Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. janúar 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Íbúðir og stoðþjónusta fyrir geðfatlaða á Suðurlandi

Laufey Jónsdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir undirrita samkomulagið
Laufey Jónsdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir undirrita samkomulagið

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, undirritaði fimmtudaginn 10. janúar 2008 samning við Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra Suðurlandi um búsetu og stoðþjónustu fyrir geðfatlaða á Suðurlandi. Undirritunin fór fram í VISS vinnu- og hæfingarstöð, Gagnheiði 39, Selfossi og hófst athöfnin á því að ráðherra skoðaði vinnustofuna. Samkomulagið var gert í samræmi við stefnu og framkvæmdaáætlun félags- og tryggingamálaráðuneytisins um eflingu þjónustu við geðfatlað fólk 2006–2010, sem ber nafnið Straumhvörf.

Samkomulagið felur í sér að Straumhvörf mun verja á næstu þremur árum 82 milljónum króna til neðangreindra verkefna í þágu geðfatlaðra á Suðurlandi.

Gestir og starfsfólk á VISS á SelfossiNýjar íbúðir

Fjármögnun þriggja leiguíbúða ásamt starfsmannaaðstöðu fyrir einstaklinga með geðfötlun. Tvær íbúðir eru á Selfossi sem eru 70 m2 að stærð, auk 30 m2 starfsmannarýmis. Þær eru keyptar í samstarfi við Brynju, Hússjóð Öryrkjabandalagsins. Þegar er flutt inn í íbúðirnar. Íbúðin í Þorlákshöfn er keypt í samstarfi við Sveitarfélagið Ölfus. Unnið er að endurbótum á íbúðinni í Þorlákshöfn og mun þeirri vinnu ljúka fljótlega. Íbúðirnar verða hluti af heildarhúsnæðiskosti fyrir fatlaða á svæðinu. Skipulag á nýtingu íbúðanna verður í höndum Svæðisskrifstofu Suðurlands þannig að tryggt sé að jafn margar íbúðir standi geðfötluðum til boða á hverjum tíma.

Frekari liðveisla við geðfatlaða

Með frekari liðveislu er átt við sértækra þjónustu sem veitt er til viðbótar við almenna félagsþjónustu sveitarfélaga. Þjónustan er einstaklingsmiðuð og veitt í þremur leiguíbúðum fyrir geðfatlaða. Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra hefur umsjón með því að nauðsynleg þjónusta sé veitt íbúunum í samræmi við lög um málefni fatlaðra, nr. 59/1992.

Með samkomulagi þessu hafa Straumhvörf að fullu komið til móts við markmið um uppbygginu og þjónustu til geðfatlaðra samkvæmt framkvæmdaáætlun 2006–2010 á þjónustusvæði Svæðisskrifstofu Suðurlands.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum