Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. október 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Einfaldari reglur og upplýsingar þjónustustofnana

Einfaldari reglur og markvissar upplýsingar þjónustustofnana til sjúklinga er happadrýgri en stofnun opinbers embættis talsmanns sjúklinga að mati heilbrigðisráðherra. Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, þegar hann svaraði fyrirspurn frá Þorvaldi Ingvarssyni um að stofna embættis umboðsmanns sjúklinga. Ráðherra svaraði fyrirspurninni svona: ?Virðulegi forseti. Mér hefur borist fyrirspurn frá háttvirtum þingmanni, Þorvaldi Ingvarssyni um hvort ég hafi í hyggju að koma á fót embætti umboðsmanns sjúklinga.

Ég tel að háttvirtur þingmaður veki með spurningu þessari athygli á mjög mikilvægu máli. Ég skil spurningu hans á þann veg, að þörf sé á því, að sjúklingar geti leitað sér aðstoðar innan heilbrigðis- og tryggingakerfisins, þar sem oft getur verið um mjög flókna ferla að ræða, og þeir því átt í erfiðleikum með að sækja rétt sinn eða aðrar upplýsingar. Þjónustan getur virst mörgum sem völundarhús.

Ég tel að þetta verkefni megi nálgast á ýmsa vegu, jafnvel án stofnunar nýs opinbers embættis. Ég hef því í hyggju að beita mér fyrir margs konar einföldun á þeim reglum sem að sjúklingum snúa, en slík einföldun er eins og kunnugt er í anda stefnu núverandi ríkisstjórnarinnar.

Ég vil í þessu sambandi minna á að nefnd er að hefja störf um einföldun á greiðsluþátttöku sjúklinga. Einnig verður farið í að einfalda aðra þá þætti sem að sjúklingum snúa. Ekki síst er mikilvægt að góðar upplýsingar til sjúklinga eða aðstandendur þeirra liggi fyrir hjá þeim stofnunum, þar sem fólk þarf að leita bóta, réttinda, upplýsinga eða annars réttar síns, bæði innan sjúkratrygginga og almannatrygginga.

Ég hef einnig í huga að bæta aðkomu sjúklinga að ýmsum ákvarðanatökum innan heilbrigðiskerfisins, þannig að rödd hins almenna borgara komi vel fram. Slíkt er að sjálfsögðu forsenda þess, að þjónustan sé ásættanleg fyrir alla.

Frekari útfærsla á þessum þáttum er nú þegar í vinnslu, og óhjákvæmilega tengist hún þeirri vinnu, sem í gangi er um tilfærslu verkefna milli ráðuneyta, en hún mun liggja mun fyrir lok þessa árs.

Ég vil í þessu sambandi minna á, að sé hins vegar um að ræða faglegar kvartanir eða kærur á heilbrigðisstarfsmenn eða heilbrigðisstofnanir, þá er landlæknir lögbundinn móttakandi á slíku, hafi kvörtunum ekki verið sinnt innan viðkomandi stofnana.

Virðulegi forseti.

Svar mitt til háttvirts þingmanns er því það, að ég hef ekki í hyggju að koma nýju embætti á laggirnar að svo stöddu, en mun nálgast vandann á annan hátt. Ég vona að þessi orð mín svari nægilega fyrirspurn háttvirts þingmanns.

(Talað orð gildir)?



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum