Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. nóvember 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Lýðheilsa er fyrir alla

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar

Ráðstefna Samtakanna 78 um Lýðheilsu

3. nóvember 2007

Góðir ráðstefnugestir

Það er mér sönn ánægja að fá tækifæri til að vera með ykkur hérna í dag og ræða lýðheilsu og hvernig meðal annars heilsuefling og forvarnir geta stuðlað að bættri lýðheilsu Íslendinga.

Að því gefnu að forvarnir og heilsuefling séu tvær hliðar á sama peningi og allar forvarnir stuðli að heilsueflingu og að heilsuefling sé forvörn, kýs ég að nota hugtakið heilsuefling yfir hvort tveggja þar sem það er jákvæðara og endurspeglar betur þá vinnu í stefnumótun í heilsueflingu, sem ég hef hrundið af stað í heilbrigðisráðuneytinu ? og ég vík nánar að síðar.

Þá stefnu kýs ég með sömu rökum að kalla ?heilsustefnu? í stað ?forvarnastefnu?.

Heilbrigðiskerfi vestrænna ríkja hafa í gegnum tíðina verið skipulögð og skilgreind út frá sjúkdómum og vanheilsu. Í nútíma samfélagi má rekja stóran hluta þeirra sjúkdóma sem við er að etja til lifnaðarhátta. Mikilvægt er að auka áherslu á heilbrigði og þátt fólks í að taka ábyrgð á eigin heilsu. Í því samhengi er í fyrsta lagi nauðsynlegt að færa áhersluna í auknum mæli yfir á umræðu um heilbrigði og þá þætti sem stuðla að því, í stað þess að horfa fyrst til afleiðinga vanheilsu.

Í annan stað er nauðsynlegt að heilbrigðiskerfi okkar auki sjálfræði notenda þess með því að treysta á ábyrgð þeirra fyrir eigin heilsu. Treystum notendum kerfisins fyrir að taka sjálfstæðar og upplýstar ákvarðanir er kemur að málum er varða þeirra eigin heilsu. Slíkt traust endurspeglar sanna þjónustu og virðingu fyrir fólki auk þess sem slíkt traust færir notendum vald sem virkar batahvetjandi.

Við lifum í hröðum og síbreytilegum heimi þar sem við stöndum frammi fyrir ógnunum við heilsufar og verkefnum tengdum lýðheilsu sem ekki voru til staðar fyrir örfáum árum. Breyttu þjóðfélagi fylgja aukin lífsgæði, fleiri tækifæri og betri lífskjör en við verðum jafnframt að horfast í augu við og taka á þeim fylgikvillum sem fylgja breytingunum. Ég nefni, m.a. aukna kyrrsetu, aukið áreiti, breytt mataræði og aukna fíkniefnaneyslu sem nokkra þá orsakaþætti sem leitt hafa af sér m.a. offitu og aukna tíðni geðraskana.

Það ber einnig að horfa til þess að félagslegt skapalón okkar samfélags hefur breyst verulega á undanförnum árum og áratugum. Fjölskyldumynstur og lífstíll einstaklinga er nú mun fjölbreyttari en áður tíðkaðist sem er á margan hátt gott. En allar breytingar krefjast tíma. Aðlögunar samfélagsins. Slíkan tíma eiga þeir hópar sem berjast fyrir breyttu samfélagi sjaldan. Markmið ráðstefnunnar í dag er einmitt meðal annars að svara þeirri spurningu hvort samkynhneigðir séu sérstakur hópur sem þurfi að huga að í lýðheilsumálum Íslendinga, og ef svo er hvaða aðferðrir séu árangursríkastar til þess að ná til hópsins með tilliti til forvarna og annarar þjónustu heilbrigðiskerfisins.

Minnihlutahópar í samfélaginu hafa í gegnum tíðina verið hvati þjóðfélagsbreytinga. Það eru einmitt samtök eins og ykkar, Samtökin 78, sem hafa spurt áleitinna spurninga og knúið á um breytingar og valdið því að samfélög hafa endurskoðað gildi sín og viðmið og þróast. Það er mín skoðun að samtök sem ykkar séu okkur sem heild afar mikilvægt aðhald. Ég tel það einnig vera grundvallaratriði að við reynum að temja okkur að sjá það sem við eigum sameiginlegt sem manneskjur áður en við drögum hvert annað í dilka byggt á því hvað skilur okkur að.

Lýðheilsa er einn þeirra málaflokka sem við eigum sameiginlegan. En þrátt fyrir þau fögru orð hafa margar rannsóknir sýnt að samkynhneigðir búa við lakari lýðheilsu en gagnkynhneigðir. Nýleg rannsókn frá Rannsóknum & greiningu, meðal nær 10 þúsund framhaldsskólanema á Íslandi leiðir til að mynda í ljós sláandi niðurstöður.

Glæra 1
Hlutfall framhaldsskólanema sem segja líkamlega heilsu sína góða eða mjög góða

Þegar spurt var um líkamlega heilsu svöruðu ríflega 76% gagnkynhneigðra að hún væri góð eða mjög góð en um 64% samknyhneigðra.

Glæra 2
Hlutfall framhaldsskólanema sem telja andlega heilsu sína góða eða mjög góða

Þegar spurt var um andlega heilsu svöruðu 79% gagnkynhneigðra að hún væri góð eða mjög góð en liðlega 63% samkynhneigðra
sögðu svo vera. Þegar spurt var um hversu oft síðastliðna12 mánuði ungmennin hefðu leitað til geðlæknis eða sálfræðings kom í ljós
að hlutfall samkynhneigðra sem leituðu þeirrar þjónustu var mun hærra en meðal gagnkynhneigðra.


Glæra 3
Hlutfall framhaldsskólanema sem hafa leitað til geðlæknis eða sálfræðings

4.5% gagnkynhneigðra höfðu leitað einu sinni eða oftar til geðlæknis á meðan 9.4% samkynhneigðra höfðu leitað þeirrar þjónustu. Sömu tölur vegna sálfræðiþjónustu voru um 10% hjá gagnkynhneigðum og um 20% hjá samkynhneigðum. Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa það til kynna að við þurfum að huga sérstaklega að samkynhneigðum þegar kemur að lýðheilsumálum

Ríkisstjórnin leggur þunga áherslu á heilsueflingu þjóðarinnar. Við höfum sett okkur það meginmarkmið að stuðla að heilbrigðari lífsháttum. Þetta markmið setjum við okkur af því að við trúum því að heilbrigði sé undirstaða lífsfyllingar og ánægju í lífinu. Við viljum gefa fólki tækifæri til að bæta hag sinn og heilsu. Þetta gerist ekki af sjálfu sér og þetta gerist ekki þótt ríkisstjórn, ráðherra, eða sérfræðingar á hans vegum óski þess.

Til að ná árangri þarf samvinnu og frumkvæði á sviði heilsueflingar og það stendur upp á marga aðila að laða menn til samstarfs á þessum sviði. Hér hef ég lagt ríka áherslu á að við eflum grasrótarstarf og öll okkar vinna í tengslum við heilsueflingarstarfið tekur mið af því. Ný heilsustefna, sem ég kýs að nefna stefnu um heilsueflingu þjóðarinnar, verður mótuð lárétt.

Það sem ég á við með því verður ef til vill best lýst best með þessari mynd.

Lárétt heilsustefna og framkvæmdaáætlunGlæra 4
Stefnan, framkvæmdaáætlun hennar og framkvæmdin sjálf er unnin í sem mestri ´láréttri? samvinnu fulltrúa ráðuneytisins og stofnana þess og fulltrúa borgarlegs samfélags. Með slíkum vinnubrögðum fær stefnan breitt ?eignarhald? og verður því að mínu mati líklegri til að ná þeim árangri sem við leitum eftir. Þessa vinnu innan ráðuneytisins leiða Dr. Inga Dóra Sigfúsdóttir og Héðinn Unnsteinsson. Þau hafa þegar hafist handa við að draga upp grunnþætti stefnumótunarferlisins.

Auk hinnar 'láréttu' nálgunnar vil ég deila með ykkur annari mynd sem lýsir því hvernig við höfum hugsað okkur grunnþætti heilsustefnu þjóðarinnar

Flokkun grunnþátta heilsustefnuGlæra 5
Eins og ég sagði hér áðan er það alveg ljóst að heilsustefnan og framkvæmd hennar verður unnin í samvinnu. Einnig verður tekið fullt tillit til þeirrar vinnu sem þegar hefur farið fram á vettvangi sveitarfélaga og í grasrótinni. Hugmyndin er að gera tilraun til að samhæfa reynslu okkar, stefnu og aðgerðir. Því að með slíkri samstöðu getum við ekki aðeins bætt heilsufar þjóðarinnar heldur getum við orðið öðrum þjóðum fyrirmynd.

Lýðheilsa hverrar þjóðar er afar mikilvæg. Undirstaða athafna okkar og atlætis. Áhrifaþættir lýðheilsu eru heilsufarslegir, félagslegir, efnahagslegir. Snerta skipulagsmál, samkiptamynstur og þjóðfélagsgerð. Við verðum að opna augu fólks fyrir því, að öflugt samfélag byggir á góðu heilsufari og góðri líðan sem flestra. Með það í huga get ég lofað ykkur að ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að þjóna hagsmunum lýðheilsu Íslendinga, hvort sem það er með aukinni áherslu á lýðheilsu einstakra hópa ellegar alls samfélagsins. Því þegar öllu er á botninn hvolt er það skylda okkar að reyna ávallt að hugsa út fyrir okkur sjálf og í samkennd skilgreina okkur víðar en einstakling. Það er á slíkri hugsun sem umburðarlynd og sterk samfélög er byggð.

Takk fyrir.

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum