Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. október 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Samningur staðfestur um sjúkraflutninga á Austurlandi

Guðlaugur Þór Þórðarson hefur staðfest samning Heilbrigðisstofnunar Austurlands við Fjarðabyggð en samkvæmt honum tekur Slökkvilið Fjarðabyggðar að sér sjúkraflutninga í bæjarfélaginu allt frá Mjóafirði til Stöðvarfjarðar.

Heilbrigðisstofnunin mun eftir sem áður sjá um sjúkraflutninga á eftirtöldum stöðum: Á Vopnafirði (1 sjúkrabíll), Seyðisfirði (1 sjúkrabíll), Breiðdalsvík (1 sjúkrabíll), Djúpavogi (1 sjúkrabíll og annar til vara) og Egilsstöðum (2 sjúkrabílar). Samningurinn gildir frá 1. júlí sl. til og með 31. desember 2010.

Samningsfjárhæðin er 38 milljónir króna á ári. Farið hefur verið í um 360 sjúkraflutninga í Fjarðabyggð árlega og eru þá meðtaldir 15 flutningar frá Fjórðungssjúkrahúsinu Neskaupsstað á flugvöllinn á Egilsstöðum. Samkomulag er um að Fjarðabyggð geti óskað eftir að óháður aðili geri úttekt á beinum kostnaði við sjúkraflutninga og vaktþjónustu að teknu tilliti til samlegðaráhrifa samningsins. Verði slík úttekt gerð skal hún taka til framkvæmdar samningsins til ársloka 2008.

Slökkvilið Fjarðabyggðar rekur Öryggismiðstöð á Reyðarfirði til að sinna íbúum sveitarfélagsins og fyrirtækjum á svæðinu, þar á meðal álverinu á Reyðarfirði, en Alcoa Fjarðaál og Fjarðabyggð hafa gert með sér samstarfssamning um rekstur 12 manna atvinnuslökkviliðs á Austurlandi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum