Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. janúar 2008 Dómsmálaráðuneytið

Forsetakjör 2008

Samkvæmt lögum um framboð og kjör forseta Íslands skal forsetakjör fara fram síðasta laugardag í júnímánuði fjórða hvert ár, árið 2008 hinn 28. júní.

Kjörtímabil forseta Íslands rennur út í lok júlí 2008. Forsetakjör fyrir næsta fjögurra ára kjörtímabil fer fram á lögmæltum kjördegi, síðasta laugardegi í júní, sem er 28. júní 2008.

Undirbúningur stjórnvalda að kosningunni hefst með því að forsætisráðherra auglýsir kosninguna ekki seinna en 28. mars 2008 og tilgreinir lágmark og hámark meðmælenda úr hverjum landsfjórðungi.

Ekki seinna en 5 vikum fyrir kjördag, þ.e. 24. maí 2008, skal skila framboðum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins ásamt samþykki forsetaefnis, nægri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að meðmælendur séu kosningabærir. Ráðuneytið hefur látið gera sérstaka meðmælendalista í þessu skyni, og má nálgast þá hér.

Innan viku eftir 24. maí skal dómsmálaráðuneytið auglýsa í útvarpi og í Lögbirtingablaði hverjir eru í kjöri til embættis forseta Íslands.

Þá hefst utankjörfundarkosning með sama sniði og venjulega fyrir kosningar. Rétt fyrir kjördag verða prentaðir kjörseðlar og þar skulu nöfn forsetaefna prentuð í stafrófsröð.

Undirkjörstjórnir og yfirkjörstjórnir eru hinar sömu og við alþingiskosningar, en auk þeirra gegnir hæstiréttur sérstöku hlutverki, eins og nánar er lýst í lögum nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands með síðari breytingum.

Yfirkjörstjórnir senda til Hæstaréttar Íslands eftirrit úr gerðarbók ásamt ágreiningsseðlum. Hæstiréttur boðar forsetaefni eða umboðsmenn þeirra til fundar þar sem úrskurðað er um ágreiningsseðla, lýsir úrslitum kosninganna og gefur úr kjörbréf.


Meðmælendur við forsetaframboð - eyðublað (pdf-format)


Auglýsing forsætisráðuneytis um framboð og kjör forseta Íslands (26.03.08)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum