Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. desember 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á opnum fundi Framtíðarlandsins um Árósasamninginn

Ágæta samkoma. Ég vil þakka fyrir það tækifæri að fá að að ávarpa þennan fund og taka þátt í umræðu hér í dag um þann mikilvæga samning sem Árósamningurinn er.

Árósasamningurinn um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum var gerður 25. júní 1998 og öðlaðist hann gildi 30. október 2001. Samningurinn hefur þrjár grunnstoðir sem eru þau réttindi sem samningurinn á að tryggja almenningi. Réttindin eru þríþætt:

Í fyrsta lagi er það réttur til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál

í öðru lagi réttur almennings til þátttöku í málsmeðferð þegar undirbúnar eru ákvarðanir af hálfu stjórnvalda í umhverfismálum

og í þriðja og síðasta lagi er það svo aðgangur að réttlátri málmeðferð í umhverfismálum fyrir dómstólum eða öðrum óháðum og hlutlausum úrskurðaraðila.

Í febrúar 2005 skipaði þáverandi umhverfisráðherra nefnd sem falið var það verkefni að fara yfir ákvæði Árósasamningsins og var hlutverk nefndarinnar að greina efni Árósasamningsins og hvaða opinberar leyfisveitingar falla undir hann. Þá var nefndinni ætlað að fara yfir hvaða breytingar þyrfti að gera á lögum ef samningurinn yrði fullgiltur af Íslands hálfu. Nefndin skilaði tillögum og skýrslu sinni í september 2006.

Árósasamningurinn er yfirgripsmikill og varðar löggjöf sem fellur undir sjávarútvegs-, landbúnaðar-, iðnaðar-, dóms- og kirkjumálaráðuneyti auk umhverfisráðuneytis. Áttu því öll þessi ráðuneyti fulltrúa sína í nefndinni. Í tillögum hennar er að finna ítarlega greiningu á því hvers konar leyfisveitinga samningurinn tekur til. Var það mat nefndarinnar að hann næði til ákvarðana stjórnvalda um útgáfu leyfa til framkvæmda sem eru matsskyldar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þannig afmarka þau lög þær framkvæmdir sem Árósasamningurinn fjallar um að mati nefndarinnar. Hér er um fjölmörg leyfa að ræða sem varða m.a. umhverfi orkufyrirtækja.

Dæmi um slík leyfi eru leyfi iðnaðarráðherra til að reisa og reka orkuver, rannsóknar- og nýtingarleyfi iðnaðarráðherra til að leita eða nýta auðlind á tilteknu svæði og til að reisa línur til flutnings á raforku, rekstrarleyfi Landbúnaðarstofnunar til fiskeldis og hafbeitar og starfsrækslu fiskeldisstöðva, rekstrarleyfi Fiskistofu til eldis nytjastofna og framkvæmda- og byggingarleyfi sveitarstjórna vegna matsskyldra framkvæmda. Þessi dæmi sýna hversu leyfisveitingar sem samningurinn tekur til nær til víðtæks sviðs framkvæmda.

En nú ætla ég að víkja nánar að þeim réttindum sem samningurinn fjallar um. Nýleg lög um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál tryggja réttinn til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál. Markmið laganna er að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál, sem stjórnvöld hafa yfir að ráða eða geymdar eru fyrir þeirra hönd, til að stuðla að sterkari vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings í töku ákvarðana um umhverfismál.

Hvað vaðar rétt almennings til þátttöku í málsmeðferð þegar undirbúnar eru ákvarðanir af hálfu stjórnvalda í umhverfismálum þá tel ég að jafnframt sá réttur sé tryggður í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þeim lögum var breytt vorið 2005 og í kjölfarið sett ný reglugerð um mat á umhverfisáhrifum. Með þessum breytingum er mælt fyrir um ítarlegri reglur um framkvæmd mats á umhverfisáhrifum og kynningu fyrirhugaðra matsskyldra framkvæmda fyrir almenningi.

Ég vil leggja áherslu á að framangreindar meginstoðir samningisins og þau réttindi sem þær kveða á um hafa því verið innleiddar í löggjöf hér á landi.

Aðgangur að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum fyrir dómstólum eða öðrum óháðum og hlutlausum úrskurðaraðila er tvíþættur: Annars vegar felst í honum að ef stjórnvald synjar um aðgang að upplýsingum um umhverfismál skuli sá sem aðgangsins óskar eiga rétt á að bera synjunina undir dómstól eða annan óháðan úrskurðaraðila en slíkur aðgangur er tryggður í lögum. Hins vegar felst í honum að „almenningur sem málið varðar" skuli hafa aðgang að endurskoðunarleið fyrir dómstólum eða óháðum úrskurðaraðila innan stjórnsýslunnar vegna útgáfu leyfa til framkvæmda sem haft geta umtalsverð umhverfisáhrif. Það sama á við ef stjórnvald vanrækir að krefjast leyfis fyrir tiltekinni starfsemi þrátt fyrir lagaskyldu þar um. Umhverfisverndarsamtök sem uppfylla skilyrði samkvæmt landsrétti skulu ávalt teljast falla undir hugtakið „almenningur sem málið varðar" og njóta þannig kæruréttar samkvæmt samningnum án þess að þurfa að sýna fram á lögvarða hagsmuni.

Þegar Árósasamningurinn verður fullgiltur hér á landi eru það einkum réttindin varðandi aðgang að réttlátri málsmeðferð sem kalla á lagabreytingar hér á landi. Hér er um að ræða breytingar á aðgangi „almennings er málið varðar" að kæruleið, annaðhvort fyrir dómstólum eða innan stjórnsýslunnar, vegna ákvarðana stjórnvalda um útgáfu leyfa til framkvæmda sem haft geta umtalsverð áhrif á umhverfið. Einstaklingar sem hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn máls og umhverfisverndarsamtök teljast hér til „almennings sem málið varðar" í skilningi samningsins.

Taka þarf ákvörðun um hvort fara skuli svokallaða stjórnsýsluleið eða dómstólaleið við gerð lagabreytinga en stjórnsýsluleiðin fjallar um að umhverfisverndarsamtök og þeir, sem lögvarða hagsmuni hafa af úrlausn kærumáls, hafi rétt til að fá endurskoðaða ákvörðun um veitingu leyfis á sviði umhverfismála innan stjórnsýslunnar með kærurétti til úrskurðarnefndar. Yrði stjórnsýsluleiðin farin kallaði það á breytingar á stjórnsýslu þessara mála þannig að leyfisveitingarferlið yrði fært til lægra setts stjórnvalds, svo sem stofnana á vegum ráðuneytanna, auk þess sem settar yrðu upp sjálfstæðar úrskurðarnefndir sem gætu tekið kærumál vegna leyfisveitinga til úrskurðar. Dómstólaleið tekur hins vegar til rétts frjálsra félagasamtaka til að fá endurskoðaða ákvörðun um veitingu leyfis á sviði umhverfismála með aðgangi að almennum dómstólum. Slíkur aðgangur umhverfisverndarsamtaka er ekki leyfður í dag enda verður sá sem höfðar dómsmál fyrir íslenskum dómstólum, að hafa sjálfur lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr þeim kröfum sem hann gerir þar.

Að mati nefndarinnar myndi fullgilding Árósasamningsins kalla á breytingar á íslenskum lögum. Þannig þyrfti að tryggja að unnt yrði að leggja ákvarðanir um útgáfu leyfa vegna matsskyldra framkvæmda fyrir dómstóla eða óháða úrskurðaraðila til endurskoðunar og að umhverfisverndarsamtök gætu átt aðild að slíkum málum. Í því sambandi væri unnt að velja á milli stjórnsýslu- eða dómastólaleiðarinnar eins og áður sagði.

Í verkefnaskrá minni fyrir kjörtímabili 2007-2011 sem birtir sýn mína á helstu verkefni sem ég hyggst leggja áherslu á er sérstaklega tiltekið að ég mun beita mér fyrir því að Árósasamningurinn verði fullgiltur. Það krefst samráðs við samstarfsráðherra mína í ríkisstjórn enda tekur samningurinn til efnis sem heyrir undir fleiri ráðuneyti en umhverfisráðuneytis eins og ég hef áður getið. Ég tel að virkt lýðræði sé nauðsynleg undirstaða öflugrar umhverfisverndar. Réttur almenning til að nálgast upplýsingar um umhverfi sitt hefur verið bættur og í auknum mæli er tekið tillit til hans. Ég vil í þessu sambandi geta þess að í frumvarpi til nýrra skipulagslaga sem ég mun bráðlega leggja fram á Alþingi er lögð áhersla á aukið samráð og kynningu við gerð skipulagsáætlana, bæði gagnvart almenningi og opinberum aðilum. Með því er ætlunin að vanda gerð skipulags og tryggja að almenningur og hagsmunaaðilar hafi tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri þannig að sveitarfélög geti tekið upplýsta ákvörðun við afgreiðslu skipulagsáætlana. Fullgilding Árósasamningsins sem ég hyggst beita mér fyrir, myndi enn frekar stuðla að aukinni þátttöku almennings og umhverfisverndarsamtaka í þeim málum sem samningurinn tekur til og án efa leiða til upplýstari ákvarðana í umhverfismálum.

Ég vil að lokum þakka Framtíðarlandinu gott framtak fyrir að boða til þessa fundar og ég veit að umræður hér í dag munu vera gagnlegar fyrir þá umræðu sem framundan er vegna Árósasamningsins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum