Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. október 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nýjar íbúðir fyrir fólk sem býr við geðfötlun

Heimsókn félagsmálaráðherra á LindargötuJóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra heimsækir í dag fimm íbúa í nýjum íbúðum fyrir geðfatlaða við Lindargötu í Reykjavík.

Markmið heimsóknarinnar er að óska íbúum til hamingju með nýtt heimili en einnig að vekja athygli á alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum, lýsa samstöðu með þeim sem búa við geðröskun og styrkja baráttu þeirra fyrir mannréttindum.

Íbúðirnar við Lindargötu eru fyrstu nýju búsetuúrræðin sem tekin eru í notkun í Reykjavík samkvæmt átaki í þjónustu við geðfatlað fólk, stefnu og framkvæmdaáætlun ráðuneytisins 2006–2010. Félagsmálaráðuneytið hafði áður tekið yfir þjónustu við 17 einstaklinga, sem Landspítali – háskólasjúkrahús veitti áður. Á landsbyggðinni hafa þegar verið teknar í notkun 14 íbúðir.

Framlag félagsmálaráðuneytisins til stofnkostnaðar vegna íbúðanna er tæplega 100 milljónir króna.

Framkvæmd átaksverkefnisins er í höndum verkefnisstjórnar sem Ásta R. Jóhannesdóttir alþingismaður veitir forystu. Verkefnisstjórnin er skipuð fulltrúum frá félagsmálaráðuneyti og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti sem hefur tryggt samstöðu og samþættingu innan stjórnsýslunnar.

Íbúðirnar við Lindargötu voru tilbúnar til notkunar í lok júní í sumar og íbúar fluttu inn í júlímánuði og hafa síðan verið að koma sér fyrir. Húsnæðið er bjart og fallegt og frágangur til fyrirmyndar. Um er að ræða sex íbúðir sem keyptar hafa verið í samstarfi við Brynju – Hússjóð Öryrkjabandalags Íslands. Búsetuþjónusta er veitt í fimm íbúðum en sjötta íbúðin mun verða nýtt sem starfsmannaaðstaða og sameiginlegt rými eftir þörfum íbúa. Fyrst um sinn verður um sólarhringsþjónustu að ræða en gert er ráð fyrir að unnt verði að fella niður næturvakt þegar þjónustan er komin í fastar skorður. Dagleg framkvæmd þjónustunnar verður á vegum Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík. Guðrún Einarsdóttir veitir þjónustunni forstöðu.

Stefna félagsmálaráðuneytisins í málefnum geðfatlaðra, sem átakið byggir á, er unnin í samstarfi við notendur þjónustunnar, hagsmunafélög geðfatlaðs fólks, sérfræðinga og fagfólk starfandi við málaflokkinn.  

Framtíðarsýn stefnunnar er að þeir sem búa við fötlun eigi, jafnt og aðrir, kost á stuðningi til sjálfstæðis og lífsgæða svo þeir fái notið sín sem fullgildir þegnar samfélagsins á forsendum eigin getu og styrkleika og njóti virðingar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum