Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. febrúar 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Afmælishátíð Félags íslenskra heimilislækna

Guðlaugur Þór Þórðarson

heilbrigðisráðherra

Ávarp ráðherra á afmælishátíð hjá Félagi íslenskra heimilislækna,
í húsnæði Læknafélags Íslands, Hlíðasmára 8, Kópavogi,
laugardaginn 2. febrúar 2008.

 

 

Kæru heimilislæknar og aðrir góðir gestir,
Ég vil til að byrja með óska Félagi íslenskra heimilislækna innilega til hamingju með 30 ára afmælið.

Ég vil ekki halda því fram að ég muni eftir stofnun félagsins en allt frá því ég fór að fylgjast með þjóðmálum og þjóðmálaumræðu, þá hefur mér verið ljóst, hve félagið hefur verið öflugt, barist vel fyrir skjólstæðingum sínum og öflugri heilsugæslu á landinu.

Ég vil í upphafi geta þess, að ég er eindregið þeirrar skoðunar, að öflug heilsugæsla um land allt, bæði í þéttbýli og dreifbýli, sé algjör undirstaða heilbrigðisþjónustu af þeim gæðum sem við viljum bjóða íbúum þessa lands, þar sem öllum á að vera greitt og gott aðgengi að þjónustu á bestu mögulegum gæðum.

Ég er einnig þeirrar skoðunar,  að heilsugæslan sé  jafn mikilvæg í dreifðustu byggðum landsins, þar sem langt er til annarrar heilbrigðisþjónustu, sem í þéttustu byggðum þéttbýlisins, þar sem aðgengið getur oft á tíðum verið torsóttara en í dreifbýlinu.

Mér er mjög í mun að heilsugæslan haldi stöðu sinni og styrki hana enn frekar. Að undanförnu hafa fréttir á þessum vettvangi ekki síst snúist um ástand heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Eins og mörg ykkar hafa án efa orðið vör við,  þá hef ég ákveðið að skipa fimm manna nefnd um málefni heilsugæslu á þessu svæði. Hef ég fengið til formennsku nefndarinnar einn þann reyndasta mann sem völ var á, Guðjón Magnússon fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, sem gegnum sína löngu og merku starfsreynslu er öllum hnútum kunnugur. Með honum í nefndinni verða Tinna Ásgeirsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Ragnar Þórir Guðbjörnsson og Flosi Eiríksson. Nefndinni er meðal annars ætlað að koma með tillögur að framtíðarstefnu Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, leggja mat á möguleika til að auka fjölbreytni rekstrarforma, hvernig tryggja megi betur aðgengi, sem og annað það sem nefndin telur ástæðu til.

Ég vænti mikils af tillögum nefndarinnar, sem mun vinna í miklu samráði við heilsugæsluna.  Ég hef lagt fyrir nefndina að hún skuli skila mér áfangaskýrslu í lok apríl næstkomandi.

Undanfarið hefur líka með réttu verið nokkur umræða um skort á heimilislæknum og yfir vofandi erfiðleika við endurnýjun þegar stórir árgangar fara að draga úr vinnuframlagi sínu á næstu árum. Hef ég ætlað nefndinni að skoða þetta einnig af fullri alvöru. 

Mér er ljóst að stór hluti þeirra sem leiddu þennan félagsskap í upphafi af eldmóði og sterkri hugsjónasemi hafa dregið þungt hlass. En nýtt fólk verður að koma í þeirra stað og aldursdreifing starfandi heimilislækna gefur fullt tilefni til þess að skoða þessi mál af fullri alvöru og mun það verða gert. Í þessu sambandi eru námsstöður heimilislækna mög mikilvægar og veit ég að mikið verk hefur verið unnið af hálfu félagsins á þessum vettvangi.

En á þessum merka afmælisdegi skulum við ekki dvelja of lengi við vandamálin, þau eru til að leysa. 

Hér í dag er enn eitt stórvirki íslenskra heimilislækna kynnt.  Það er marklýsing um sérnám í faginu.  Mér er til efa að önnur sérgreinafélög hafi lagt aðra eins vinnu í metnaðarfullar námslýsingar, staðla og aðra mikilvæga faglega þætti sem þessu tengjast, eins og Félag íslenskra heimilislækna.

Þessi marklýsing sem við fáum að skoða hér í dag er mikið verk og ég þekki það af eigin reynslu að hugverk af þessum toga krefjast óhemju mikillar vinnu, sem ég þykist vita að hefur verið unnin að mestu í frístundum utan vinnutíma.

Ég vil þakka heimilislæknum sérstaklega fyrir þessa vinnu, því mér er ljóst að hún mun verða leiðandi fyrir fleiri sérgreinar og mikilvæga vinnu sem við þurfum að vinna áfram í ráðuneytinu við að endurskoða kröfur til sérnáms allra annarra sérgreina.

Góðir gestir,
Ég vil einnig í þessu tilefni nota tækifærið og óska félaginu til hamingju með annað merkilegt afmæli í dag, því ég hef þá vitneskju að nú í dag séu 17 ár frá því að staða prófessors í heimilislækningum við Háskóla Íslands var sett á laggirnar, staða sem prófessor Jóhann Ágúst Sigurðsson, hefur sinnt af mikilli elju og framsýni, allt frá því fyrsta.

Mér er það líka kunnugt, að staða þessi var í upphafi gefin af Félagi íslenskra heimilislækna til þriggja ára eftir að mjög árangursríkt norrænt þing hafði skilað afgangi sem án efa byggðist á verulegu framlagi sjálfboðaliða.

Það er því lýsandi fyrir jákvætt hugarfar Félagsins að þeim afgangi hafi verið beint í svo uppbyggilegan þátt, sem að gefa stöðu prófessors.

Heimilislæknar láta ekki staðar numið.  Núna á 30 ára afmælisári hafa þeir ákveðið að gefa stórgjöf að nýju, rannsóknarstöðu til næstu fimm ára, þannig að menn geti einhent sér í rannsóknarvinnu og fengið leyfi frá sjúklingavinnunni meðan þeir stunda rannsóknir sínar.

Forsvarsmenn félagsins hafa tjáð mér að til standi að gefa 7 milljónir króna á ári til fimm ára til þessarar rannsóknarstöðu.  Ég get tilkynnt það hér og nú að af hálfu ráðuneytisins mun verða séð til þess, að þessi gjöf nýtist til launagreiðslna og að ráðuneytið og stofnanir þess muni taka að sér svokölluð launatengd gjöld.  Þessa þætti eigum við eftir að setja formlega niður á blað en ég lýsi enn og aftur þakklæti mínu fyrir þennan stórhug og fullum vilja þess að samningar um þetta einstæða framlag félagsins takist farsællega.

Ég hlakka til þess að við getum gengið frá þessu síðar á afmælisárinu við hentugt tækifæri.

Góðir gestir,
ég vil enn og aftur óska félaginu og aðstandendum þess innilega til hamingju með 30 ára afmælið.  Ég vil endurtaka þakkir mínar fyrir dug og framsýni félagsins og vonast til að svo verði um ókomin ár og samstarf okkar muni verða farsælt, sjúklingum og starfsfólki til farsældar.

Takk fyrir.

 

Talað orð gildir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum