Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. desember 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Starfsemi Vatnamælinga og Veðurstofu Íslands sameinast í einni stofnun

Veðurstofa Íslands
Veðurstofa Íslands

Ákveðið hefur verið að sameina starfsemi Vatnamælinga og Veðurstofu Íslands í nýrri stofnun sem gert er ráð fyrir að taki til starfa eigi síðar en 1. janúar 2009. Fyrirhuguð stofnun gengur undir vinnuheitinu Vatna- og Veðurstofa Íslands. Þetta var meðal þess sem fram kom í ræðu Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra á málstofu um niðurstöður loftslagsverkefnis á 60 ára afmæli Vatnamælinga í dag.

Fram að þeim tíma er ný stofnun tekur til starfa munu Vatnamælingar vera innan Orkustofnunar en heyra undir umhverfisráðueytið. Þannig mun Orkumálastjóri heyra undir umhverfisráðherra þegar málefni Vatnamælinga eiga í hlut þar til hin nýja stofnun tekur til starfa.

Umhverfisráðuneytið fékk fyrr í þessari viku í hendur skýrslu starfshóps sem fenginn var til að vinna þarfagreiningu fyrir hina nýju stofnun sem mun liggja til grundvallar við undirbúning að mótun stofnunarinnar. Mun nú strax í upphafi nýs árs hafist handa við að móta grunn hinnar nýju stofnunar svo sem verkefni og rekstrarfyrirkomulag og undirbúa nauðsynlega lagasetningu í því sambandi.

Hér má lesa ávarp umhverfisráðherra í heild sinni:

Það er mér sönn ánægja að ávarpa þessa málstofu á þessum hátíðardegi hjá Vatnamælingum. Efni málstofunnar er afar áhugavert - þar sem gerð verður grein fyrir niðurstöðum merkilegs rannsóknaverkefnis um áhrif loftslagsbreytinga á vatns- og orkubúskap – og er gott innlegg í þá miklu umræðu sem er um loftslagsbreytingar um þessar mundir hér á Íslandi og á heimsvísu. Þá eru Vatnamælingar umhverfisráðherra mjög hugleiknar á sextíu ára afmæli þeirra; það markar ekki eingöngu tímamót vegna þessa virðulega aldurs, því frá og með næstu áramótum munu Vatnamælingar færast frá iðnaðarráðuneytinu og undir umhverfisráðuneytið.

Með vistaskiptum fylgja nýjar áherslur í starfi Vatnamælinga, en þar er að mínu mati um eðlilega þróun að ræða. Lengst af á ævi Vatnamælinga hefur mestu máli skipt að nýta vatnsorkuna til að rafvæða Ísland og koma því í hóp þróaðra ríkja og á þeim grunni var starfsemin mótuð. Þjóðin stendur í þakkarskuld við orkugeirann fyrir að hafa byggt upp faglega sterka starfsemi á sviði vatnamælinga á Íslandi og ég vænti að framhald verði á góðu samstarfi orkugeirans og Vatnamælinga. En við höfum nú fjölbreyttari sýn á vatnið, það er verðmætt sem neysluvatn, sem hráefni í matvælaframleiðslu, sem búsvæði fiska og fleiri lífvera, sem fossaskrúði og ferðamannasegull – og það má tína fleira til. Það er von mín að umhverfisráðuneytið verði sá brennipunktur sem safnað getur saman dreifðum hagsmunum og fjölbreyttri sýn og myndað nauðsynlega og fjölþætta undirstöðu undir starfsemi Vatnamælinga til frambúðar.

Á ráðstefnunni sem nýlega lauk á Balí var baráttan gegn veðurfarsbreytingum af mannavöldum til umfjöllunar. Sá þáttur í afleiðingum veðurfarsbreytinga sem er einna afdrifaríkastur um búsetuskilyrði og afkomu manna er breytt úrkoma og þar með aðgangur að vatni. Vatnshringrásin er líka eitt mikilvægasta ferlið í veðurkerfi jarðar. Þótt Ísland sé vatnsríkasta land í heimi, þá hafa veðurfarsbreytingar merkjanleg áhrif á vatnsbúskapinn hér á landi, svo sem á tilvist jökla, myndun grunnvatns, tíðni flóða og þurrðar og afkomu vatnsorkuvera. Veðurmælingar og vöktun vatnafars eru meðal mikilvægustu þátta í rannsóknum á náttúrufari hvers lands. Vatnið, heitt og kalt, er undirstaða orkuframleiðslu okkar: Vatnsorkan og jarðhitinn leggja samanlagt til um 70% frumorku þeirrar sem hér er nýtt. Óvíða er þörfin því meiri á vönduðum athugunum á þessu sviði en einmitt hér á landi. Við fáum innsýn í þær hér á eftir, þegar kynntar verða helstu niðurstöður verkefnisins Veður og orka, sem Vatnamælingar Orkustofnunar hafa stýrt og allmargir íslenskir vísindamenn hafa tekið þátt í á undanförnum fjórum árum. Það verkefni er Vatnamælingum og íslensku vísindasamfélagi til sóma.

Ágætu fundarmenn og starfsmenn Vatnamælinga, mig langar hér í lokin aðeins að víkja að þeim breytingum sem fram undan eru í starfsemi Vatnamælinga.

Þegar ákveðið var við myndun nýrrar ríkisstjórnar að Vatnamælingar Orkustofnunar flyttust til umhverfisráðuneytisins, þá fórum við í umhverfisráðuneytinu yfir það hvernig best væri að fella starfsemi Vatnamælinga að annarri starfsemi ráðuneytisins. Eftir nokkra umhugsun og nánari skoðun ákváðum við að sameina starfsemi Vatnamælinga og Veðurstofu Íslands í nýrri stofnun sem sett yrði á fót. Í nýsamþykktum lagabálki um flutning verkefna innan stjórnarráðsins sem samþykktur var á Alþingi í síðustu viku er gert ráð fyrir að hin nýja stofnun sem gengið hefur undir vinnuheitinu Vatna- og Veðurstofa Íslands taki til starfa eigi síðar en 1. janúar 2009.

Fram að þeim tíma munu Vatnamælingar vera innan Orkustofnunar en heyra undir umhverfisráðueytið. Þannig mun Orkumálastjóri heyra undir umhverfisráðherra þegar málefni Vatnamælinga eiga í hlut þar til hin nýja stofnun tekur til starfa. Vænti ég þess að þetta fyrirkomulag sem aðeins mun standa í takmarkaðan tíma muni ekki hamla starfsemi Vatnamælinga á nokkurn hátt.

Ég legg áherslu á að vandað verði sem best í undirbúningi hinnar nýju stofnunar og nú í þessari viku fékk ráðuneytið í hendur skýrslu starfshóps sem fenginn var til að vinna þarfagreiningu fyrir hina nýju stofnun sem mun liggja til grundvallar við undirbúning að mótun stofnunarinnar. Mun nú strax í upphafi nýs árs hafist handa við að móta grunn hinnar nýju stofnunar svo sem verkefni og rekstrarfyrirkomulag og undirbúa nauðsynlega lagasetningu í því sambandi. Það er von mín að mér takist að leggja fram frumvarp um Vatna- og Veðurstofu Íslands á vorþinginu, þannig að ráða megi forstöðumann hinnar nýju stofnunar tímanlega til að stofnunin geti hafið störf af fullum krafti í upphafi árs 2009.

Ef litið er til lægðagangsins og úrkomunnar að undanförnu mætti kannski álykta sem svo, að náttúran sjálf væri að undirstrika nauðsyn þess að auka samstarf íslenskra veðurfræðinga og vatnafræðinga. Víst er að fjölmörg mikilvæg verkefni bíða fræðimanna þeirra sem munu starfa innan veggja nýrrar stofnunar. Ég vænti þess að eiga gott samstarf um þetta spennandi verkefni við starfsfólk Vatnamælinga og Veðurstofu Íslands og vil að lokum óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum