Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. nóvember 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

8/2007

Mál nr. 8/2007. 

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

 

Ár 2007, föstudaginn 16. nóvember, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6, Reykjavík.  Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2007 Gylfi Pálmason, kt. 091146-2669, Leirubakka 14, Reykjavík, hér eftir nefndur kærandi gegn Húnaþingi vestra, Klapparstíg 4, 530 Hvammstanga, hér eftir nefnt kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

  

úrskurður

I   Aðild kærumáls og kröfur. 

Með bréfi dagsettu 9. janúar 2007 kærði Gylfi Pálmason ákvörðun sveitastjórnar Húnaþings vestra frá 17. mars 2005 um innheimtu sorpeyðingagjalds og gjalds vegna losunar rotþróa á fasteign hans að Hjallholti Vatnsnesi.  Í kærunni er jafnframt farið fram á endurgreiðslu á ofteknum gjöldum vegna álagningarinnar. 

Fylgiskjöl með stjórnsýslukærunni eru :

1)      Bréf kæranda dagsett 7. mars 2007. 

2)      Bréf kærða dagsett 17. mars 2007. 

3)      Ljósrit greiðsluseðils v. innheimtu sorpgjalds

4)      Bréf Umboðsmanns alþingis dagsett 29. desember 2007. 

Með bréfi dagsettu 20 janúar 2006 var kæran kynnt Húnaþingi vestra og því veittur frestur til að koma að athugasemdum við hana og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni.  Umsögn Húnaþings vestra barst innan tilskilins frests.  Umsögnin var send til kæranda og honum gefinn frestur til koma að athugasemdum.  Engar athugasemdir bárust frá kæranda.  Úrskurðanefnd sv. 31. gr. laga nr. 7/1998 kvað upp úrskurð í málinu 16. mars 2007.  Kærandi bar fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis 29. mars 2007.  Umboðsmaður Alþingis skilaði áliti sínu 7. maí 2007.  Í framhaldi af því ákvað úrskurðanefnd að endurupptaka málið.  Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.  Málsástæður og rök kæranda. 

Kærandi kveður málavexti vera þá að honum sé gert að greiða sorpeyðingagjald og gjald vegna losunar rotþrór við fasteign sem hann á að Hjallholti, Vatnsnesi.  Kærandi telur að gjaldið eigi m.a. að taka mið af magni, losun og þjónustustigi og að ekki eigi að vera sama gjald á fasteign þar sem er föst búseta og fasteign þar sem ekki er búið að jafnaði en ekki er föst búseta á bænum.  Þá telur kærandi að ekki sé þörf á losun rotþróarinnar vegna lítillar notkunar auk þess sem hann sjá þess ekki merki að losun hafi farið fram.  Kæran lýtur annarsvegar að álagningu sorpeyðingargjalds og hins vegar að álagningu hreinsunargjalds rotþróa

III.  Málsástæður og rök kærða. 

Greinargerð kærða, Húnaþings vestra er dagsett 15. febrúar 2007. 

Í greinargerðinni kemur fram að kærði hafi á liðnum árum innheimt sorpeyðingargjald af eigendum lögbýla í sveitarfélaginu svo og sorphirðugjald og sorpeyðingargjald af eigendum fasteigna innan þéttbýlismarka sveitarfélagsins. Innheimta umræddra gjalda byggi á heimild 3. tl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Kærði hafi á grundvelli umræddrar heimildar sett gjaldskrá þar sem nánar er kveðið á um álagningu sorpgjaldanna.

Jafnframt kemur fram að í dreifbýli í Húnaþingi vestra er sorp ekki sótt að hverju lögbýli heldur eru söfnunargámar fyrir heimilissorp settir upp og þeir svo losaðir með reglubundnum hætti. Innan þéttbýlissvæða sveitarfélagsins er sorp hinsvegar sótt að hverri íbúð vikulega. Í samræmi við þetta fyrirkomulag greiða eigendur lögbýla sorpeyðingargjald en eigendur fasteigna á þéttbýlissvæðum greiða bæði sorpeyðingargjald og sorphirðugjald sem lagt er á sérstaklega vegna hirðingarinnar.  Álagt sorpeyðingargjald skv. gjaldskrá 2006 er kr. 7.200- og er það lagt á alla eigendur fasteigna í sveitarfélaginu. Ekki er gerður greinarmunur á því hvort eigendur fasteigna nýta þjónustuna mikið eða lítið.  Umrædd þjónusta stendur kæranda til boða líkt og öðrum fasteignaeigendum í sveitarfélaginu.

Fram kemur að kærði hafi á liðnum árum lagt í umtalsverðan kostnað til að koma sorphirðu og sorpeyðingarmálum í það horf sem lög og reglugerðir kveða á um. Í ljósi þess sé ómögulegt fyrir kærða að taka tillit til beiðna um niðufellingu eða lækkun sorpgjalda þar sem skipulag er í föstum skorðum og kostnaður fastur og fellur því ekki niður þótt einstaklingar eða fyrirtæki nýti ekki sorpþjónustuna að fullu einhvern hluta ársins. Ekki sé heldur unnt að verða við beiðni kæranda um að sorpgjöld í dreifbýli séu innheimt eftir vigt þar sem eigendum fasteigna er ætlað að koma heimilissorpi í söfnunargáma.  Þá sé ekki hægt að verða við þeirri beiðni kæranda að við innheimtu sorpeyðingargjalds verði tekið tillit til þess að ekki sé um fasta búsetu að ræða. Fasteignatengd gjöld sveitarfélaga hafi verið álögð og innheimt óháð því hvort fasteignir séu nýttar til atvinnustarfsemi eða til íbúðar, eingöngu hafi verið horft til þess hvort viðkomandi eign hafi verið skráð í fasteignamat eða ekki og þar af leiðandi hafi þau gjöld ekki verið felld niður hafi viðkomandi fasteignir ekki verið nýttar allt árið.  Kærði telur að það sama hljóti að gilda varðandi álagningu gjalda vegna sorpeyðingar og ekki sé hægt að sjá hvernig annað fyrirkomulag geti gengið upp án verulegs kostnaðarauka fyrir þá sem þjónustuna nota.

Í greinargerðinni kemur fram rekstrargjöld vegna sorphirðu og sorpeyðingar í sveitarfélaginu séu langt umfram rekstrartekjur Af því megi vera ljóst að innheimtu sorpgjalda hefur verið mjög í hóf stillt.

Í lögum nr. 45/1998 segir að sveitarstjórnir hafi ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast að svo miklu leyti sem ekki eru um það settar reglur í löggjöf.  Í lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 og reglugerð um meðhöndlun úrgangs nr. 737/2003 segir að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir reglubundinni tæmingu og flutningi sorps frá öllum húsum á viðkomandi svæði. Í 11. gr. laga nr. 55/2003 segir m.a. að sveitarfélögum sé heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs en gjöld megi ekki vera hærri en nemur kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum og hafa þessi ákvæði ásamt öðrum er tengjast álagningu og innheimtu sorpgjalda í sveitarfélaginu ávallt verið höfð að leiðarljósi.

Á grundvelli þessa telur kærði að álagning og innheimta sorpgjalda í sveitarfélaginu sé fyllilega eðlileg og réttmæt og standist ákvæði gildandi laga og reglugerða er málið varða.   

Kærði innheimti á árinu 2006 hreinsunargjald rotþróa af íbúðar, atvinnu og frístundahúsum í sveitarfélaginu sem ekki tengjast fráveitukerfum innan þéttbýlissvæða sveitarfélagsins. Umrædd innheimta er í samræmi við samþykkta gjaldskrá fyrir hreinsun og losun rotþróa í Húnaþingi vestra á árinu 2006 nr. 911/2006 en hún er sett á grundvelli samþykktar sveitarfélagsins um rotþrær og siturlagnir nr. 910/2004. Samþykkt sveitarfélagsins hefur hlotið staðfestingu Umhverfisráðuneytisins sbr. ákvæði 25. gr. laga nr. 7/1998. 

Í 14. gr. reglugerðar nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru er sú skylda lögð á sveitarstjórnir að þær sjái til þess að kerfisbundinni tæmingu sé komið á seyru úr rotþróm og það kveðst kærði hafa gert með sérstakri samþykkt um rotþrær og siturlagnir og gjaldskrá. Kærði kveðst hafa komið upp kerfisbundinni hreinsun rotþróa í sveitarfélaginu þar sem samið hefur verið við þjónustuaðila sem uppfyllir ákvæði reglugerðar nr. 785/1999. Skipulögð hafa verið þrjú hreinsunarsvæði í sveitarfélaginu og eru rotþrær á hverju þeirra hreinsaðar á þriggja ára fresti og er sú losunartíðni í samræmi við meðmæli Umhverfisstofnunar þar að lútandi og samþykkt sveitarfélagsins. Hvað varðar skyldur sveitarfélaga í þessu efni vísar kærði til laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 og reglugerðar um meðhöndlun úrgangs nr. 737/2003

Fram kemur að við ákvarðanatöku um innheimtu hreinsunargjaldsins hafi verið ákveðið að það skyldi innheimt árlega þó hreinsun færi fram á þriggja ára fresti.  Gjaldtaka er byggð á rauntölum sl. ára að sögn kærða.

Á grundvelli þeirra atriða sem fjallað hefur verið um hér að framan álítur kærði að álagning og innheimta hreinsunargjalds rotþróa í sveitarfélaginu sé fyllilega eðlileg og réttmæt og standist ákvæði gildandi laga og reglugerða er málið varða. 

IV.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar. 

Eins og lýst var hér að framan var mál þetta sent umboðsmanni Alþingis.  Umboðsmaður Alþingis skilað áliti þann 07.05.2007 og skipta niðurstöður þess álits máli við úrlausn ágreinings kæranda og Húnaþings vestra. 

 Í áliti umboðsmanns Alþingis kemur fram að um gjaldtöku fyrir meðhöndlun úrgangs sé fjallað í 11. gr. laga nr. 55/2003.  Í 2. gr. þeirra laga kemur fram að sveitarfélögum sé heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum lagana. Fram kemur að heimilt sé að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Sveitarfélagi er einnig heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig.  Í ákvæðinu kemur jafnframt fram að gjald sem sveitarfélag eða byggðasamlag innheimtir skuli þó aldrei vera hærra en nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laga þessara. Í 4. mgr. kemur fram að birta skuli gjaldskrá í B-deild stjórnartíðinda.  Réttur grundvöllur gjaldskrár sveitarfélags vegna meðhöndlunar úrgangs sem fellur undir lög 55/2003 er því 11. gr. þeirra laga en ekki 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Gjaldskrá kærða sem álagning hreinsunargjalds rotþróa byggðist á var hinsvegar sett á grundvelli 25. gr. laga 7/1998 en ekki 11. gr. laga 55/2003. 

Svo sem fram kemur í áliti umboðsmanns Alþingis  er losun og hirðing seyru úr rotþróm meðhöndlun úrgangs í skilningi laga 55/2003.  Í 5. mgr. 4. gr. þeirra laga kemur fram að sveitarstjórn skuli ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu. Heimilisúrgangur er skilgreindur þannig í 3. gr.laganna að um sé að ræða úrgang frá heimilum, t.d. matarleifar, pappír, pappa, plast, garðaúrgang, gler, timbur, málm og sams konar leifar frá rekstraraðilum o.þ.h.  Í sama ákvæði er úrgangur skilgreindur sem hvers kyns efni eða hlutir sem framleiðandi úrgangs eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni ákveður að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt og skráður er á lista í reglugerð um úrgang, sbr. 13. gr.  Með vísan til þessa er talið að seyra úr rotþróm við sumarhús teljist heimilisúrganur í skilningi laga nr. 55/2003.  Sveitarfélög hafa samkvæmt því á grundvelli 5. mgr. 4. mr. laga nr. 55/2003 heimild til að ákveða fyrirkomulag á söfnun slíks úrgangs.  Slíka ákvörðun verða sveitarfélög að útfæra með skýrum hætti í sérstakri samþykkt sbr. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003.  Í slíkri samþykkt er heimilt að kveða á um skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang og sambærileg atriði. Um gerð og staðfestingu samþykktarinnar fer skv. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Kæruefnið lýtur annarsvegar að álagningu sorpeyðingargjalds og hins vegar að álagningu hreinsunargjalds rotþróa. 

Úrskurðarnefndin lítur svo á að sorphirðugjald eigi að vera bundið veittri þjónustu.  Í athugasemdum við ákvæði 11. gr. laga nr. 55/2003 segir um gjaldtöku á grundvelli ákvæðisins að eðlilegt þyki að greitt sé mismunandi gjald eftir því hvort um er að ræða t.d. sumarhús eða íbúðarhús þar sem umfang þjónustunnar er eðli máls samkvæmt mismunandi.  Hinsvegar verður að líta til þess að sorp er ekki sótt að hverju býli í sveitarfélaginu heldur söfnunargámar fyrir heimilissorp staðsettir víða um sveitir og því ómögulegt að áætla magn sorps frá hverjum og einum.  Ómögulegt er að bera saman aðstæður kæranda við aðstæður annarra gjaldenda til að ganga úr skugga um hvort honum hafi verið mismunað að því leyti.  Þá verður að líta til þess að skipulag sorphirðu er í föstum skorðum og fellur ekki niður þó einstaklingar og fyrirtæki nýti ekki sorpþjónustuna.   Telja verður að svo sterk rök séu fyrir því að greitt sé jafnaðargjald fyrir að njóta þessarar þjónustu, að ekki verði lögð á sveitarfélagið skylda til að rannsaka sorp og krefja íbúðareigendur um gjald miðað við flokkað og mælt sorp

Úrskurðarnefnd lítur svo á að Húnaþing vestra hafi samkvæmt framansögðu lagalegar heimildir til að haga gjaldtöku vegna sorphirðu á þann hátt að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign en lög og reglur standi ekki til þess að reiknaður sé kostnaður sem fellur til vegna hvers og eins gjaldanda.

Að teknu tilliti til þess er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hafna kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun kærða um álagningu og innheimtu sorpeyðingargjalds. 

Í 14. gr. rgl. nr. 799/1999 kemur fram að sveitarstjórnir skuli sjá til þess að komið sé á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm.  Sveitarstjórn Húnaþings hefur komið á kerfisbundinni hreinsun rotþróa í sveitarfélaginu á þriggja ára fresti.  Að mati úrskurðarnefndar hvílir skylda á  sumarhúsaeigendum að láta losa seyru hjá sér í samræmi við lög og reglur.  Kærandi heldur því fram að hann hafi ekki þörf fyrir seyrulosun vegna lítillar notkunar.  Sveitarfélög hafa á grundvelli 5. mgr. 4. mr. laga nr. 55/2003 heimild til að ákveða fyrirkomulag á söfnun úrgangs úr rotþróm við sumarhús.  Þá hvílir sú skylda á sveitarstjórnum að koma á kerfisbundinni losun seyru úr rotþróm.  Að mati nefndarinnar er eðlilegt og mikilvægt út frá heilbrigðissjónarmiði að tryggt sé að seyrulosun fari fram með reglubundnum hætti.  Ekki er úr hófi að losun fari fram á þriggja ára fresti.  Í þeirri þjónustu felst bæði eftirlit með því hvort tæma þurfi rotþróna og tæming sé þess þörf.  Ómögulegt er að bera saman aðstæður kæranda við aðstæður annarra til að ganga úr skugga um hvort þörf sé á tæmingu.  Þá verður að líta til þess að skipulag seyrulosunar er í föstum skorðum og mikilvægt út frá heilbrigðissjónarmiði og almannahagsmunum.  Telja verður að svo sterk rök séu fyrir reglubundinni  seyrulosun að ekki verði lögð á sveitarfélagið skylda til að rannsaka rotþrær hjá einstökum íbúðareigendum. 

Það er hins vegar álit nefndarinar að þegar losað er á þriggja ára fresti sé ekki heimilt að jafna gjaldið út með árlegri innheimtu. 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er sú að ekki er fallist á kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun kærða um álagningu og innheimtu sorpeyðingargjalds og álagningu hreinsunargjalds rotþróa. 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ekki er fallist á kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun kærða um álagningu og innheimtu sorpeyðingargjalds og álagningu hreinsunargjalds rotþróa. 

 

___________________________________

Steinunn Guðbjartsdóttir

 

__________________________         ___________________________

Gunnar Eydal                                     Guðrún Helga Brynleifsdóttir

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum