Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. október 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Þórunnar Sveinbjarnardóttur á ráðstefnunni Landupplýsingar 2007

Ágætu ráðstefnugestir,

Ég vil þakka fyrir þetta tækifæri að fá að ávarpa þessa haustráðstefnu LÍSU-samtakanna, Landupplýsingar 2007.

Í lok fyrri viku stóð umhverfisráðuneytið fyrir fimmta Umhverfisþingi og hinu langfjölmennasta til þessa. Mikil þátttaka og líflegar umræður á þinginu undirstrikuðu í mínum huga mikilvægi umhverfismála í umræðunni og vitund þjóðarinnar. Ég tel að þessi umræða muni enn eflast, við gerum okkur í auknum mæli grein fyrir verðmæti náttúrunnar og mikilvægi þess að ganga vel um umhverfið í öllum okkar athöfnum.

Til þess að stjórnvöld standi undir kröfu um aukna umhverfisvernd þurfa að liggja fyrir góðar upplýsingar og góð gögn. Ef við höfum ekki gott yfirlit yfir ástand og þróun helstu umhverfisþátta, þá vitum við lítið hvaða áhrif aðgerðir okkar hafa og hvernig okkur miðar. Í nútíma stjórnsýslu er í auknum mæli spurt hvar hlutirnir eru og í hvaða samhengi, t.d. við náttúru eða náttúruauðlindir. Við þurfum að geta spurt og fengið svör við flóknari spurningum en áður um sambúð manns og náttúru. Mikilvægi landupplýsinga er raunar ekki bundið við umhverfismál, heldur fer notkun þeirra og þýðing vaxandi á flestum sviðum. Til að mæta þessum þörfum nútímans þarf stjórnkerfið jafnt sem einkamarkaðurinn að geta brugðist hratt við breyttum aðstæðum og tækni, t.d. með stöðlum og samræmdum vinnureglum.

Á sviði umhverfismála er ljóst að öflun og miðlun grunngagna um náttúru og umhverfi er lykilverkefni. Við Íslendingar erum að mörgu leyti eftirbátar nágrannaríkja okkur í þessu, enda býr hér fámenn þjóð í stóru landi og mikið verk að kortleggja náttúrufar til lands og sjávar. Það þarf að efla gagnaöflun, en það er ekki síður mikilvægt að tryggja að landfræðileg gögn sem ríki og sveitarfélög búa yfir séu aðgengileg, bæði fyrir stjórnvöld og almenning. I því skyni þarf m.a. að koma á einfaldari og skilvirkari samskiptum á milli upplýsingakerfa opinberra stofnana.

Fram hefur komið, meðal annars hjá LÍSU samtökunum, að þörf sé á átaki til að efla og byggja upp faglega þekkingu hér á landi á sviði landupplýsinga, þar sem fagmennska, öryggi og gæði eru lykilhugtök. Slík þekking þarf að ná til ráðamanna og almennings jafnt sem sérfræðinga til að tryggja góðan árangur. Ráðstefna eins og sú sem haldin er hér í dag er góður vettvangur til þess að efla slíkt.

En það er ekki nóg að huga að tæknilegum og faglegum þáttum varðandi gagnamiðlun og uppbyggingu upplýsingatækni; það þarf jafnframt að stuðla að því að landupplýsingar verði með markvissum hætti nýttar við ákvarðanir í stjórnkerfinu.

Eftir talsverðan undirbúning hefur Evrópusambandið samþykkt tilskipun um grunngerð landupplýsinga í Evrópu, INSPIRE-tilskipunina svokölluðu. Markmið INSPIRE er að samræma og samnýta landfræðileg gögn í Evrópu og þá einkum á sviði umhverfismála. Eitt af lykilatriðum tilskipunarinnar er að landupplýsingar verði aðgengilegar án hindrana fyrir almenning og stjórnvöld og er megináherslan lögð á stöðlun og miðlun upplýsinga.

INSPIRE verður væntanlega innleidd á Íslandi á grundvelli EES-samningsins og hafa aðildarlönd tíma fram til 15. maí 2009 til þess. Augljóst er að tilskipunin mun hafa veruleg áhrif á alla þá er vinna með landupplýsingar hér á landi, en ekki síst verða notendur varir við bætt aðgengi að upplýsingum. Umhverfisráðuneytið mun vinna að þessu verkefni í samvinnu við alla þá sem málið kann að varða, sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki. Þá vænti ég þess að LÍSU-samtökin muni gegna hlutverki á sviði fræðslu og samvinnu við innleiðingu þessarar tilskipunar um grunngerð landupplýsinga.

Nýjar áskoranir og mikilvæg verkefni á sviði umhverfismála eru framundan og þar munu landfræðileg gögn um náttúru Íslands gegna mikilvægu hlutverk. Mikilvægt er að fylgjast vel með því sem er að gerast í nágrannalöndum okkar og því er mjög ánægjulegt að við skulum hér í dag hafa erlenda fyrirlesara þá Mauro Salvemini forseta EUROGI, og Knut Flåten forstjóra norsku kortastofnunarinnar Statens Kartverk.

To our guests from abroad, whose names I just mentioned: I just noted your presence here and welcomed you to this conference. It is vital for us Icelanders to follow what is going on in the field of geographic information in our neighbouring countries and at the European level, so we look forward to listen to you today. We do of course also look forward to all the other presentations as well.

Að lokum óska ég LÍSU samtökunum alls hins besta í mikilvægu starfi og vona að ráðstefnan Landupplýsingar 2007 verði bæði gagnleg og til ánægjuauka.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum