í atvinnuskini, olíumengun, nytjum á sjófuglum og mengun af völdum eiturefna. Þetta er niðurstaða hóps sjófuglafræðinga sem hittist nýlega í Færeyjum og Náttúrufræðistofnun Íslands á aðild að.

Þá segir einnig í niðurstöðum vísindamannanna að víðtækar umhverfisbreytingar sem rekja megi til breytinga á loftslagi hafa raskað fæðuvali sjófugla í Norðurhöfum.

Kreppuástand ríkir meðal sjófugla, t.a.m. hjá fýl, ritu, kríu, langvíu og lunda, á víðáttumiklu svæði, eða allt frá Íslandi til Færeyja, Skotlands og Noregs. Fæðuskortur hefur valdið afkomubresti á yfirgripsmiklu svæði síðustu fjögur ár. Viðvarandi ástand getur valdið hruni í stofnum þegar til lengri tíma er litið.

Sérfræðingarnir telja breytingarnar af völdum ýmissa samverkandi þátta, bæði náttúrulegra sveiflna í loftslagi og fyrir áhrif frá manninum. Loftlagsbreytingar hafa snert lykiltegundir í vistkerfi sjávar og er smávaxna krabbadýrið rauðáta Calanus finmarchicus ein slíkra lykiltegunda í lægri þrepum fæðukeðju sjávar. Rauðátuna er nú að finna norðar en hingað til en hún er nær horfin úr syðri hlutum NA-Atlantshafs þar sem sjófuglar eru í vanda.

Sjá frétt Náttúrufræðistofnunar Íslands.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum