Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. desember 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úthlutun til sveitarfélaga vegna samdráttar í aflamarki þorsks

Félagsmálaráðherra hefur ákveðið úthlutun á 250 m.kr. til að koma til móts við þau sveitarfélög sem verða fyrir tekjumissi vegna tímabundins samdráttar í aflamarki þorsks. Um er að ræða fyrsta hluta af þremur en ríkisstjórnin hafði ákveðið að veita samtals 750 m.kr. í þessu skyni á þremur árum og er það hluti af mótvægisaðgerðum vegna niðurskurðar í aflaheimildum á þorski.

Ljóst er að áþreifanleg áhrif aflasamdráttar á fjárhag sveitarfélaga munu ekki koma betur í ljós fyrr en á næsta ári. Því var farin sú leið við úthlutun fjármagns þessa árið 2007 að við fyrstu úthlutun verði komið til móts við þau sveitarfélög sem talin eru líklegust að verði fyrir skaða til að veita þeim viðspyrnu og tækifæri til að bregðast við í tíma. Við úthlutun á næstu tveimur árum verða hins vegar mun skýrari forsendur til að meta áhrif á fjárhag sveitarfélaganna, meðal annars hafnarsjóðanna.

Við úthlutun á árinu 2007 er miðað við eftirfarandi forsendur:

  • Miðað er við aflamark í þorski samtals síðastliðin þrjú ár samkvæmt upplýsingum Fiskistofu.
  • Miðað er við hlutfall starfa í veiðum og vinnslu árið 2005 samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands og það hlutfall margfaldað með tveimur. (Hlutfall starfa er tvöfaldað til að auka vægi fiskveiða og vinnslu í útreikningum, þ.e. samsetningu vinnuaflsins í viðkomandi sveitarfélagi, þar sem ekki er alltaf samhengi milli veiða og þess hvar þorskaflinn er unninn.)
  • Lágmarkshlutfall starfa við veiðar og vinnslu eftir tvöföldun verður að hafa verið 5%.
  • Aflamark og hlutfall starfa er margfaldað og þannig fæst hlutfallsstuðull sveitarfélags í heildarfjárhæðinni.
  • Lágmarksfjárhæð greiddra styrkja er 500.000 kr.

Skjal fyrir Acrobat ReaderSkjal sem sýnir úthlutun til sveitarfélaga á þessum forsendum

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum