Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. nóvember 2007 Innviðaráðuneytið

Fjarskiptabúnaður endurnýjaður í Vaktstöð siglinga

Fjarskiptabúnaður í Vaktstöð siglinga verður endurnýjaður á næstu mánuðum en skrifað var undir samning við austurríska fyrirtækið Frequentis í gær. Tilboð bárust frá fjórum aðilum.

Skrifað undir samning um nýjan fjarskiptabúnað fyrir Vaktstöð siglinga.
Skrifað undir samning um nýjan fjarskiptabúnað fyrir Vaktstöð siglinga.

Kristján L. Möller samgönguráðherra, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, og Peter Habert, sölustjóri Frequentis, skrifuðu undir samninginn í gær að viðstöddum fulltrúum Siglingastofnunar, Vaktstöðvarinnar, Ríkiskaupa og fleiri.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar er rekin samhliða stjórnstöð Vaktstöðvarinnar og í sama húsi við Skógarhlíð í Reykjavík. Stöðin notar umfangsmikil fjarskiptakerfi til að sinna verkefnum sínum en hlutverk Vaktstöðvarinnar er meðal annars að veita skipum sem sigla um íslenska efnahagslögsögu ýmsa öryggisþjónustu, svo sem vöktun og eftirlit sjálfvirks tilkynningakerfis skipa, móttaka og miðlun tilkynninga frá skipum sem flytja hættulegan og/eða mengandi varning, móttaka og miðlun neyðarkalla auk tilkynninga um óhöpp eða slys á sjó, móttaka og miðlun tilkynninga frá farþegaskipum vegna talningar og skráningar farþega, vöktun alþjóðlegs neyðar- og öryggisfjarskiptakerfis skipa og alþjóðlegs viðvörunarkerfis skipa og skráning skipa sem falla undir hafnarríkiseftirlit.

Fjarskiptabúnaðurinn er kominn nokkuð til ára sinna og var talið nauðsynlegt að endurnýja meginhluta búnaðarins og þar með senda og viðtæki á um 30 strandastöðvum víðs vegar um landið. Auk þess sem miðlægur búnaður stöðvarinnar var orðinn gamall og framleiðandi hættur að ábyrgjast þjónustu og varahluti er nauðsynlegt að fjarlægja búnað af Rjúpnahæð vegna byggingaframkvæmda þar. Gert er ráð fyrir að uppsetning búnaðarins geti hafist fljótlega á nýju ári og að hann verði kominn í gagnið þegar nokkuð verður liðið á árið.

Fulltrúar Vaktstöðvarinnar, Landhelgisgæslunnar, Siglingastofnunar og Neyðarlínu hafa séð um undirbúning og útboð með aðstoð ráðgjafa. Nýtt og endurnýjað kerfi uppfyllir öll lög og reglur um alþjóðlega samninga og er til þess fallið að bæta verklag við daglegan rekstur.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum