Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. nóvember 2007 Innviðaráðuneytið

Landeyjahöfn í Bakkafjöru í undirbúningi

Undirbúningur að gerð hafnar í Bakkafjöru í Austur-Landeyjum stendur nú yfir og eru ýmis atriði skipulags- og umhverfismála nú til meðferðar hjá þar til bærum yfirvöldum. Gert er ráð fyrir að ný ferjuleið milli Vestmannaeyja og lands verði komin á síðla árs 2010.

Undirbúningur að gerð Landeyjahafnar í Bakkafjöru stendur nú yfir.
Undirbúningur að gerð Landeyjahafnar í Bakkafjöru stendur nú yfir.

Landeyjahöfn verður skammt sunnan og austan flugvallarins á Bakka og rétt vestan við ósa Markarfljóts. Gert er ráð fyrir að leggja nýjan veg milli hafnarinnar og Hringvegarins og er nú tillaga uppi um að hann liggi meðfram Markarfljóti. Þá er hafin umfangsmikil landgræðsla í sandinum ofan og austan við væntanlegt hafnarstæði. Tilgangur hennar er að hefta sandfok á svæðinu og hefur þegar verið sáð í um 50 hektara.

Fulltrúar stýrihóps um Bakkafjöruhöfn, aðstoðarmaður samgönguráðherra, skrifstofustjóri í samgönguráðuneyti, fulltrúar Landgræðslunnar og sveitarstjóri Rangárþings eystra skoðuðu uppgræðsluverkefnið í fjörunni í gær.

Fyrsta skref uppgræðslunnar er að koma fyrir svonefndum fokgirðingum sem snúið er þvert á vindátt. Safnast að þeim sandskaflar og við það hækkar landið upp fyrir vetrarvatnsborð sem er yfirleitt hærra en vatnsborðið að sumarlagi. Þegar landið hefur hækkað með þessum aðgerðum er unnt að sá í svæðið og verður það gert í vor. Auk sáningar eru heyrúllur notaðar til að hefta rennsli vatns og í framhaldi af því verður sáð þar melgresi og grastegundum. Gert er ráð fyrir að sá í um 100 hektara svæði og alls þarf að safna um 1.200 heyrúllur til verkefnisins í nærliggjandi sveitum.

Til að uppgræðslan nái sem bestri fótfestu er nauðsynlegt að reisa um tveggja kílómetra langan varnargarð vestan við neðsta hluta Markarfljóts og annan styttri nokkru ofar með fljótinu. Stefnt er að því að reisa varnargarðinn um leið og nýr vegur verður lagður. Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri segir fljótið flengjast bæði til austurs og vesturs við ósana og því sér brýnt að hemja landbrot þess til vesturs til að uppgræðslan beri árangur.

Stefnt er að því að bjóða megi út gerð Bakkafjöruhafnar fljótlega á næsta ári. Valdir hafa verið fjórir aðilar sem heimilað verður að bjóða í rekstur nýs Herjólfs en unnið er nú að þarfagreiningu vegna útboðs. Stefnt er að því að útboðið fari fram fyrir áramót.


Uppgræðsla á Landeyjasandi
Mikið uppgræðslustarf hefur farið fram og mun fara fram á Landeyjasandi í tengslum við gerð hafnarinnar.

Undirbúningur að gerð Landeyjahafnar í Bakkafjöru stendur nú yfir.
Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri, Róbert Marshall, aðstoðarmaður samgönguráðherra, og Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, eru hér skammt frá hafnarstæðinu.
Undirbúningur að gerð Landeyjahafnar í Bakkafjöru stendur nú yfir.
Hér sést í átt til Eyja og væntanlegt hafnarstæði í forgrunni. Frá vinstri eru Sigurður Áss Grétarsson, verkfræðingur hjá Siglingastofnun sem sæti á í stýrihópnum, Gústav Ásbjörnsson, frá Landgræðslunni, Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, og Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri Rangárþings eystra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum